fimmtudagur, desember 29, 2005

...mikið búið að vera um að vera upp á síðkastið. Er mætt á heimaslóðirnar í firðinum fagra og er að fara aftur suður á morgun. Jólin voru auðvitað yndisleg og gjafirnar hverri annari betri svo það er ekki hægt að kvarta yfir neinu þar. Hlakka voðalega til að fara suður á morgun og hitta Gunnar aftur og allt fólkið mitt þar en er samt leið yfir að vera að fara frá fjölskyldunni minni hérna. En allavegnann kemur hérna smá stikkorðalisti yfir hvað ég hef brallað í firðinum:
Borðað x alveg helvítis hellingur af mat en miklu minna af kökum og konfekti en venjulega.
Labbað x 6 eða meira, mikil heilsuefling átti sér stað um jólin.
Horft á sjónvarp x mjög lítið, en eitthvað smá samt.
Drukkið áfengi x 2, rauðvín á aðfangadagskvöld og einhver helvítis hellingur á annan í jólum.
Farið á barinn x 1, en bara í nokkrar mínútur.
Labbað heim í gullskóm og komst heil heim x 1 allt Nedda að þakka því ég fékk lánaðan arm hjá honum.
Slys x 1, datt á eldhúsgólfinu um mína eigin fætur og rak hökuna í þröskuldinn inn í þvottahús. Samt fegin að hurðin var opin því annars hefði ég örugglega rotast. Var mjög sárt og lítur ekki vel út en var amk ekki lamin í þetta skiptið!
Bíó x 1, skrapp í gamla góða bíóið okkar í gær og horfði á In her Shoes, alveg ágætis skemmtun eins og allt er hérna í fallega firðinum.
Kaffi hjá ættingujum x 5, fjöslkyldan klikkar aldrei á kaffikönnunni og meðlætinu og ekki má gleyma að minnast á jólagrautinn góða í hádeginu á aðfangadag.
Rúntur um bæinn x 4, allir svo góðir að rúnta fullt, Herdís 2x, Ásta 1x og pabbi 1x og svo auðvitaið fullt af smárúntum þegar var skroppið í búðarferðir og svoleiðis.

Ahhhh hljómar þetta ekki vel krakkar mínir?? Endalaus afslöppun og notalegheit í gangi í kaupstaðnum. Svo eru bara áramót ekki á morgun heldur hinn, held að partýið sem ég fer í í borginni geti bara ekki klikkað enda afbragðsfólk sem verður á staðnum...

mánudagur, desember 12, 2005

...klukkan hálf 3 á laugardaginn var hringt í mig sem er svo sem ekki frásögufærandi nema að það voru Dana og Sverrir að spurja hvort ég vildi koma með þeim á jólatónleika Frostrósanna með íslenski dívunum og þeir áttu að byrja klukkan 4. Svo ég dreif mig af stað og
borðaði
talaði
hringdi
talaði
háttaði
bleytti
sápaði
þvoði
skolaði
þurrkaði
kremaði
klæddi
blés
málaði
hringdi
og
fór
allt á vel innan við klukkutíma

Þetta var rosalega skemmtilegt og fallegt og ég verð að viðurkenna að eitt eða tvö tár létu sjá sig í augnhvörmunum. Ég er ofboðslega glöð að þau hringdu og spurðu mig því ég er svona manneskja sem sé auglýsingar og hugsa með mér hvað það væri gaman að fara en fer aldrei.

En nú er best að fara að byrja á einhverju af öllu þessu sem ég ætla að koma í verk í dag...

laugardagur, desember 10, 2005

...ætlaði í heimsókn til Dönu og Sverris í gær en komst ekki sökum mikilla magaverkja. Það er auðvitað ekkert nýtt á þessum bæ en ég var samt alvarlega farin að íhuga á tímabili hvort botnlanginn (blessuð sé minning hans) hefði vaxið aftur og vildi komast til forfeðra sinna!

Æði dagsins er svo mygluostur og alveg sama hvernig hann er á litinn. Spurning hvort hann fari vel í magann? Læt ykkur vita seinna! ;) Ef ég fæ æði fyrir einhverjum mat þá er ég alltaf spurð hvort ég sé kannski bara ólétt. Fyrir ykkur sem eruð í þeim þankaganginum get ég sagt ykkur hreint út nei þó að ég hafi verið með legverki um daginn. Spurjið mig um svoleiðis hluti þegar ég get ekki hamið mig í poppáti og rababaranarti. Mér finnst bara mygluostur og ólívur vera eðlilegur matur til að narta í!! Varúð samt, aldrei borða síld, skyr og ólívur fylltar með papriku og tabascosósu á innan við hálftíma, áááááiiii...

föstudagur, desember 09, 2005

...hef bara haft það gott undanfarið. Skellti mér í jólakortaföndur og óáfengt glögg með því með Gyðu á þriðjudaginn. Stóð mig bara nokkuð vel að eigin áliti en þið sem fáið heimagerð kort verðið kannski á öðru máli þegar þið fáið þau í hendurnar. Verið þá bara svo væn og látið það eftir mér að þykjast finnast þau rosa flott svona afþví að það er jólin og allt það! :)

Í gær bauð Madda mér með í Smáralindina og við örkuðum þarna um og skoðuðum og skoðuðum og drukkum svo auðvitað rjúkandi kaffi. Bjóst ekki við að það væri svona notalegt að vera í Smáralindinni að kvöldi til en það var alveg yndislegt, mjög rólegt og afslappað. Það geta verið tvær ástæður fyrir því, nr.1 að fólk sé ekki byrjað að stressa sig upp úr öllu valdi og taka þátt í brjálæðinu sem stundum er á Íslandi rétt fyrir jólin eða nr.2 að Smáralindin sé eftir allt saman alltof stór og að ég hafi hreinlega ekki tekið eftir því að þarna væru mörg hundruð manns. En hvað um það, eftir búðarrápið fékk ég frábæran jólaseríurúnt þar sem við keyrðum götur sem við höfðum ekki hugmynd um að væru til. Margir sem skreyta ofboðslega stílhreint og fallega og svo eru aðrir sem halda að þeir sleppi vel með að skella upp slönguseríu, að það sé bæði fallegt og ódýrt. En getiði hvað!! Nei það er ekki fallegt sama hvað hver segir nema hún sé ofboðslega vel strekt, vafin fallega utan um súlur eða ljósastaura eða búnar til myndir úr þeim. Takið nú mín orð gild og hana nú!!

Er líka alveg að verða búin að hala öllum jólagjöfunum í hús, skruppum í morgun og keyptum tvö stykki svo þetta er allt að gerast. Enda ekki seinna vænna því ég skoppa austur eftir 9 daga minnir mig. Það er samt að þróast ákaflega mikill og langvinnur höfuðverkur um hvað ég á að gefa yndinu honum karlinum mínum. Hann gefur mér engar hugmyndir og þykist ekki langa í neitt sem getur ekki staðist með mann sem hefur áhuga á svona mörgu. Ef við gröfum nógu djúpa langar okkur öllum ákaflega mikið í eitthvað en svo er bara spurning um hvað það kostar og svoleiðis smotterí...

mánudagur, desember 05, 2005

...vá hvað ég er búin að vera mikið nörd núna! Var að downloada LimeWire og er búin að ná mér í nokkur lög og, undirbúið ykkur undir þetta, 5 þætti af Thundercats og 2 af Jem and the Holograms. Já já bara töff að vera með nostalgíu á mjög háu stigi. Var líka að gera tölvuna persónulegri og fékk mér bakgrunn með mynd af Panthro *roðn* og er þar af leiðandi búin að skoða endalaust margar síður um Thundercats. Það allra síðasta í nördaskapnum var svo að finna alla textana við Buffy-þáttinn Once More With Feeling sem er söngþátturinn ef einhverjir kannast frekar við hann. Er búin að copy/paste-a alla textana í wordskjal svo ég geti rennt yfir þá að gamni! :)

Ok er hætt að segja frá svona hlutum æi bili, ég fer bara hjá mér!

Örstutt um liðna helgi: Afslöppun á föstudagskvöldið, kveðjupartý fyrir Auði á laugardagskvöldið, róleg og góð stemmning með kertaljós og jólasmákökur og svo sötraði fólk eitthvað með. Bærinn = 22 en lítið dansað meira sitið og spjallað og látið aulalega. Var eitthvað í loftinu! Sunnudagur: jólaþorpið í Hafnarfirði, keypt ein gjöf og 2 hekluð jólaskraut, strætó aftur í borgina og hreindýrasúpa í brauði og kaffibolli á eftir á Svarta Kaff. Kvöldinu lokið með Bollywood mynd, teppi og vatnsglas heima hjá Gyðu! :)

Nerd is the new cool...

föstudagur, desember 02, 2005

...ég er svo mikill klaufi!! Skruppum í búð eftir miðnætti sökum hungurs, skelltum pytt i pannan í körfuna ásamt banönum og jólaglöggi, einhverju eðlilegu að drekka og vínberjum. Já ég var svo stabíl að langa ekki í nammið sem ég var búin að láta mig dreyma um í tvo daga og geri aðrir betur! Brunuðum heim hálf hungurmorða, skelltum pyttinum á pönnuna og kjömmsuðum á vínberjum á meðan. Pytturinn var kryddaður og svo mokað upp á disk en þá vobbosí það duttu nokkrir kartöflubitar á eldavélina. Sirrý kartöfluhetja ætlaði að bjarga þeim með sinni alkunnu snilld en fipaðist eitthvað og rak vesalings litla puttann í pönnuna og situr núna uppi með brunarönd og sviða. Ekki gaman en ætli ég lifi ekki af!!

Ef einhver þarna úti er mikill aðdáandi minn og langar að gefa mér eitthvað skemmtilegt í jólagjöf mæli ég með annað hvort Gargoyles season 1 eða DuckTales season 1 fyrir þá sem eru ekkert að hugsa um rosalega dýrt en smá samt! ;) Þeir sem vilja eyða aðeins meiru í mig en helling geta skellt sér á Thundercats season 1 - volume 1 eða 2!! Já ég er svona nostalgíukona og var svo langt leidd um daginn að langa meira að segja að glápa á My Little Pony...

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

...það meiga alveg fleiri kommenta eða skrifa eitthvað fallegt í gestabókina eins og hún Gúa gerði um daginn. Var að sjá það núna áðan og það er alveg búið að bjarga deginum! Takk elsku frænka og ég sakna ykkar líka alveg rosalega!! Á ég ekki bara að flytja til ykkar?? ;)

En að allt öðru. Afhverju fer sumt fólk í taugarnar á manni áður en m aður talar við það, eða eins og ég lenti í um daginn, sér framan í það? Hitti sem sagt stelpu um daginn, sá fyrst aftan á hana og ég hugsaði strax "vá hvað hún er örugglega óþolandi!!". Svo snéri hún sér við og byrjaði að tala og ég fékk kuldahroll niður eftir hryggnum. Hún hafði aldrei séð mig áður en var samt dónaleg við mig inni á mínu eigin heimili. Sagði við mig að tala um það sem ég var að tala við sambýling minn á mínum eigin tíma. Veit ekki betur en að þegar ég er heima hjá mér að tala við sambýling minn að ég sé að gera það á mínum eigin tíma! Allt hennar fas var fráhryndandi og leiðinlegt og meira að segja eftir að ég lokaði inn til þeirra og inn til mín heyrði ég pirrandi tröllahláturinn. Æj ég veit að það er ekki fallegt að gefa fólki ekki séns en stundum gefur fólk heldur ekki tækifæri á því. Þið skiljið er það ekki...

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

...fékk undarlegasta símtal sem ég hef fengið lengi í gær. Þátttakendur X sem hringdi og ég sem svaraði.

X: Halló Sirrý, þetta er X hérna.
Ég: (með æji nei ekki þú tóninum) já hæ.
X: Sko þannig er mál með vexti að ég og kærastan/barsmóðir mín erum hætt saman einu sinni enn en einhver stelpa hefur verið að senda henni nafnlaus sms af netinu og segja að ég væri í algjöru rugli og ætti 2ja ára gamalt barn með sér. Gæti það nokkuð verið þú?
Ég: HA? Nei, afhverju í ósköpunum?
X: Æ bara var að pæla hvort þú værir eitthvað reið við mig?
Ég: Nei, ég hef bara ekkert verið að hugsa um þig, bara verið hamingjusöm með mínum manni sem ég bý með.
X: Ok það er frábært! Fyrrverandi er alveg að fara yfirum og heldur að ég hafi verið að halda framhjá sér.
Ég: Hahahahaha mér finnst það nú eiginlega bara svolítið fyndið!
X: Já kannski svolítið gott á mig.
Ég: Já eiginlega.
X: Jæja farðu þá vel með þig.
Ég: Já já sömuleiðis.

Dudududududududu...

mánudagur, nóvember 21, 2005

...vaknaði uppfull af húsmóðureldmóð í morgun eftir 13 tíma svefn. Var aðeins að bæta mér upp svefneleysið eftir Singstar-partýið því þá náði ég bara að sofa 3 og 1/2 tíma. Vakanði sem sagt klukkan 9 í morgun alveg staðráðin í að elda loksins þessar blessuðu kjötbollur, hvítkálið, kartöflurnar og steikja laukinn og bræða smjörið. Hófst handa rétt fyrir 11 við að sjóða kartöflurnar, þegar ég kíkti á þær næst hafði nákvæmlega ekkert gerst. Hellan var biluð svo þær syntu þarna um í ísköldu vatni litlu greyin. Mín var snör í snúningum og skellti pottinum á aðra hellu og allt í botn og eftir stutta stund var komin upp suða. Þá var farið að athuga með pott undir bollurnar og kálið og fattað að úbbosí við eigum engan stóran pott. Kartöflurnar fengu þá enn eitt ferðalagið og var þeim ásamt sjóðandi vatninu hennt í minni pott og undu þær sér ákaflega vel þar. Þá kom ennþá eitt vandamálið í ljós, fyrst fyrsta hellan sem ég reyndi að nota var biluð þá hafði ég bara 2 hellur til umráða þar sem mikill reykur gýs upp af 4. hellunni. Jæja þá upphófst mikil við eftir kartöflunum svo hægt væri að sjóða bollurnar á þessum tveimur hellum semeftir eru heilar. Óþolinmæðin gerði aðeins vart við sig og stressið yfir því að karlinn yrði alltof seinn í vinnuna kom upp. Ekkert við því að gera og hann settur í það verkefni að hringja sig inn aðeins of seinann. Loksins komust bollurnar og kálið í sitthvorn pottinn og fengu að dúsa þar dágóða stund eða um 10 mínútur samkvæmt ráðleggingum frá singstarpartýishaldaranum henni frænku minni og á meðan gerðist ég húsmóðir ala mamma og skrallaði allar kartöflurnar og það var ekki gaman. Ok allt gekk vel og þetta bullsauð allt saman þarna, var svo tilbúið og sigtað og geymt í smástund meðan laukurinn var svissaður og smjöri bætt við og búin til laukfeiti, það tók næstum engan tíma svo allt var ennþá heitt þegar þetta komst loksins á borðið. Karlinum líkaði vel og lagði af stað fullur af orku fyrir komandi vinnudag og verður innan við hálftíma of seinn. Það er líka smá afgangur sem er víst það sem allar góðar húsmæður vilja því þá er alveg á hreinu að allir fara saddir frá borðinu. Sit sem sagt hérna núna södd og sæl eftir þessa feitu máltíð, ætla að melta aðeins áður en leiðinlegri parturinn af húsmóðurvinnunni hefst. Uppvaskið!!! Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunda við tilhugsunina en þetta fylgir víst...

sunnudagur, nóvember 20, 2005

...eftir spennufall föstudagsins hélt ég á vit ævintýranna með Möddu í gær þar sem við skelltum okkur á Laugaveginn. Komið var við í Bónus og keyptir bananar, súkkulaði og eitthvað að drekka, þrammað niður í bæ og þaðan í Kolaportið, skoðað undarlegt drasl eins og gamlar Vikur sem fólk heldur að það geti prangað inn á saklausa vegfarendur og svo komið sér inn í hlýjuna á reyklausu kaffihúsi og sötrað heitt og gott te og kaffi. Þar var blaðrað þar til orðakvótinn var uppurinn og svo brunað í Hafnarfjörð að finna einhverjar tuskur á Magdalenu, svo var keyrt í einum grænum á Neshagann að fata mig upp og svo drifið sig til Gyðu eða Darcy eins og hún kallar sig á góðum dögum. Þar voru við samankomin nokkrir fræknir söngvarar til að spreyta okkur í Singstar og væta kverkarnar með léttum mjöð og hvítvíni. Stemmningin var rosaleg, allir sungu hástöfum hvort sem þeir höfðu míkrófóninn í hendinni eða ekki, margar pósur voru festar á filmu og fólk tróðst um hvert annað til að sjá á skjáinn sem olli miklum niðurhellingum og ófáir metrar af eldhúspappír fengu að fjúka. Það var hlegið, talað, öskrað, hoppað, skoppað, trallað og auðvitað gaulað og andköf tekin til að fá loft ofan í óþjálfuð lungun sem kölluðu á súrefni eftir lengstu syrpurnar. Niðurstaðan er að þetta var ákaflega skemmtilegt kvöld, þar sem allir voru vinir og allir voru með, stigin skiptu ekki máli heldur var það gleðin sem var ótvíræður sigurvegari...

laugardagur, nóvember 19, 2005

...váááháááá hvað Serenity var góð mynd!!! Við Gyða skelltum okkur bara í bíó klukkan 17:45 og það var æði því við vorum ca 12 í salnum. Við stöllur vorum án efa mestu aðdáendurnir á staðnum og hlógum og klöppuðum, stundum, grétum og pískruðum. Spenningurinn áður en myndin byrjaði var þvílíkur að gæsahúð gerði vart við sig og augnkrókarnir vöknuðu aðeins. Þegar myndin kláraðist leið mér bæði vel og illa, vel því myndin var æðislega góð og skemmtileg og stóð fyllilega undir væntingunum sem ég hafði gert til hennar. Illa því núna er ég búin að sjá hana, spenningurinn liðinn hjá og smá tómleika tilfinning gerði vart við sig. Alla leiðina heim var ég svo með einhverja undarlega tilfinningu í hjartanu, var svo upprifin yfir myndinni og langaði og hlægja og gráta og tala við alla um hana, greina hana og bera saman við þættina. Bráðum get ég hellt úr skálum aðdáunirnar yfir alla því í kvöld verða held ég flestir sem ég þekki og hafa áhuga á þessari mynd búnir að sjá hana! :)

Svo er það bara Harry Potter, Narnia, Brothers Grimm og fleiri skemmtilegar ævintýra myndir sem bíða, get varla beðið...

föstudagur, nóvember 18, 2005

...ííííí ég hlakka svo til að fara á Serenity í kvöld með Gyðu. Gunnar átti 2 miða á forsýninguna 2. nóv en ég sagði honum að bjóða einhverjum vini sínum með því ég var búin að lofa Gyðu að fara með henni og hún var einmitt að vinna þetta kvöld.

Hmmmm hvað er ég búin að gera undanfarið? Jú jú verslaði fyrir 12 þúsund í Bónus og engan óþarfa nema 2l sprite og einn flórídana handa mér því ég var svo þyrst, finnst þetta vera mikið afrek! :) Gerði ekkert síðustu helgi nema slappa af og auðvitað versla í Bónus hahaha, búin að ráða klikkað margar soduku þrautir, lesa smá, fara í 2 yndisleg böð með skúbbhanska og grænan andlitsmaska, leggja skrilljón spider kappla og nokkra venjulega og ekki má gleyma horfa á alla fyrstu þáttaröðina af Veronica Mars. Vá ví hvað ég hlakka til að sjá þáttaröð númer 2, er bara að deyja úr spenningi!! Hver er það eiginlega sem kemur til hennar í lokin á síðasta þættinum? Ég er að klikkast úr forvitni og það er bara búið að sýna 7 eða 8 þætti í USA svo ég verð að bíða eitthvað eftir að Bjössi geti keypt næsta dvd sett! ;)

Er búin að vera vakandi síðan klukkan 7 í morgun og vera ótrúlega reykvísk og lesa blöðin eldsnemma. Setti reyndar líka í þvottavél sem er svo sem ekki frásögufærandi. Æj nenni ekki að reyna að muna meira...

mánudagur, nóvember 07, 2005

...vátsí hvað ég er búin að vera dugleg í dag! Eftir að hafa hjálpað Bjössa að þrífa eldhúsið eftir japönsku-partýið ákvað ég að demba mér í þirf og endurskipulaggningu á herberginu okkar. Núna er allt orðið skínandi nema gólfið, ætla að skúra það seinna þegar við tökum öll gólfin í íbúðinni í gegn, þvottavél númer 2 er í gangi og ég búin að fara í yndislegt freyðibað með grænan maska framan í mér og slappa vel af. Fattaði ekki fyrr en ég var komin á bólakaf ofan í baðkarið að athuga hvort það væri til gúrka á augun og að ég hafði gleymt skrúbbhönskunum mínum. Finnst reyndar ógeðslega vond lykt af gúrku en hef heyrt að hún geri í alvörunni undraverk fyrir augnsvæðið. Verð bara að munda eftir henni næst! :) Sit núna á hreina rúminu, í hreinum náttfötum og öll mjúk eftir barnaolíuna sem ég bar á mig og hlusta og gamla rómantíska tónlist sem Bjössi er að spila. Gerist ekki betra fyrr en Gunnar kemur heim í kvöld...
...æðisleg helgi að baki. Rosalega góður kjúlli og félagsskapur hjá Finni á föstudagskvöldið *slurp*, smakkaði líka martini í fyrsta skipti og nammi nammi namm!! Við Madda og Finnur sulluðum sem sagt í bjór, rósavíni, hvítvíni og martini og skelltum okkur svo á Ölstofuna og sátum þar til lokunar. Svo fékk hún Madda að gista hjá okkur svo hún þyrfti ekki að punga út ca 2500 kalli í taxa.

Á laugardaginn vaknaði ég við eitthvað blaður, þá var eitthvað crazy fólk komið til Bjössa til að undirbúa sushi partýið sem hann var með fyrir japönskubekkinn sinn. Ég hennti mér í íþróttabuxur og settist fram og skipti mér af og borðaði japanska snakkið sem var ákaflega gott-vont! Svo var kominn tími á að henda hálfri búslóðinni í tösku og strætóast til Gyðu og undirbúa sig fyrir halloween-partýið. Við vorum dætur djöfulsins í öllu rauðu með horn og hárið allt túperað í breiðan hanakamb. Það var hrikalega gaman í partýinu og ég flissaði eins og 13 ára hálft kvöldið. Stuðið var svo mikið þegar við fórum í bæinn að við hættum við að skipta um föt og mættum á 22 með hornin og det hele. Fengum mikla athygli út á þetta og virkuðum örugglega mjög undarlegar í augum margra. Ég var með mikinn púka í mér þetta kvöld og hegðaði mér eftir því, dillandi rassinum í "næstum ekki" pilsinu eins og ég kýs að kalla það. Var líka úti til lokunar þetta kvöld enda var ég svo þreytt í gær að ég var ekki í sambandi, hafði enda matarlyst og leið eins og væri með sand í augunum. Dagurinn fór líka allur í mók og góða drauma...

föstudagur, nóvember 04, 2005

...hann Gunnar er svo mikið yndi, :* hann gaf mér risastóra sudoku-bók þegar hann kom heim úr vinnunni í kvöld! :) Heilar 412 þrautir sem byrja mjög léttar og enda svo í allskonar útfærlsum. Er búin að ráða yfir 60 þrautir í kvöld enda voru þessar fyrstu alveg voðalega léttar, gat bara ekki hugsað mér að skilja þær eftir.

Alveg fullbókuð helgi hjá mér, ætla að leika við Gyðu seinnipartinn á morgun og brainstorma um búninga fyrir halloween-partýið. Eftir það skunda ég til Finns í matarboð þar sem ég ætla að borða vel og vera skemmtileg! :) Svo er örugglega nóg að gera á laugardaginn við að fínpússa búninginn og svo auðvitað partýið sjálft og jíííí hvað ég hlakka til! :) Kvíði reyndar svolítið fyrir, sumir verða örugglega í ógeðslega flottum búningum en ég verð bara þannig næst þegar ég á fullt á peningum og hef mikinn tíma - sem sagt aldrei!! :/

Úbbósí ísinn minn er alveg að verða að einni soppu svo ég verð að borða...mmmmm bónus-vanilluís...

mánudagur, október 31, 2005

...ég er eiginlega ennþá lasin og orðin frekar leið á þessu. Kvefið er mikið og er byrjuð að hósta, Gunnar er farin að kalla mig Snörlu sem ég er ekki alveg sátt við! Var auðvitað bara heima um helgina og hafði það eins gott og hægt var, spjallaði við mömmu í símann því kerlan átti afmæli á laugardaginn og horfði svo á Veronica Mars á dvd. Gunnar og Bjössi fóru í Halloween-partý en voru báðir stilltir strákar og komu snemma heim og elduðu sér pasta! :)

Gerist auðvitað ekki mikið þegar maður fer ekki út úr húsi, fór samt í mat til tengdó í gærkvöldi og fyllti mallann af kjúlla og meðlæti *slurp*, kom svo heim og fór að sofa klukkan 22.´

Vá hvað þetta er óáhugavert blogg...

þriðjudagur, október 25, 2005

...ligg hérna heima og hef það skítt, er auðvitað orðin lasin einu sinni enn og allt Bjössa að kenna sem smitaði mig. Var allt í fína í gær og svo í dag bara sárlasin með vont bragð í munninum. Svaf líka alveg hörmulega, alltaf að vakna og það við hluti sem ég er vön að sofa eins og steinn yfir eins og ruslabílnum. Var alveg að klikkast í morgun á hávaðanum í honum!! Skrapp samt í elskuðu Melabúðina mína áðan dúðuð í ullarbuxur og ullarpeysu og allan pakkann og keypti mér að drekka, borða og sterkan brjóstsykur. Hitti Binnu gömlu bekkjarsystur mína þar og spjallaði auðvitað við hana sem var bara gaman, hef ekki séð hana geðveikt lengi. Hef svo bara legið í rúminu og horft á dvd, var að enda við að klára Escaflowne - the movie sem var ekki nærri því eins góð og þættirnir en ágæt samt. Held ég hefði samt ekki lagt í hana ef ég væri ekki búin að glápa á alla þættina, vantaði mikið útskýringar og persónusköpunin ekki alveg nógu góð.

Skrapp í partý til Everts á laugardaginn með Gyðu og Klemensi og svo komu Madda, Dana og Sverrir þangað. Ég skemmti mér ofboðslega vel og dansaði eins og brjáluð manneskja á 22, var eitthvað svo akkúrat eftir partýið að það var ekki einu sinni splæst í bjór á barnum heldur bara fengið sér vatnsglas. Er að verða svo þroskuð hahahahaha!! ;) Strunsaði svo alveg á milljón heim og er ekki frá því að smá beinhinmubólga hafi látið á sér kræla eftir það. Gunnar hefur ekki roð í mig þegar ég tek strunsið, rassinn inn, brjósin út, hakan upp, af stað og svo sést bara reykur!

Svo er bara að fara að finna búning fyrir hrekkjavökupartýið sem ég held að verði 5. nóvember. Ég hlakka voðalega mikið til en ég er alveg voðalega slæm að finna búning, er svo hugmyndasnauð. Reyndar hefur Gyða verið dugleg að koma með hugmyndir en ef þið sem lesið hafið einhverjar skemmtilegar hugmyndir sem er ekkert svo erfitt eða dýrt að framkvæma látið mig þá endilega vita! :)

Ætla að fara að fá mér blóðmör, það hlýtur að vera rosalega hollt þegar maður er lasinn, allt þetta járn og svona...

mánudagur, október 17, 2005

...fór á Flightplan á laugardaginn í Háskólabíó. Myndin var nokkuð góð en öðruvísi en ég hafði búist við. Salurinn var hrein hörmung, ekki tjaldið sjálft eða hljóðið kannski en sætin - jesús minn almáttugur!! Þau eru lítil og þröng, ég var að kremjast á milli Hildar Jónu og Örnu og ekki eru þær nú stærstu konur í heimi og ég sem næ ekki alveg að slefa í 165 cm ( er 163,7) var með hnén alveg í sætinu fyrir framan mig og svo eru engin statíf fyrir glös eða flöskur sem er undarlegt því það mundi nú aldeilis vera gott fyrir nemendur á fyrirlestrum að geta geymt vatnsflöskuna eða kókið þar. Hneyksl og meira hneyksl og mig langar aldrei aftur að fara í stóra salinn í Háskólabíói! Aldrei!! ALDREIIII!!!!

Átakið byrjar vel með harðsperrum og fylgikvillum og hádegisferð á KFC í dag *roðn*! Var búin að vera að deyja úr löngun í KFC síðan um helgina og Gunnar bauð mér í hádeginu. Þvílíkt hvað hugurinn gabbar mann aftur og aftur í að kaupa svona skyndibitaruslcrap, í minningunni er þetta alltaf svo gott en þegar maður byrjar að gæða sér á þessu er þetta ekkert eins gott. Maður verður of saddur en ekki "gott" saddur eins og af hollum mat, heldur þungur og asnalegur. Svo fær maður klígju og velgju og vonda samvisku yfir hvað þetta er dýrt. Æji þið þekkið þetta sennilega flest öll!

Ætla í ræktina á morgun en ekki á skyndibitastað svo mikið er víst. Stefnan sett á hlaup og svo BodyBalance og hinn daginn ætla ég í BodyPump. Svo er bara að setjast niður og plana hina dagana en næsti laugardagur er sko upptekinn því þá ætla ég aftur í afró og verða sterk og stollt kona sem er ánægð með það sem hún hefur...

laugardagur, október 15, 2005

...ég hlýt að vera orðin gömul því ég vaknaði 2x í nótt til að pissa og glaðvaknaði svo klukkan 6:30. Ég sem píndi mig til að vaka til miðnættis í gær svo ég gæti sofið vel í nótt (vaknaði sko líka snemma í gær en ekki fyrr en að verða 9 samt!). Eftir að hafa ráðið krossgátur og spilað mini-golf í gemsanum var kominn tími á að ná í Fréttablaðið, fá sér seríós og senda Gyðu sms um að ég kæmi með henni í ræktina. Hún var að fara í afró-dans svo ég, sem þoli ekki eribik og þannig, skellti mér með en var samt með kvíðahnút í maganum yfir þessu og var næstum farin á brettið í staðinn. En sem betur fer píndi ég mig í tímann og váví hvað þetta var gaman, miklu grófari spor en í ógeðis eróbikinu og mikill hraði og sviti og trommur og allt bara. Ætla aftur næsta laugardag, skemmtilegt að brjóta brennsluna aðeins upp! :)

Vonir mínar rættust og ég er að fara í bíó og kaffihús með Hildi Jónu og Örnu í kvöld. Verð að viðurkenna að ég hlakka voðalega mikið til að hitta þær og komast að hvað er að gerast hjá þeim og drekka sweet sweet coffee!! :D

Er orðin voðalega þreytt og langar svo að leggja mig, bara svona pínu smá en held að það sé eiginlega alveg bannað. Nenni ekki að lenda í eins og á fimmtudaginn þegar ég rotaðist svo að hvorki ótal símtöl né Gunnar gátu vakið mig. Ég, sem aldrei þessu vant gat valið um tvennt til að eyða tímanum í gerði hvorugt en get huggað mig við að mig dreymdi amk skemmtilega! Hmmm var ég búin að skrifa þetta?? Æi man það ekki *hux*, sko ég sagði ykkur að ég væri orðin gömul...

föstudagur, október 14, 2005

...í dag var ég hetja og reif mig á lappir fyrir klukkan 9 og skellti mér í ræktina með frænku gömlu og púlaði í jógalates. Skellti mér svo á árskort og stefni á að mæta aftur á morgun en slappa af á sunnudag. Já ég finn að þetta er allt að koma!! :) Það varð reyndar svolítil auka líkamsrækt í labbformi hjá mér því við Gyða fórum í Kringluna eftir að hafa hesthúsað seríósi og léttmjólk, fylgdi svo Gyðu í vinnuna og ætlaði að labba niður á Hlemm. Var svo að tala í símann við Hildi Jónu og ákvað að labba aðeins lengra, skellti mér svo inn í bókabúð og aðra bókabúð og búbbs skiptimiðinn var útrunninn (hann gilti í ekki litla tæpa 2 tíma) svo ég var að labba alla leið á Neshagann. Það var reyndar voðalega hressandi svona í haustveðrinu og velklædd!! :)

Á morgun er stefnan sett á að hitta Hildi Jónu og kannski Örnu og gera eitthvað skemmtilegt eins og bíó og kaffihús. Vona bara að það verði eitthvað úr þessu því það er langt síðan ég hef hitt þær almennilega. Hmmm ætti kannski að ath hvað er í bíó bara svona til öryggis...

fimmtudagur, október 13, 2005

...heij Spider-man 2 var svo bara mjög skemmtileg, ég þurfti greinilega bara að koma mér í "horfa á eitthvað" stuðið! :) Það er allt leiðinlegt ef maður nennir ekki að gera það og það vitum við öll.

Á aðfaranótt sunnudags þann 11. október eignuðust besti vinur hans Gunnars og Stebba konan hans strák. Við brunuðum í gær að kíkja á gripinn og ji minn eini hvað hann er lítill og sætur, ekkert krumpaður eða rauður bara ofboðslega fallegur. Undarlegt að sjá þetta kríli sem er 14 merkur og vita að ég var miklu minni eða aðeins 11 merkur. Við eigum reyndar eftir að kaupa sængurgjöf handa honum og það er á dagskránni á næstunni og hef ég ákveðið að ég fái að ráða en Gunnar að borga!! ;) Góð skipti ekki satt??

Ég hef verið að spila mikið í GameBoy Advance tölvunni minni upp á síðkastið Gunnari til mikillar ánægju því þá getur hann sökt sér í World of Warcraft á meðan og ekkert tuð í kerlunni. Er orðin alveg húkt á leik sem heitir Super Mario World, svo húkt að ég bara verð að gera öll aukaborðin og finna auka útganga og allt þetta dótarí. Verst að ég er frekar léleg og virðist ekkert verða betri með æfingunni en jæja ég hef amk gaman að þessu þó mig langi stundum að grýta tölvunni í gólfið og það berist djöfulleg óhljóð frá mér.

Spurning hvort ég komist í ræktina í dag, hef verið allt of lengi á leiðinni að kaupa mér kort og þða virðist allt eitthvað "koma uppá" þegar ég ætla að skella mér af stað! ;) Held að þetta heiti leti á hreinni á íslensku en ég hugsa þó amk um að gera eitthvað ólíkt mörgum...

þriðjudagur, október 11, 2005

...er búin að horfa á hálfa Spider-man 2 og er ekki að nenna að klára hana en æla að pína mig til þess eftir þetta blogg. Hún er örugglega fín en byrjar mjög hægt og ég er eitthvað svo eirðarlaus að ég hef enga þolinmæði til að festa mig yfir henni. Var annars í mat úti á Nesi áðan eins og svo oft áður, vorum að hjálpa til við að borða afgangana frá því á sunnudaginn en þá var okkur boðið í hangikjöt og alles bara eins og á jólunum *slurp*. Í dag vorum við samt svo heppin að fá smá slátur með líka og váví hvað mér finnst blóðmör góð *nammi namm*, verð að kaupa mér blóðmör við tækifæri.

Annars svo sem ekkert að frétta frekar en venjulega nema jú ég mæli með myndinni Crash sem skartar fjölda þekktra leikara í aðalhlutverkum. Skellið ykkur á leiguna og takið þessa ef ykkur langar að sjá alvöru mynd, þið verðið ekki svikin!!!

En well, aftur í Spider-man...

fimmtudagur, september 29, 2005

...það hafa verið rólegir dagar hjá mér undanfarið, bara legið og lesið, spilað tölvuleiki og horft á teiknimyndir og sjónvarpsþætti. Ahhh þetta er lífið!! ;) Í gær var reyndar smá breyting á því okkur var boðið í mat út á Nes því Ásta Rún ofurskutla varð 17 ára, fengum dýrindis kjúklingabringur og með þeim og svo horfðum við á The Labyrinth með henni sem við gáfum henni reyndar í afmælisgjöf! :) Svo var kominn tími á að nýta miðana sem við áttum á Charlie and the Chocolatfactory og við brunuðum í Kringlubíó. Það voru örugglega ca 10 manns samtals á öllum myndum og við vorum bara tvö á Charlie. Mér fannst það frekar skrítin og svolítið óþæginleg tilfinning fyrst en svo var það bara kósý og þæginlegt!! :D Myndin var skemmtileg, amk leið tíminn nógu hratt en vá hvað hún var samt undarleg og hvað Willy Wonka er krípí *hrollur*.

Svo er það helgin, já helgin, helgin, helgin. Mig langar út á lífið enda fer ég ekkert svo rosalega oft undanfarið. Get farið í tvö partý og verð bara að sjá til í hvort ég fari eða hvort ég fari nokkuð nema upp í rúm! Sjáum til með þetta allt en ætla amk að þvo svona til öryggis...

mánudagur, september 26, 2005

...nóbbs ekki hætt að blogga, hef bara verið eitthvað andlaus upp á síðkastið. Samt gaman að einhver hafi spurt!! :D

Ok nú hef ég verið klukkuð tvisvar sinnum, þarf ég þá að segja 10 hluti um mig??? Móa og Binna eru svona ógurlega forvitnar um mig og mína hagi svo það er best að láta þetta eftir þeim! Ok hérna koma ógurlegheitin:

1. Ég bý í hálfgerðri kommúnu með 3 strákum, kærastanum og svo Boga og Bjössa.
2. Það býr vandræða dópistapakk fyrir neðan okkur svo við erum alltaf í hálfgerðri hassreyksvímu hérna uppi!
3. Ég er náttúrulega ljóshærð - allsstaðar!
4. Ég er háð sykri og borða oft fullt af nammi án þess að langa í það, er löngu komin með ógeð af öllu nammi!
5. Ég elska '80 teiknimyndir og ætla að kaupa Jem and the Holograms á dvd fljótlega og seinna Thundercats líka!
6. Sef alltaf með Rasmus bangsann minn hjá mér og tek hann í fangið ef mér líður illa. Pabbi keypti hann í Færeyjum þegar ég var ca 1.árs!
7. Ég sting rassinum undan sænginni þegar ég sef og prumpa fúlli lykt á Gunnar! :/ Er sennilega ómeðvitað að hefna mín þá!! :P
8. Fæ stundum fóbíu fyrir gsm-símum og get með engu móti svarað símtölum eða hringt, þá er ágætt að geta notað sms-tæknina!
9. Ég hata gúrku, það er vond lykt af henni og vont bragð og hún smitar bragðinu frá sér þannig að það er erfitt að týna hana í burtu og nei það er ekki bara vatnsbragð af henni - jakkidí jakk!
10. Á oft mjög erfitt með að taka ákvarðanir nema mér sé stillt upp við vegg, get verið heillengi úti í búð að reyna að velja skyrtegund!!!

Jæja þarna hafið þið það og ekkert meira klukk handa mér! Ætla að fara að koma mér vel fyrir og horfa á Thundercats sem Gunnar færði mér úr leigunni í Nexus...

laugardagur, september 10, 2005

...hérna sit ég og ét Willy Wonka súkkulaði og er að reyna að koma mér í bað. Er að fara í starfsmannapartý ca klukkan 19 og þá er víst best að vera búin að gella sig aldeilis upp. Þetta er kveðjupartý fyrir þá Ella og Véstein og ætlum við nokkur að hittast og fara svo út að borða á Fridays því við eigum öll 2000 kr gjafakort þar sem við fengum þegar við vorum besta stöðin í Júní. Svo er bara bjór og gaman og meiri bjór og meira gaman.

Fór að borða á Heitt og kalt í gær með Gyðu, Klemensi og Evert. Ég var ekkert voðalega heit fyrir þessum stað og hann gerði ekkert fyrir mig. Í fyrsta lagi er bara opið til klukkan 15 þarna, við komum samt klukkan 14 og þá var búið að loka heitu réttunum. Þau fengu sér þá súpubar og ég salatbar. Súpubarinn var hálf tómur, aðeins botnfylli eftir og salatbarinn var kaldur og ljótur, þá meina ég ísskápskaldur og ég var ekki alveg að fýla það. Æj veit ekki, er amk ekki spennt fyrir að fara þarna aftur en hver veit kannski gef ég þeim annan séns, hlýtur eitthvað að vera til ef maður kemur um leið og það opnar!!!

Var mjög fegin að Stebba stöðvarstjóri fann einhvern til að vinna í dag því annars væri ég að rölta heim úr vinnunni núna. Var ekki alveg að nenna að taka aukavakt en sagði að ég mundi gera það ef hún fyndi engan annan svo hún kæmist á Bifröst með honum Klemensi mínum. Guðjón er sem betur fer duglegur að vakna á morgnanna og skellti sér á eitt stykki vakt svo ég gat notið þess að vera í fríi! :)

En þetta gengur ekki, verð að fara að sjæna mig!! Það er komið að djammhelgi hjá mér og nú fær Gunnar að borga fyrir síðustu helgi íhíhíhíhíhíhí...

mánudagur, september 05, 2005

...auðvitað er margt og merkilegt búið að gerast síðan ég bloggaði síðast. Fór yfir helgi til Akureyrar og skellti mér í brúðkaup með Gunnari, vinur hans sem býr í Kanada var að gifta sig. Það var rosalega flott, fallegt og skemmtilegt þar og allir hæst ánægðir með allt saman held ég og vona! Svo er ég flutt inn til Gunnars á Neshagann, þar búum við í kommúnu með þeim Boga og Bjössa og allt gengur vel amk ennþá. Við Bjössi erum nú bara rétt að koma okkur fyrir og skipta okkur af hvernig hlutirnir eru gerðir hérna hahahahahaha.

Var að komast inn á netið í tölvunni minni í fyrsta skiptið hérna á Neshaganum, reyndi einhverntímann í vetur en ekkert gekk, svo bara ákvað mín að prófa sig betur áfram og breytti einhverju, ekki spurja mig hverju, og tjítjíng mín bara að vafra á veraldarvefnum. Svona er að taka bara mállin í sínar eigin hendur og ekkert vera að hlusta á einhverja stráka!!! ;) Annars rak ég Gunnar í tiltekt með mér áðan og lét hann taka til í skápunum svo við gætum komið dótinu okkar sameiginlega fyrir. Erum búin að gera það mesta af því sem við getum gert þangað til ég næ í dótið mitt upp á Skaga en váví hvað það er mikil breyting til hins betra hérna inni!! :D Svo eru þvottavélakaup á dagskránni á morgun og ætlar Klemens að vera mín stoð og stytta í þeim málum og er ég mjög feigin enda allt gott að fá annarra manna álit.

Best að fara að gera sig reddí í að horfa á Buffy, ætlum að klára þáttaröð 1 fyrir svefninn, verst að mig langar í eitthvað óhollt að narta í eins og venjulega!! Sjálfstjórnin lætur fara eitthvað lítið fyrir sér þessa dagan en sjáum til hvort hún komi fram í kvöld eins og þruma úr heiðskýra lofti...

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

...það eru örlög mín amk fram til mánaðarmóta að vakna alltaf í spreng og komast aldrei á klósettið fyrr en í minnsta lagi eftir 45 mín. Svaf á mínu græna eyra þar til rétt í þessu, lá í rúminu og lét fara vel um mig og hugsaði "já best að koma sér á fætur og pissa svolítið!!" Þá heyri ég baðherbergishurðinni skellt og skrúfað frá krananum og veit að mín bíða þau hræðilegu örlög að halda í mér í næstum klukkutíma!!! :/ Er stödd á Neshaganum og baðmanneskjan er hin bandaríska Keri sem er gift Adda meðleigjanda Gunnars, um mánaðarmótinm flytja þau og þá verður ekki lengur löng bið eftir klósettinu. Held reyndar að þetta bitni bara á mér því greyið stelpan hefur einstakan hæfileika til að fara í bað þegar ég er að vakna eða fara í vinnuna og þá skiptir ekki máli hvort það er klukkan 8, 11, 14 eða 16. Þetta er ótrúlegur andskoti...

sunnudagur, ágúst 21, 2005

...menningarnótt í gær og svaka stuð í Mávahlíðinni að venju. Reyndar fóru allir í bæinn með taxa nema við Gyða sem vorum ekki alveg reddí, áttum eftir að sjæna okkur smá, drekka rauðvín og syngja fullt í SingStar. Það var hroðalegt stuð á okkur og mig langaði bara ekkert að hætta að syngja, vorum að spreyta okkur í hard og náðum alveg viðunandi score-e sko!! ;) Svo var auðvitað rölt á 22 og dansað eins og vitlaus manneskja fram á rauða nótt. Gunnar kom svo þangað og eftir smá stund var rölt heim sökum hungurs, við pikkuðum Boga upp á leiðinni og svo var rölt heim og ýmis alvarleg málefni rædd! Ommeletta með pepperóní, ítölskum kryddjurtum, salti og pipar og brauðsneið með rauðu pestói klikkaði svo ekki áður en það var haldið í bólið. Gunnar er eggjameistarinn *slef*!!!

Sit núna og hangi í tölvunni því Gunnar þurfti að skreppa aðeins í vinnuna og leysa af í smá stund, ekki gaman fyrir hann!! Það var reyndar brotist inn í Nexus í nótt en þjófurinn náðist á hlaupum enda Nexus nánast við hliðina á lögreglustöðinni, klári þjófurinn sko! Ætla að fá mér smá ís og hafa það cozy, later...

föstudagur, ágúst 19, 2005

...well, well, well þá er ég komin heim úr vinnunni og strax komin með tölvuna í fangið, varð að nýta mér tækifærið fyrst hún er loksins laus!! ;) Svo sem ekkert sérstakt að frétta, bara vinna, vinna, vinna og hangsa inni á milli. Skrapp í sund í dag með Gyðu svo enn eitt átakið er formlega byrjað. Ég hef sett mér markmið og þau skal ég standa við þó ég ætli ekkert að fara að útlista þau hérna strax! Svo er bara menningarnótt á laugardaginn og ég bara ekkert spennt, var það en er það ekki lengur og ekki spurja hversvegna því ég hef ekki hugmynd! Svo líður að fluttningum eina ferðina enn, er orðin frekar þreytt á þessum eilífa þeytingi og langar í heimili sem ég get búið í í mörg mörg ár eða þar til ferðavængirnir fara að blakkta á ný!!! Verð víst að skreppa upp á Skaga við tækifæri og ná í þessar geðveiku mubblur sem ég á þar og mikið hlakka ég nú til, get bara varla beðið *hóst hóst*! Ætla bara að leygja geymslu í vetur svo ég þurfi ekki alltaf að vera með búslóðina í fanginu, er orðin frekar þreytt í handleggjunum eftir rúmt ár af stanslausum fluttningum...

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

...kerlan komin aftur í borgina eftir heila viku í blíðunni fyrir austan. Skrapp og kíkti á framkvæmdirnar við Kárahnjúka og át ís á Egilsstöðum og túristaðist svolítið með foreldraparinu mínu. Var í góðu yfirlæti og borðaði kökur og góðan mat og fékk vöfflur hjá ömmu og svona þannig að það er ekki yfir neinu að kvarta. Hefði auðvitað verið gaman að vera rosalega hress og vera úti á lífinu en það var líka bara gott að vera bara heima með mömmu og pabba og slappa af! :)

Var boðið á forsýningu The Fantastic Four í gær og það var rosa gaman eins og alltaf þegar farið er í bíó. Mér fannst myndin skemmtileg og fyndin og hef ekki yfir neinu að kvarta en ég hef auðvitað aldrei lesið neitt um þetta svo ég hef heldur engan samanburð. Það var líka gaman að fara eitthvað aðeins út því ég hef varla farið út á meðal manna síðan uppskurðurinn var og hvað þá klætt mig upp svo ég gellaði mig pínu smá upp, ekkert mikið samt! ;) Það bíður nenfilega til morguns að gella sig almennilega upp því þá er mér boðið í kokteilpartý til SúperMöddu. Get ekki mætt eins og drusla þegar ég mæti í fyrsta skipti heim til hennar. Spurning hvernig maginn taki þessari heimsókn því síðast þegar ég ætlaði til hennar var daginn sem ég var lögð inn á spítalann!!! ;)

En núna er best að fara að koma sér betur fyrir því ég ætla að kíkja á Madagaskar, auglýsingin lofar góðu svo það er eins gott að myndin standi undir væntingum...

þriðjudagur, júlí 26, 2005

...þá er ég komin heim í fjörðinn fagra og einum botnlanga léttari. Ekkert nema gott um það að segja og vonast til að núna þurfi ég ekki að leggjast á spítala í bráð vegna magaverkja. Komin með alveg nóg af því í bili. Var reyndar svo hörð að vera búin að hafa illt í maganum í 2 vikur áður en ég dröslaðist til læknis sem sendi mig beint á bráðamóttökuna til frekari rannsókna. Ég var bara svo viss um að þetta yrði eins og í hin 2 skiptin og að verkirnir mundu hverfa um leið og ég færi til læknis. En hérna sit ég með 3 göt á maganum og hálf hokin en annars hress en ég verð að segja að þið eruð heppin að þurfa ekki að hitta mig á kvöldin þegar ég tek rosa verkjalyfin til að geta sofið vel. Jesús minn ég segji nú ekki annað, ég grenja og ræð ekkert við mig og sé ofsjónir og er bara alveg kolrugluð. Minnið mig á að verða aldrei dópisti!!!

Sé fram á að koma aftir í borgina á sunnudag og byrja vonandi að vinna um miðja næstu viku ef allt gengur vel. Átti að vera að vinna um versló en á núna eftir að liggja í sófanum og horfa á sjónvarpið. Veit ekki alveg hvort er betra?!?! Hefði nú alveg viljað fara í Þjórsárver en mér var greinilega ekki ætlað að fara neitt þessa helgi! Þá er bara að sjá til hvernig þetta fer að ári, hvað ætli geti farið úrskeiðis þá...

fimmtudagur, júlí 07, 2005

...var að koma af Batman Begins sem ég skemmti mér bara ágætlega á. Kvarta amk ekki yfir að vera boðið í bíó annað slagið! ;) Vorum líka í mat á Álftanesi sem er alltaf gaman, held við höfum ekki hitt liðið í 2 og hálfa viku svo það var alveg kominn tími á að sýna sig og sjá þau. :) Hef bara verið að slappa af í dag enda í fríi í dag og á morgun. Voðalega nice að eiga frí í miðri viku en þarf auðvitað í staðinn að vinna um helgina. Er svo sem sama um það en samt alveg típískt að vinna 3ju hverju helgi en lenda einmitt á að vinna þegar mér er boðið í brúðkaup. Er búin að fá 4 tíma í frí á laugardaginn frá 15 og þangað til ég á að klára svo ég komist í sturtu og geti gert mig sætari fyrir herlegheitin.

Hmmmm er í stuði fyrir meira gláp, spurning hvort Gunnar er ekki til í að horfa á eitthvað meira. Verð að fara að blikka hann...

mánudagur, júlí 04, 2005

...kærustuparið komið aftur í bæinn eftir stutta dvöl í sumarbústað. Það var bara snilld þar, grillað og drukkið og ég lagðist í bleyti í heitapottinum. Er hálf sveskjuleg núna en ákaflega mjúk eftir kísilinn í vatninu. Held að við Evert höfum verið í yfir 4 tíma í pottinum í dag á meðan Gunnar las og Klemens svaf. Það var líka sungið villt og galið í sing-star þar sem við Klemens fórum auðvitað á kostum með alla superstar taktana á hreinu, hangandi í loftbitum, standandi upp á borði og dansandi um allt. Svo var svolgrað aðeins meira hvítvín í sig um leið og það kom öndunarpása í laginu!! :) Verð að fara að kalla mig Sirrý Jones en ekki Jóns eftir hroðalegar Tom Jones syrpur, var alveg að massa It's not unusual to be loved by anyone enda með englarödd!! ;) Svo skelltum við Klemens okkur á ball með Geirmundi í Úthlíð og dönsuðum og trölluðum þangað til það var búið. Reyndar kunna þessir sveitavargar ekkert að halda böll, allt geimið bara búið um 3-leitið!!! Ég skellti mér upp á svið að spjalla við Geirmund og kvarta yfir þessu og hann sagði mér að hann mætti ekki spila lengur því þeir sem ráða vildu það ekki svo ég spjallaði aðeins við dyraverðina en ekkert gekk og ég varð að fara heim og halda áfram í sing-star! :)

Takk takk takk fyrir frábæra helgi krakkar, þetta var æðislegt og ég vill fara eitthvað saman aftur næsta sumar eða jafnvel bara í haust. Rosalega gott að komast aðeins úr borginni þó það væru bara 2 dagar...

fimmtudagur, júní 30, 2005

...mér leiðist, ligg uppi í rúmi og skoða leiðinlegar síður á netinu *bleehhh*. Er lasin, langaði samt að vinna en betra að vera heima einn dag en verða meira veik og þurfa að hanga heima í kannski viku. Finnst þetta samt skammarlegt en svona er þetta víst bara. Hef samt verið lítið lasin undanfarið sem betur fer, hef greinilega ákveðið að taka flest allar flensurnar í vetur enda var það hálf ömurlegur tími. Gunnar er veikur líka en varð að skreppa í vinnuna. Ég var ekki sátt því hann er hálf dauður greyið og hann var búinn að tilkynna veikindi. En þeir eru víst einhverjir þarna sem ráða ekki við að vera bara 2 að vinna eða eitthvað crap!! Akkúrat núna er það óskyljanlegt fyrir mig, er viss um að ef það væru 2 stelpur að vinna þætti það alveg nóf hvort sem það væri lítið eða mikið að gera. Æj fattiði hvað ég er að meina??? Var einu sinni í vinnu þar sem ég var skömmuð ef ég gerði ekki allt á mínútunni og samt var þetta oft á tíðum mikil vinna og erfið líkamlega. Strákurinn sem var á undan mér í starfinu var aldrei skammaður þó hann væri latari og seinna til verka en ég og sterkari svo þetta ætti nú allt að vera léttara fyrir hann. Nei hann var svo duglegur því hann var strákur og "þetta var nú svo erfitt og ekki hægt að ætlast til að hann réði við þetta!" Fékk sem betur fer hrós fyrir dugnað frá þeim sem unnu nær mér, annars hefði ég örugglega farið að grenja af svekkesli!!!

Planið er að skreppa í sumarbústað um helgina nema Klemens sé búinn að skipta um skoðun. Verður gaman að skella sér aðeins úr bænum og anda að sér fersku sveitaloftinu. Svo er líka heitur pottur þarna og spáð góðu veðri á laugardaginn svo bikiníið verður að vera með í för svo að kroppurinn fái að drekka í sig nokkra sólargeisla. Má samt ekki gleyma að þetta gerist bara ef ég verð frísk, fer ekki að hoppa um á bikiní ef ég verð ennþá slöpp það er víst alveg bannað!!

Svo er brúðkaup þar næstu helgi og ég er ekkert smá spennt. Ég hlakka svo til að það er ekkert eðlilegt. Þetta er samt vinnuhelgi hjá mér en ég er búin að biðja um eitthvað frí. Verð td "bara frá 7:00 - 15:00 á laugardeginum og fæ þess vegna 4 klst í frí. Brúðkaupið byrjar kl 18 þannig að ég hef tíma til að taka mig til og koma mér upp í Mosó. Á svo að byrja að vinna kl 8:30 á laugardagsmorguninn en er að reyna að taka skiptivakt eða ef einhver vill leysa mig af í nokkra tíma og eiga það inni hjá mér. Vona að það takist svo ég þurfi ekki að fara geðveikt snemma heim!!! Það væri ekkert voðalega töff...

sunnudagur, júní 26, 2005

...ég planaði rólega helgi eins og svo oft áður og tókst loksins að fylgja planinu eftir. Video með Gyðu á föstudaginn og afmæli hjá Jónda klukkan 14 í gær og svo sotið og spjallað við Dönu, Sverri og Kristjón til klukkan 3 í nótt. Vá hvað það var notalegt og skemmtilegt og ég fann hvað ég hafði saknað þeirra mikið enda orðið alltof langt síðan ég átti leið í Hafnarfjörðinn síðast! Dana klikkaði heldur ekki á bakkelsinu, það voru heitir réttir, púðursykursterta ala amma hennar, alvöru nammiskúffukaka með geðveikt góðu kremi, hrískaka og pönnukökur - nammi namm - og ég borðaði á mig gat enda er maginn eitthvað slappur í dag.

Gunnar er að vinna í dag svo ég er bara heima hjá honum að hanga, nennti ekki heim til mín áðan. Á sjálf nefnilega frí í dag og á morgun og svo tekur alvaran aftur við en er svo heppin að eiga aftur 3ja daga frí um næstu helgi!! :) Þá skelli ég mér nú kannski bara í sumarbústað og hef það gott með Klemensi mínum og sennilega einhverjum fleiri útvöldum.

Ætla að fara að klára Belladonnaskjalið...

fimmtudagur, júní 23, 2005

...aaahhhh komin í frí í fjóra daga!! :) Það er auðvitað voðalega gaman en þá eru auðvitað margir af þeim sem ég þekki að vinna helgarvaktir sem er bömmer. Á þriðjudaginn gerist ég svo sérlegur vaktstjóri á Select við Birkimel og verð þá afleysingar-Gummi. Verð að redda mér derhúfu til að reyna að blekkja viðskiptavinina almennilega!! Annars held ég að ég hafi gert minna af skemmtilegum hlutum nýlega en vanalega því ég er alltaf svo þreytt og stundum geðfúl eftir vinnuna, er ennþá að venjast þessu en finn að þetta er allt að koma. Mér er reyndar boðið í afmæli til Jónda krúsí í Hafnarfirði á laugardaginn og brúðkaup þann 9. júlí minnir mig og svo má ekki gleyma að ég eignaðist lítinn frænda í síðustu viku. Skilst að hann sverji sig í ættina og sé mjög myndarlegur maður!! :) Verð að kíkja á hann við tækifæri en ekki alveg strax, best að leyfa litlu fjölskyldunni að aðlagast hvort öðru fyrst...

laugardagur, júní 18, 2005

...alltaf jafn gaman að fara á djammið! Mig langaði ekkert að fara en við Gunnar byrjuðum á að grilla heima hjá okkur Klemensi með Gyðu og auðvitað Klemensi. Svo tengdi ég Playstation í flýti svo við Gyða gætum prófa og nauðgað syngstar í kvelli og svo var sturtað sig og drukkið og voðagaman með smá aukafólki. Allt í einu var bara komminn tími á bæinn og ég orðin kennd þannig að helmingurinn tók taxa en við hin (ég, Gunnar og Gyða) löbbuðum í bæinn. Dansi dansi dans og svo heim því ég á að fara að vinna klukkan hálf 12 og Gunnar klukkan tólf svo það er nóg að gerast!!!

Vúbbó sí, bannað að gleyma pissusögunni góðu. Ég þurfti geðveikt að pissa og við vorum komin í hliðargötu af Lækjargötunni svo ég ákvað að bregða mér inni í næsta port sem ég fann. Það vildi þá ekki betur til en svo að þegar ég hafði vippað niður um mig buxunum og öllu heila klabbinu þá heyrði ég eitthvað bank, en þá fattaði ég að ég var einmitt beint fyrir framan mjög svo dulinn bakglugga. Gunnar var svo mikill séntilmaður að hann stökk til að skýla mér fyrir augngotum svangra samferðadjammara okkar. Ég gat þá komið mér í burtu og klárað mig af, sem var betra en hinn kosturinn sem hefði þá verið að pissa í buxurnar!! Sem betur fer fannst mér þetta meira fyndið en vandræðalegt þó að smá roði hafði komið í kinnarnar við tilhugsunina um ókunnugt fólk að fylgjast með mér á ´"klósettinu"!!!

En jæja þá, á morgun er amk plönuð afslöppun með bíó eða niðurhöluðum bíómyndum. Hahahahahahaha fyndið þetta "að niðurhala", ég hugsa alltaf um fólk að kúka!! :D Ok kannski crazy en er samt örugglega samt ekki sú eina um þetta *hux hux*!! En ok best að byrja á því að sofna, svo vinna og svo hugsum við hvort eitthvað af þessum bíómyndum eiga eftir að gera sig! Á líka að vinna hálf 12 til fimm á sunnudag og einhverja tólf tíma á mánudag en skilst að sennilega fái ég frí að þriðjudag. Hver veit hvaða villtu hluti ég á eftir að framkvæma þann dag, úúúúúúúú spennó...

föstudagur, júní 17, 2005

...ég er eins og lítið barn, ef ég verð svöng þá verð ég ógðeslega pirruð og allt verður ómögulegt. Varð þannig í dag, vaknaði um 2-leytið og eftir smá stund fékk ég geðveikt illt í magann og garnagaul og ég var ekki í rónni fyrr en ég komst heim og gat borðað matinn minn. En þá var maginn orðinn svo svangur að ég kom varla matnum niður. Núna er ég bara geðveikt þreytt og geðfúl eitthvað og allt ómögulegt. Er að hugsa um að fara til læknis og láta athuga í mér blóðið, er alltaf þreytt og pirruð þess vegna og mér finnst það bara ekkert gaman enda bitnar það mikið á sjálfri mér en mest á þeim sem mér þykir vænst um! :( Þannig á það alls ekki að vera og mér þykir það svo leiðinlegt að ég fæ næstum tár í augun við tilhugsunina. Langar að leggja mig núna og sofa þangað til ég á að mæta í vinnuna klukkan 11:30 á morgun en er víst skildug að borða eitthvað kjöt og hafa það nice enda er það víst ekki gott fyrir sálarlífið að sofa meira en 9 klst á sólarhring. Oj er alveg að lognast útaf svo ég verð að leggja tölvuna frá mér, hlýt að meiga dorma á meðan það er verið að grilla...

þriðjudagur, júní 14, 2005

...þá er ég flutt fyrir 2 vikum og ég veit ekki betur en að sambúðin gangi bara vel svona fyrir utan smá leiðindi en það er allt í keijinu. Kerlan er líka búin að fá vinnu og frá morgundeginum verð ég stollt Select-starfskona og jesús hvað ég hlakka til að hafa smá innkomu, það er þungu fargi af mér létt. Ekki fleiri nætur þar sem ég vakna til að pissa og get ekki sofnað aftur því ég hugsa svo mikið og peningamálin og hversu hræðileg þau eru. Gott að allt er á réttri leið núna! :) Næsta stress er svo að finna samastað fyrir haustið en það hlýtur að reddast líka, bara að vera bjartsýn og ekki gefast upp og þá hlýtur þetta allt að koma. Þessi Pollýönnu leikur virkar víst voðalega vel segja sérfræðingarnir. En núna er karlinn að reka á eftir mér, er að steikja handa mér kjöt, rosalega duglegur alltaf þessi elska...

þriðjudagur, maí 31, 2005

...þá er kerlan bara alveg að fara að flytja, er bara að bíða eftir að Gunnar komi til að bera og keyra! :) Er reyndar ekki alveg búin að pakka en á bara svona smotterí eftir, henda afgangs drasli í poka og þess háttar, bara allt að smella. Svo ég verð stolltur íbúi Hlíðanna í sumar, búsett í Mávahlíð 14. En blehhh best að reyna að halda áfram að gera eitthvað í þessari niðurpökkun svo allt verði tilbúið þegar Gunnar rennir í hlað á gráu eldingunni!

Í sumar verð ég ekki með internet svo ég verð að vera dugleg að misnota Hive-tenginguna hjá Gunnari & Co. Verð að reyna að tengja mína tölvu við netið þeirra, gátum það ekki um daginn. Þá ætti ég að geta hangsað eitthvað smá á netinu meðan Gunnar er að spila World of Warcraft á milljón. Æ ljúfa líf, sumarið er að leggjast eitthvað svo vel í mig þó að ég sé ekki ennþá komin með vinnu. Var að sækja um slatta í gær og eitt starf í dag svo þetta hlýtur bara að fara að koma. Kerlan er líka skítblönk og óskar eftir stuðningi og styrkjum frá öllum, hafiði bara samband ég tek við hvaða fjárhæð sem er...

mánudagur, maí 30, 2005

...oj hvað ég nenni ekki að pakka niður þessu litla drasli sem ég er með hérna. Nenni ekki að flytja einu sinni enn, bara til þess að flytja aftur í haust - ojbarasta og ullapæ!! Svo verð ég enga stund að pakka þegar ég bara byrja, þannig er það alltaf. Svo er ég líka með einhverja sýkingu í hægra auganu og það er ógeðslega óþægilegt svo ég tali nú ekki um hvað það er ljótt! :( Vona bara að þetta sé ekkert alvarlegt, langar ekki að þurfa að fara í aðgerð eins og Gummi þurfti að fara í hérna um árið *hrollur* því það er alls ekki skemmtileg tilhugsun að láta spenna upp á sér augað og eitthvað meira ógeðslegt!! :S Það er meira að segja vont að blikka og það er eitthvað sem er víst ekki hægt að hætta að gera!! *Grát grát*

Svo er málið að vera voðalega stillt um helgina því ég er búin að lofa að hjálpa Gerðu (mömmu Gunnars) á sunnudaginn þegar hún heldur upp á afmælið sitt. Ætli bíó og notaleg heit séu þá ekki bara málið og svo verð ég ein heima fyrstu helgina sem ég bý með Klemensi þannig að ég gæti gert fullt af skandölum ef ég bara nennti íhíhíhíhíhíhíhí! :P En nei verð að vera góður leigjandi svo mér verði ekki bara hennt út strax, nenni ekki að búa á Hlemmi í sumar þó að það sé verið að laga hann...

laugardagur, maí 28, 2005

...alltaf suðið, hehehehe smá innsláttarvilla ákvað að láta hana kjurra því hún passar alveg líka sko hehehehehe!! ;) En ok alltaf sama stuðið hérna megin, er samt ekki full ef fólk skyldi fara að halda það þegar það sér að færslan er gerð klukkan korter í fjögur aðfaranótt laugardags. Var bara í mestu makindum að horfa á video með karlinum þegar hann var ræstur út í að skutla einhverjum bölvuðu pakki!!! Taka það til sín sem eiga það!! Íhíhíhíhí ;) Skuldaði víst greiða svo ég er bara að dúlla mér í svona hálftíma í viðbót, bara netið og gaman!

Hitti Ingu Hrefnu Vestmannaeyjarfara aðeins í dag, ég var ræst út í síðbúin hádegismat og við skelltum okkur á Vegamót. Ég skoðaði matseðilinn vandlega og ákvað að panta kalkúna- og pastasalat. Þegar ég fékk diskinn var hann alveg troðfullur af girnilegu dótarí en ekkert pasta og ég hélt að ég hefði bara farið línuvillt á matseðlinum og bara borðaði matinn minn sæl og ánægð. Svo þegar við vorum að borga sagði afgreiðslumaðurinn "...já og þú varst þá með kalkúna- og pastasalatið?" Ég játti því en tilkynnti um forföll pastasins. Hann varð steinhissa en var búinn að renna kortinu mínu svo hann segjist ætla að muna eftir mér og ég fái eitthvað gott næst þegar ég kem. Eins gott að fara fljótlega aftur svo hann muni hugsanlega eftir mér. Ekki sniðugt að koma eftir tvö ár "ég var hérna í lok maí 2005 og fékk pastasalat með engu pasta og núna vill ég fá það bætt!!!" Hahahaha gaman að þessu, vona bara að hann eigi eftir að muna eftir mér!!!

Skrapp aðeins í Kringuna með Ingu og ætlaði að strætóast heim þaðan eftir að hafa kíkt í 3 búðir sem betur fer var ekkert skemmtilegt til í þeim. Ákvað þá að taka 6-una í vitlausa átt og rúntaði með henni út á Seltjarnarnes og til baka og ætlaði að fara að skipta yfir í 5-una til að fá aðeins lengri rúnt en þá hringdi Gunnar og tilkynnti snemmlokinn vinnudag þannig að ég fór bara til hans og svo út á Álftanes í grillmat *nammi nammi namm*. Alltaf er ég að græða!!! :D

Er ég samt alveg hrikalega crazy að finnast fínt að nota strætó nema þegar þarf að skipta mikið?? Langað svo ekki heim áðan og það er svo notalegt að sitja í sólvermdum, hálf tómum strætó og láta hugann reika. Sem betur fer eru ekki allir eins því þá væru ekki svona fáir í strætó...

fimmtudagur, maí 26, 2005

...lalíla, Júróvísjón var æðislega skemmtilegt, trallað og klappað og hlegið og allur pakkinn bara og svo í bæinn þar sem ég og Gyða fengum að heyra að við værum fallegt par og ættum bara að vera kærustupar!! Hinir krakkarnir grilluðu en ég sparaði mér það með því að mæta í útskriftarveislu til Atla fyrst og fá alveg dýrindis kökur og brauðrétti *jömmers* og borða nett yfir mig og liggja á meltunni fyrstua klukkutímann í júrópartýinu!!! :D

Svo er bara búin að vera áframhaldandi slappleiki en ekkert alvarlegt, bara túrbókvef og smá svimi þannig að ég hef haldið mig mest innandyra. Sem betur fer birðist góða veðrið sem ég hef séð út um gluggann hjá mér bara hafa verið gott út um gluggann, sem sagt mjög gott gluggaveður og notalega heitt inni í herberginu mínu, ohhhhh nice! :)

Ætlaði að hitta Heiðu áðan en svaf yfir mig. :( Dreymdi nefnilega svo hroðalega illa í nótt, aftur og aftur og aftur, var nýbúin að vekja sjálfa mig af einum slæmum þegar annar tók við. Alveg hræðilegt, dreymdi draugadraum og byssudraum og rifrildisdraum og ég veit ekki hvað og hvað!!! Alveg ömurlegt og ég var alveg skíthrædd eftir draugadrauminn og þorði ekki að liggja alveg ein undir sænginni minn svo ég varð að stela smá af Gunna sæng, *roðn* algjör tepra greinilega!

En ætla að fara að laga mig til, alveg kominn tími á að skreppa eitthvað smá út. Klemens er búinn að bjóða upp á félagsskap sinn og ég ætla að þyggja hann...

föstudagur, maí 20, 2005

...nú man ég hvað ég ætlaði að skrifa í fyrradag, ég fór á Nexus-forsýningu á Star Wars III á þriðjudaginn og það var alls ekki leiðinlegt. Við Gunnar mættum fyrr til að merkja sætin, ég átti reyndar ekki að gera neitt en lukkan snéri anditinu að mér og ég fékk að merkja þrjár sætaraðir í staðin fyrir að sitja og lesa. Best að segja svo ekkert um fólkið sem maður mætti þarna svo ég móðgi enga með óviðeigandi athugasemdum um "svona" fólk!! ;) Hahahahaha. Bjarki Borgþórs og Heimir Óskars voru svo í dyrunum að leita á æstum aðdáendum svo engir væru með myndavélar og eitthvað crap, ég er svo sakleysisleg að það var bara djók-leitað utan á töskunni minni. Held samt að Bjarki hafi verið smá hissa þegar hann sá mig koma en ég er ekki alveg viss, verð að spurja hann þegar ég hitti hann næst!

Svo er kerlan bara hálf lasin en er að reyna að hrista þetta af sér. Hlaut að fara að koma að nýrri flensu, var orðið of langt síðan ég var veik síðast og ég var bara farin að hafa áhyggjur!!! Jebbs einmitt mmmm hmmmm... er að vera stillt inni svo ég komist í útskirftarkaffi til Atla á morgun og svo í júrópartý/grill annaðkvöld. Nenni ekki að vera lasin þegar það er gott veður en samt betra en að verða lasin þegar maður er nýkomin með vinnu svo kannski veit þetta bara á gott! Æ hvaða bull er þetta, held ég sé með óráði, mér er svo heitt og sveitt og ég er farin í sturtu...

miðvikudagur, maí 18, 2005

...konan mætt aftur við tölvuna en bara stutt í þetta skiptið. Góð helgi þar sem ég fékk nóg af góðum mat að borða, ekkert slor að hafa mömmu og pabba í heimsókn sko! Kaffihúsin og veitingastaðirnir voru þrædd grimmt og svo var auðvitað smá djamm svona af því bara. Á föstudaginn var rölt um bæinn með Hildi Jónu og svo hitti ég Gunnar gambler og á laugardaginn var kíkt á lífið með Öldu þar sem ég hitti gamla félaga úr Menntó á Egilsstöðum. Það var mjög skemmtilegt og upplífgandi og væri ekkert leiðinlegt að sjá framan í smettin á þessu fólki aftur. Var reyndar stilta stelpan á sunnudaginn og horfði bara á video með Gyðu og Klemensi meðan Gunnar var úti á djamminu. Það var ekkert leiðinlegt þegar hann kom bullandi og glaður heim klukkan rétt að verða sjö á mánudagsmorgun! :) Það var nú eitthvað sem ég var alveg ákveðin í að skrifa hérna inn en get með engu móti munað hvað það var núna. Er farin að bursta tennurnar og gera eitthvað gáfulegt...

fimmtudagur, maí 12, 2005

...bara tvö blogg á einum og sama deginum, ég er að fara fram úr sjálfri mér hérna!! Það hefur bara svo margt gerst síðan ég bloggaði áðan:
*Tók til í allri "íbúðinni" minni, nenni ekki að tíunda það frekar með upptalningu á verkunum, þið kannist öll við þetta.
*Þvoði og hengdi upp úr einni vél.
*Sms við Gyðu, Heiðu og Klemens
*Símtöl frá pabba, Gunna, Öldu og Heiðu.
*Msn-spjöll við Binnu, Herdísi og smá við Möddu.
*Fór blogghring til að forvitnast um fólk :)
*Svaraði kommenti á blogginu frá fyrr í dag.
*Svona mætti lengi telja.

Já konan getur verið snögg að hlutunum ef hún nennir því. Greinilega gott að hafa einhvern að spjalla við á msn meðna verið er að þrífa, þá er maður svo rosa fljótur að klára það sem þarf að gera til að geta spjallað. Reyndar ósátt við þessa lélegu ryksugu, sé ennþá svona lítil rykkorn á gólfinu en þegar ég ryksuga eða sópa breytist ég í konuna með fullkomnunaráráttuna. Gat ekki skúrað því ég fann hvorki nýmóðins sameiginlegu moppuna né gamaldags skúringarkústinn! Lenti reyndar í stórslysi áðan, var að þurrka af einhverju blaði og ein blaðsíðan fór undir nöglina á löngutöng og skar mig og það blæddi fullt og var rosalega sárt!! *Sniff sniff sniff* en ég er á batavegi og hlýt að verða orðin góð að ári!!

Ein ákvörðun sem einhverjir verða að hjálpa mér að taka: Hvort á ég að horfa á Americas Next Top Model úrlistaþáttinn í kvöld eða fara á kaffihús í kvöld?? Erfið ákvörðun sem býður mín, hef sko séð alla þættina nema einn en held samt ekki með neinni en langar samt að sjá hvernig þetta endar. Langar líka að skella mér í skárri fötin og sötra kaffi eða einn bjór í kvöld! What to do??? What to do???? Úff stundum er lífið bara óréttlátt og allt skemmtilegt gerist á sama tíma en þess á milli er ekkert að gera og enginn til að tala við. En ætla amk að skíta út sturtuna með stormsveitarhreingerningarsvitanum mínum og sé svo til hvað gerist, verð amk við öllu búin! :)

Jæks þetta átti að vera mjög stutt færsla, ji dúddus maríus...
...mig dreymdi í nótt að ef maður stráði helling af steinselju í rúmið sitt mundi það losa um vatn í líkamanum og bara gera manni gott að öllu leyti. Að sjálfsögðu gerði ég það í draumnum og þegar ég vaknaði í morugn til að pissa (að sjálfsögðu) þurfti ég að ath hvort ég hefði í alvörunni sett steinselju í rúmið mitt. Endemis vitleysa er þetta!!!

Er að reyna að taka til í herberginu mínu því mamma og pabbi eru að koma á morgun. Það er leiðinlegt, sko ekki að þau séu að koma heldur að taka til en ég ætti nú ekkert að vera neitt voðalega lengi að því. Get varla beðið eftir að skipta á rúminu, hata lakið sem er á því mér finnst það alltaf vera fullt af kuski sem stingur mig. Hef sofið með mjúkt og gott teppi undir mér síðustu tvær nætur. Kemur einhver geðveiki yfir mig þegar kemur að þessum kuskmálum og ég bursta og bursta í allar áttir og er stundum svo slæm að nota svona límrúllu og rúlla yfir allt rúmið!! Er þetta algjörlega crazy??? :S

Gleymdi að skila videospólunum í gær sem við tókum í fyrradag og þetta er í fyrstaskiptið sem ég gleymi að gera svoleiðis. Var alveg miður mín þegar ég hugsaði um 500 kr skuldina og var að hugsa um að horfa aftur á myndirnar til að fá peningana virði en gerði það svo auðvitað ekki, enda voru þær ekkert svo frábærlega skemmtilegar. Sofnaði reyndar yfir seinni myndinni svo ég hefði nú auðvitað átt að kíkja á hana. Ég sem hef alltaf verið svo hissa á fólki sem gleymir endalaust að skila spólunum sem það leigir en er nú greinilega hægt og bítandi að silast í áttina til þeirra. Einhver víst maður sagði að einhverntímann væri allt fyrst svo það er örugglega allt á niðurleið núna...

þriðjudagur, maí 10, 2005

...gaman þegar eitthvað af þessum tækjum sem maður er háður virka ekki í smá stund. Núna er td frábæri síminn minn batteríislaus og hefur verið það síðan í gærkvöldi því hleðslutækið er að spóka sig á Neshaganum meðan ég sit í draslinu á Grensásvegi. Gunnar átti að koma með það í gærkvöldi en gleymdi því, svo ætluðum við hvort sem er að sofa vestur í bæ en vorum svo þreytt eftir tvær bíómyndir að það var kúrt hérna og svo var ég alls ekki í stuði til að skutlast og ná í það áður en Gunnar fór í vinnuna. Konan var samt alveg ómöguleg svona símalaus, þurfti að ná í vissar manneskjur og guð veit hvað og hef þessvegna barið eldgamala Nokia 5110 í gang aftur og ég skal segja ykkur það að það tók smá átök. En voðaleg nostalgía er að hafa fyrsta símann sinn aftur, algjör hlunkur með bilaðann skjá. Verð nú að viðurkenna að ég hlakka samt til að koma góða góða Sony Ericsson aftur í gagnið í kvöld!! :D

Er að reyna að koma mér af stað í ræktina og sjitt hvað það er eitthvað erfitt!! Veit að það verður frábært strax og ég verð komin út úr húsinu...

mánudagur, maí 09, 2005

...held að það sé rigning úti en nenni ekki að kíkja út um gluggann. Held að það verði bara til þess að ég nenni aldrei að klæða mig og skelli mér þar af leiðandi ekki í ræktina á eftir. Betra að hafa dregið fyrir alla glugga og skella sér svo bara út á eftir með töskuna á bakinu og í fötum sem þola öll veður.

Fór í afmæli til Öldu á laugardaginn, borðuðum nokkur saman á Caruso og ég fékk mér alveg hroðalega góðan saltfiskrétt. Komin tími á smá fisk, hef verið með fisk á heilanum upp á síðkastið og hugsa bara um sjávarréttapizzur og túnfisk úr dós (!!!) og hvað allir fiskréttirnir sem ég fæ á Seyðisfirði séu góðir. Þessi saltfiskur náði samt ekki alveg að slökkva á fisklönguninni svo ég vona að mamma og pabbi komi fljótlega í borgina og bjóði mér út að borða svo ég geti pantað mér fisk!! :D En ok aftur að afmælinu, eftir matinn þurftum við Klemens aðeins að snúast og mættum svo galvösk í partý upp í Breiðholt og drukkum á okkar gat. Ég sannreyndi kenninguna mína um að því meira sem ég drekk (án þess að verða ofurölvi auðvitað) þeim mun minni líkur eru á að dramadrottningin margfræga komi í heimsókn. Það voru bara aðrar dömur með smá drama en ekkert sem ég nenni að vera að segja frá. Var glöð og kát en fór samt snemma heim eða bara um 2-leytið!! :S Gunnar sem var afmælisbarn dagsins kom nefnilega að hitta mig og var frekar mikið fullur svo mér fannst góð hugmynd að fara bara heim enda dauðþreytt eftir 2ja daga afmælisgjafaleit handa Öldu!

Í gær var svo bara smá þynnka sem lagaðist smá með feitum Kentucky, nammipoka, fréttablaðinu og 3ja tíma dúr. Hitti svo Sigurjón frænda minn í gærkvöldi og bauð upp á kaffi, alltaf jafn mikil húsmóðir í mér! ;) Eftir það var 4 tíma videogláp og svo vondur svefn þar sem mig dreymdi allskonar vitleysu meðal annars að Gunnar væri alltaf að spila við sjálfan sig og að ég ætti bara að pissa því ég þyrfti þess. Vaknaði sem betur fer þegar mig var að dreyma pissudrauminn og skaust örsnöggt á klósettið *fjúffff*!!!

Æj nóg í bili, er farin að gera eitthvað gáfulegt...

föstudagur, maí 06, 2005

...allt í lagi vika að baki, hef svo sem ekkert gert merkilegt eða jú ég keyðti kort í ræktinni og búin að fara til þjálfara og fá prógramm. Nú er bara að byrja að tálga sig svo ég verði rosa skutla í haust! ;) Svo er bara afmæli á morgun, Gunnar verður 28 ára en ég ætla nú ekkert að hanga með honum enda býður hann ekkert upp á það, bara að vinna og svo staffapartý. En Alda ætlar að halda upp á sitt afmæli sem var 3.maí og við förum einhver saman út að borða og svo er partý heima hjá henni og svo bara bærinn. Hitti nú kannski kæróið þar ef ég verð rosalega ótrúlega heppin! :) Ekkert að gera í kvöld, enginn til að hanga með, éta með eða tala við. Eins gott að það sé sæmileg dagskrá í sjónvarpinu svo ég fari ekki alveg yfir um. Lýsi hér með eftir einhverjum til að gera eitthvað með mér í kvöld, býst ekki við að neinn lesi þetta í kvöld en það má alltaf reyna!!!

Uss best að koma sér úr skónum og jakkanum og leggjast upp í rúm. Kannski best að sofna bara smá hef amk eitthvað að gera á meðan, gæti dreymt eitthvað fallegt, skemmtilegt og skrítið!

Veit einhver um rosalega skemmtilega vinnu handa mér??? Er nefnilega að leita svo ég þurfi ekki að fara á sósíalinn...

sunnudagur, maí 01, 2005

...ég ætla að þakka öllum fyrir kveðjurnar, sms-in, símtölin og gjafirnar sem ég fékk í gær. Auðvitað var þetta vel heppnaður en rólegur dagur þar sem ég lá í rúminu hálf þunn til að byrja með. Skrapp nefnilega á kaffihús kvöldið áður og hitta nokkrar skemmtilegar manneskjur, sötraði bjór og talaði ákaflega mikið. Harðneitaði öllum boðum um djamm því ég ætlaði ekki að vera þunn á afmælinu en tókst það nú samt! Gærdagurinn fór sem sagt í leti, ráp í eina búð þar sem voru keyptir ákaflega flottir Vagabond skór sem Gunnar fékk að borga fyrir, mikið át í Kringlunni, skóburstun og pússun, mikið át á Madonna og bjór hjá Gyðu með þeim Klemensi og Gunnari og svo á 22 í spjall og nokkur vel stilgin dansspor. Fór svo, held ég, snemma heim, svona miðað við oft áður! ;) Við hlógum svo alla leiðina heim af öllum sköpuðum hlutum og vöktum sennilega hálfan vesturbæinn íhíhíhíhíhí.

Í dag var svo smá afmæliskaffi hjá Hildi Jónu þar sem hún töfraði fram pönnukökur og súkkulaðiköku handa okkur *slurp* og svo matur hjá tengdó þar sem ég fékk afmælisgjöf! :D Borðaði á mig gat eins og venjulega og sit núna upp í rúmi, búin að hátta og ætla að fara að liggja á meltunni eftir smá stund.

En takk aftur fyrir mig allir og ég læt vita hvenær afmælispartýið verður haldið með pomp og prakt...

föstudagur, apríl 29, 2005

...stórt afmæli á morgun og ég bara á bömmer uppi í rúmi í dag. Er ekkert leið yfir að verða eldri heldur vegna þess að ég ímyndaði mér alltaf að þetta yrði sérstakur dagur og svo virðist bara alls ekki ætla að verða. Ekkert planað, engar kökur, engin veisla eða partý, ekki neitt. Ætti amk að geta gert mér glaðan dag með því að kaupa hinar langþráðu núðlur á Núðluhúsinu sem enginn vill borða með mér. Get kannski fengið spádómsköku með kerti á í eftirrétt. Æj verð að hætta að vera svona leið, hlutirnir verða ekkert betri þó það sé volað yfir þeim. Svo endar 25 ára afmælisdagurinn minn örugglega með að vera einhver besti dagur sem ég hef upplifað! Eða hvað haldið þið...

þriðjudagur, apríl 26, 2005

...kerlan bara heima hjá sér enda kominn tími á að þvo smá þvott. Dökkt varð fyrir valinu enda á ég mjög erfitt með að þvo ljóst á undan dökku, veit ekki afhverju en það lætur mér líða illa. Ok ég er crazy og ekki orð um það meir! :)

Nammikvöld í kvöld sem er *hóst hóst* vægast sagt óvenjulegt. En núna er breyting á því ég er að fara í baðhúsið í fyrramálið í Pilatesleikfimi, gaman að prófa það og örugglega gott til að koma sér af stað. Þess vegna var alveg nauðsynlegt að skella sér í EuroPris og kaupa bestu sterkumola í heimi til að halda upp á þennan merka áfanga. Ég er farin að sjá fram á að geta notað slatta af draslinu í fataskápnum mínum í sumar, pils og sumar bolir!! Úje sakar ekki að vera bjartsýn!!

Svo er bara afmælið mitt á laugardaginn, stórt stórt afmæli. Fékk að vita að ég mundi vakna hrukkótt en ég sé fram á að vera ungleg þar til klukkan slær 18:07 en þá breytist ég í sveskjufés. Gaman að því enda nóg af hrukkukremum á markaðnum til að prófa. Verst að ég ætla ekkert að halda upp á afmælið strax en vonandi í maí eða júní eða kannski bara júlí! ;) Veit bara ekki alveg hvað ég á að gera af mér á afmælisdaginn en ég hlýt að finna mér eitthvað til dundurs...

mánudagur, apríl 25, 2005

...margt skemmtilegt búið að gerast á Neshaganum í dag og við Bogi í hálfgerðri gleðivímu eftir mjög misjafna brandara um hluti sem eru ekkert endilega blogghæfir. Skemmdarfísnin var líka við völd og var amk einni mús stútað!

Öppdeit eftir helgina: Gott en fámennt fyrirpartý og svo dansi dansi á 22 við gömul júróvísíonlög og aðra góða slagara á föstudaginn. Seinna tók svo dramadrottningin sér enn einu sinni bólfestu í líkama mínum og fór hamförum á Laugarveginum, verð að fara að finna góðann særingarlækni því þetta gengur ekki lengur.

Fyndni kvöldisns gerist á dansgólfinu þegar ég er að velta fyrir mér hverjir dj-arnir séu.
Ég við Gyðu: Eru þetta þarna Klink og Bank?
Gyða: Ha? Þetta er bara eitthvað gamalt júróvísíonlag...
Ég: Nei ég meina dj-arnir, hvað heita þeir? Led og Zeppelinn?
Gyða: Ha? Ég veit það ekki!
Ég: Æj ohhh hvað heita þeir aftur?? Bang og Olufsen??
Gyða: Veit ekki meir...
Ég: Jú þeira heita örugglega Pink og Floyd

Sem var að sjálfsögðu rétt!!

Laagardagurinn fór í mikinn lúa, hláturskast og aftur og aftur og aftur og líka á Pizza Hut með Gyðu og Klemensi þar sem við grenjuðum úr hlátri, vonandi við mikla kátínu alls barnafólksins sem var mætt á staðinn. Illt í magann af pizzunni og slæmur svefn.

Sunnudagur: Alltaf að vakna við *bölv og ragn* kirkjuklukknanna, hver fe rí kirkju? Er bara verið að hringja þeim svo þeir sem fara seinnt að sofa og jafnvel hafa fengið sér í glas kvöldið áður geti alls ekki sofið? *Hux hux*. Fullt af hangsi með Gyðu og Klemensi þar sem Rúmfatalagersverslanir borgarinnar voru þræddar. Matur hjá tengdó um kvöldið og svo Sahara í bíó. Steinsofnaði svo við að horfa á World of Warcraft og lét víst öllum illum látum í svefni.

Já skemmtileg skemmtileg helgi svona amk að mestu leyti.

Markmið vikunnar: Að fóðra kirkjuklukkurnar að innan með hljóðdeyfandi efni, kannski svampur virki?? Svampur Sveinsson...

föstudagur, apríl 22, 2005

...konan er hrein og fín og að bíða eftir kaffinu sem Bogi ætlaði að laga fyrir klukkutíma. Hann steingleymdi því og ástæðan var sú að ég var ekki nógu dugleg að nöldra!! Yfir öllu er nú hægt að kvarta hahahaha! :D Ég er samt voðalega svöng enda ekki borðað neitt almennilegt í 2 daga, bara verið eitthvað að narta enda verið fáveik eins og er venjan svona aðrahvora viku. Þetta hlýtur nú að fara að hætta, geta ekki verið til mikið fleiri flensur.

Var að sjá að Baðhúsið (og öll hin húsin) eru að auglýsa sumarkort á 11.900kr sem gildir til 25.ágúst. Ekki slæmur díll og ég ætla að skella mér á eitt svona svo ég geti hætt að væla yfir að hafa fitnað og farið að gera eitthvað í málinu. Úúúú bara farin að hlakka til að máta mig við allskonar tæki og tól.

Langar að brasa eitthvað um helgina en veit ekki hvað. Heyrist á öllu að það sé kominn djammfýlingur í Gunnar enda gerði ég mitt allra besta að smita hann vægt af öllum flensunum og passa að hann yrði veikur um helgar! Íhíhíhíhíhí!!

Gyða og Klemens eru alveg að koma að sækja mig,þau eru að keyra hjá sundhöllinni. Samt eins gott að þau komi ekki áður en kaffið verður tilbúið, væri synd að missa af því.

Madda farðu svo að koma á msn...

miðvikudagur, apríl 20, 2005

...þá er ég komin heim í skítaholuna mína. Hef varla stoppað hérna lengur en 5 mínútur upp á síðkastið svo það er fullt af ryki, þungu lofti og dóti á vitlausum stöðum hér. Þunga loftið er reyndar alveg að fara, opnaði gluggan alveg upp á gátt en þá bíður hitt mín bara! Uss reyni amk að sýna lit og hennti í þvottavél en held að þrif bíði eitthvað aðeins lengur, svona pínu pons! Er með svo mikinn hausverk að ég nenni ekki að hlusta á röflið í ryksugunni í dag.

Sé fram á rólegt kvöld ein heima, Gunnar er að fara að nördast eitthvað með nördafélögum sínum. Ég er að hugsa um að leygja bara stelpuspólur og hafa það nice með kristal, saltstangir og smá ís. En byrja ekki á ósaómanum fyrr en eftir að hafa horft á Americas Next Top Model, nenni ekki að vera að gúffa í mig rjómaís meðan verðandi fyrirsætur spígspora um skjáinn hjá mér. Held samt að einhverjir ætli að spóka sig á djamminu en ég er ekki alveg að meika það í dag, amk þarf eitthvað mjög drastíkt að gerast til þess að mín gelli sig upp og spígspori niður Laugarveginn.

10 dagar í stóra daginn!!! Á ég að reyna að halda upp á hann strax eða geyma það aðeins eða alveg...

mánudagur, apríl 18, 2005

...þetta blogg er tileinkað Klemensi svo honum leiðist ekki í vinnunni í Garabæ! :) Sko elskan mín ég gleymi næstum aldrei því sem ég lofa! :D

Ágætis helgi lokið. Föstudagurinn fór því miður í djamm, ekki það að það hafi verið leiðinlegt heldur vegna þess að ég breyttist í dramadrottninguna frægu þegar heim var komið og er ég ekkert voðalega stolt af því! Eins gott að Gunnar er þolinmóður eða amk kann að þykjast vera þolinmóður þegar sauðdrukkin ung dama kemur heim svöng og þar af leiðandi ekki mjög kát. Nei akkúrat þetta kvöl var ekkert nógu gott fyrir drottninguna sem var ákaflega fýld og leiðinleg. Ég sagði svo við hann daginn eftir að hann væri heppin að ég hefði ekki drukkið neitt af hvítvíninu sem Klemens var alltaf að reyna að bjóða mér og fékk þá að heyra að ég hefði betur gert það því þá hefði ég sennilega drepist og ekki verið að dramast svona. Maðurinn tilkynnti líka að næst þegar ég kæmi heim í svona ásigkomulagi ætlaði hann að þykjast vera mjög skilningsríkur og faðma mig og þegar í faðminn væri komið fengi ég högg á hausinn svo ég mundi rotast og sofa vært fram eftir degi. Alltaf gott að vera með svona á hreinu þó mér litist betur á mína eigin hugmynd, að hann væri með klóróformflösku og tusku á náttborðinu til að svæfa mig! :)

Mmmmm laugardagurinn var góður, svefn, illt í hægri fætinum (ekki eins gott) og Eldsmiðjupizza með sjávarréttum. Svo var bíó með Gyðu þar sem við sáum Vin Diesel beran að ofan *hamana hamana* í The Pacifier sem er bara mjög fyndin og skemmtileg mynd þó hún sé auðvitað asnaleg líka enda Disney "spenna".

Smá leikþáttur:
Viðkomandi kemur fram í eldhús þar sem ég og 2 aðrir erum að spjalla.
Viðkomandi: "Hérna 21. er það 1.maí?"
Við hin: Störum á hann með hissasvipunum okkar og svo Bwahahahahahahahahaha hahahahahahahahahahahahaha
Viðkomandi: "Æ nei, ætlaði að segja er það sumardagurinn fyrsti?"

Þetta er það fyndnasta sem ég hef heyrt á árinu og er ennþá að hlægja af þessu. Snilldin ein þegar fólk missir eitthvað svona út úr sér þó það viti alveg betur. Hef sjálf lent nokkrum sinnum í svona en ætla ekki að fara að tíunda það hérna...

þriðjudagur, apríl 12, 2005

...undur og stórmerki gerast enn, ég er lasin!! Algjör bömmer, finnst ég búin að vera lasin síðan síðan í október. Kannski er staðurinn sem ég bý á með húsasótt og ég hef smitast?? Æ leiðinlegt! Hef eytt þeim tíma af deginum sem ég hef verið vakandi í tölvunni hans Gunna að spjalla við góða vini á msn, það klikkar aldrei. Hef fengið amk tvær gleðifréttir,önnur voru í e-mail formi og svo spjalli við góða vinkonu og hinar eru þær að ég fæ eitthvað feitt og saltað að borða í kvöld sem mig hefur dreymt um síðan í gær. Ætla að stelast út í góðaveðrið dúðuð í ullarpeysu, húfu, vettlinga og úlpu og kjamsa á einhverju góðgæti. Mmmmmm salt, ég elska það!! Madda manstu þegar þú ofþornaðir við að smakka frönskurnar mínar á McDonanalds, talaðir um það helmingin af leiðinni heim úr bænum á milli þess sem við ræddum um Finnlandsdvöl og sumarvinnu þar! :)

Ætti kannski að gera mig aðeins girnilegri áður en ég legg af stað á vit veitingastaðaævintýranna. Vill helst ekki að mér verði hent út af staðnum eða að fólk missi matarlystina. Er í of stórum og slitnum 9 ára gömlum íþróttabuxum, einstaklega klæðilegum gulum pólóbol merktan jókernum sem ég fékk frá Lottó þegar ég vann í Shell og gamalli peysu af Gunnari sem hann er hættur að nota. Má svo auðvitað ekki gleyma andfýlunni, úfna hárinu og glansandi húðinni sem prýðir mig í dag. Haldiði að mér sé viðbjargandi...

laugardagur, apríl 09, 2005

...jeij náði að stela tölvunni meðan Gunnar *ehemmm* skrapp frá! :) Hef verið mjög stillt það sem af er helginni, skrapp aðeins til Klemensar í gær í spjall og smá bjór og var þar fram á rauðan morgun en stóð alla vega í lappirnar þegar ég leigubílaðist heim í hlýja bólið. Dagurinn í dag virðist ætla að komast í minningabókina sem átdagurinn mikli þar sem var étið án þess að vera svangur!! Oj oj oj fæ viðbjóð á sjálfri mér við tilhugsunina! :S En á mánudaginn byrjar nýr lífstíll einu sinni en og sundlaugin fær að njóta samvista við mig. Heppin!!! ;) Stutt skref í átt að betri líkamlegri og andlegri heilsu en skref þó og í rétta átt aldrei þessu vant!!! Þetta mun koma, markmið vikunnar að fara amk 3x í sund. Gott markmið ekki satt?

Hmmmm er að reyna að ákveða yfir hverju ég á að hanga í kvöld. Flestir verða sennilega gapandi hissa þegar ég tilkynni hér með að ég nenni ekki að horfa á Gunna spila World of Warcraft fram á nótt. Oj mig sárvantar áhugamál, uppástungur?? Einhver...

þriðjudagur, apríl 05, 2005

...ég er að deyja úr hungri en því verður kippt í liðinn vonbráðar. Dana og Jóndi eru á leiðinni til mín og við ætlum að borða eitthvað rosalega gott og *hóst hóst* hollt!! Fór í sund í gær eins og ég ætlaði mér en vá hvað það var erfitt að labba af stað. Var komin út með töskuna og var að hugsa um að hoppa bara upp í strætó og heim á leið en fannst þá önnur skálmin á buxunum mínum vera aðeins of þröng og lét mig hafa það að mæta á stefnumótið við sjálfa mig. Hélt svo að ég mundi deyja í sundlauginni en svo varð ekki og ég synti mína 2 km og bara nmjög sátt við það. Næsta sundferð er svo plönuð á morgun og svo reglulega á næstunni. Nenni ekki að vera með rosalegt langtímamarkmið því þá verð ég bara svekkt svo fyrsta smámarkmiðið mitt er að mæta reglulega í sund í apríl. Nokkuð gott ekki satt?? Best að reyna að hemja sig í átinu á eftir svo að sundið virki nú eitthvað á mig.

Ok, er farin að hanga þar til Dana rennur í hlaðið á kagganum sínum. Netið, ó netið mitt kæra, hvar væri ég án þín...

mánudagur, apríl 04, 2005

...rólegheitin eru bestu heitin sagði einhver og hef ég haft þau orð að leiðarljósi upp á síðkastið. Hef bara legið og slappað af og haft það gott á Neshaganum. Skrapp reyndar aðeins út með stelpunum á laugardaginn en var mjög róleg og fór snemma heim. Passaði alveg upp á drykkjuna og var bara rosalega stillta stelpan aldrei þessu vant enda kannski alveg kominn tími á það sko *ehemmm*.

Á morgun byrjar svo framhaldsheilsuátakið, sem sagt að byrja að hreyfa sig aðeins. Er löngu byrjuð að reyna að hugsa um matarræðið þó það gangi mjög mis vel! Hef samt verið óvenju góð í namminu, það er að borða lítið sem ekkert af því en nartaði nú samt í smá kex enda ekki hægt að hætta öllu í einu. En allavega þá er sund á morgun og bara harkan sex, nenni ekki að fitna upp úr öllu valdi svo það er best að taka á þessu slabbi strax. Verð að komast í fínu pilsin mín þegar sólin fer að glenna sig framan í okkur!!!

En er farin að kúra mig hjá Gunna og tölvunni, þau eru víst óaðskiljanleg þessa dagana *hrumpf* þó mér hafi tekist að stela henni í smá stund...

mánudagur, mars 28, 2005

...páksadagur liðinn og eggið ekki ennþá búið! Held að mér sé farið að förlast eitthvað, reyndar var svo margt annað girnilegt að borða að það var ekki pláss fyrir allt eggið góða. Var samt svo dugleg að vakna alveg af sjálfsdáðum klukkan 10:30 í gærmorgun og fá mér morgunmat og byrja smá á egginu og lagði mig svo aftur í 3 tíma! :D Foreldrar mínir voru ekkert að nískunasast þegar þau keyptu eggið handa mér því þau keyptu konfektegg frá Nóa Siríus. Ég sé reyndar fram á að þurfa að taka það með mér suður á morgun því rommkúlutertan er svo dísæt að eggið fær að bíða í ísskápnum. Er nefnilega erfiðara að taka kökuna með og ekki get ég sleppt því að borða eitthvað af þessu gúmmelaði sem mamma hefur töfrað fram um páskana!! :D

Annars er hitinn alveg að drepa okkur hérna í firðinum fagra og ég svitna eins og ég fái borgað fyrir það. Væri ekki amarlegt að fá feita ávísun inn um bréfalúguna fyrir allan þennan svita, fer nefnilega að vanta föt fyrir sumarið. Það er annað hvort að kaupa ný eða fara að hreyfa sig svo þau gömlu sitji betur. Kannski það verði bara sitt lítið af hvoru, hver veit...

sunnudagur, mars 27, 2005

...rosalegt djamm ala Seyðisfjörður í gær og þynnkan eftir því í dag. Annað hvort verð ég að bíta í það súra epli að vera alveg að verða gömul eða þá að þessi fræga magaflensa er ennþá að stríða mér, amk hef ég aldrei orðið jafn þunn og ég var í gær og svo fyrir 2 vikum síðan. Drakk nú bara 5 og hálfan bjór í gær og varð alveg blindfull og hroðalega veik í dag. Held að þetta sé maginn að óþekktast því þetta er alls ekki venjulegt fyrir mig og núna hef ég ákveðið að kíkja til læknis út af þessu. En þrátt fyrir mikla vanlíðan tókst mér að pína í mig kvöldmatnum og halda honum niðri. Hefði líka verið frekar ógeðslegt að hlaupa frá borðinu til að kasta upp, sérstaklega þar sem við vorum með gesti í mat. Var samt fljót að hressast eftir matinn og þegar kom að eftirréttnum var ég í fullu fjöri. Ákvað samt að vera róleg í kvöld og ekkert að sjússast neitt ef ég mundi kíkja út en það er svo notalegt að vera bara heima með mömmu og pabba að ég nennti ekki að fara á eitthvað útstáelsi.

Páskaegg á morgun *sleikja út um*...

fimmtudagur, mars 24, 2005

...daman mætt í fjörðinn fagra og ekkert nema gott um það að segja. Þriðjudagurinn fór í heimsóknir, matarkaup og ótrúlega gelgju um kvöldið! :S Í gær var svo meira verslað og önnur heimsókn og góð afslöppun um kvöldið með nammi og allt. Svo var mamma svo dugleg að baka bananaköku og kryddbrauð með litlum sykri þannig að við getum öll notið þess saman í kaffitímum alveg án samviskubits. Jarðarberjatertan dísæta bíður þar til á morgun! :D

Í dag var mér svo boðið í 2 fermingarveislur, ein með kökum og ein með mat. Ekkert nema gott um það að segja en á endanum var ég orðin svo södd og komin svo mikil værð yfir mig að ég bað pabba um að skutla mér heim. Var reyndar búin að plana að setja skraut í hárið á mér og stilla mér upp við gjafaborðið og segja "gjafirnar á borðið takk, umslögin til mín" og stinga svo af með fullt af peningum. En þessi dagur dregur fram allt það góða í manni svo þessi áætlun var sett í salt þar til annað svona gott peningagróðatækifæri bíðst...

mánudagur, mars 21, 2005

...helgin var með svipuðu sniði og venjulega. Afslöppun og tívígláp á föstudaginn, tvöfalt afmælispartý og hrikalegt djamm á laugardaginn og hroðaleg leti og át á Álftanesinu á sunnudaginn. Ekki hægt að kvarta yfir neinu þarna, skemmti mér konunglega öll kvöldin og naut lífsins út í fingurgóma.

Í dag hefur svo bara verið snatterí um borgina í félagsskap gamalla og góðra vina. Skildi símann minn reyndar eftir í hleðslu hjá Nedda og Gyðu og varð þá ungfrú vinsæl og allir að hringja í mig. Verst að missa af að hitta Möddu en það kemur bráðum sumar og þá getum við leikið okkur saman oft og mörgum sinnum.

Þarf víst að fara að finna tösku og henda einhverjum tuskum í hana. Var tilkynnt áðan að þvottavélin á ættaróðalinu væri biluð og því þarf ég að fara í gegnum þvottakörfuna og athuga hvort einhverjar merkilegar flíkur liggji þar eða hvort þar séu einungis garmar sem meiga alveg missa sín þessa viku sem ég stoppa í menningunni fyrir austan. Best að drífa þetta af svo ég geti tirtildúfast í kvöld...
...helgin var með svipuðu sniði og venjulega. Afslöppun og tívígláp á föstudaginn, tvöfalt afmælispartý og hrikalegt djamm á laugardaginn og hroðaleg leti og át á Álftanesinu á sunnudaginn. Ekki hægt að kvarta yfir neinu þarna, skemmti mér konunglega öll kvöldin og naut lífsins út í fingurgóma.

Í dag hefur svo bara verið snatterí um borgina í félagsskap gamalla og góðra vina. Skildi símann minn reyndar eftir í hleðslu hjá Nedda og Gyðu og varð þá ungfrú vinsæl og allir að hringja í mig. Verst að missa af að hitta Möddu en það kemur bráðum sumar og þá getum við leikið okkur saman oft og mörgum sinnum.

Þarf víst að fara að finna tösku og henda einhverjum tuskum í hana. Var tilkynnt áðan að þvottavélin á ættaróðalinu væri biluð og því þarf ég að fara í gegnum þvottakörfuna og athuga hvort einhverjar merkilegar flíkur liggji þar eða hvort þar séu einungis garmar sem meiga alveg missa sín þessa viku sem ég stoppa í menningunni fyrir austan. Best að drífa þetta af svo ég geti tirtildúfast í kvöld...

föstudagur, mars 18, 2005

...er ekki veðrið alltaf sígilt umræðuefni? Fór út í gær í skítaveður í síðu góðu úlpunni, með húfu og vettlinga og allan pakkann. Var meira að segja með trefil í töskunni svona til öryggis, svo illa leist mér á veðurútlitið. Kem heim í dag dúðuð frá höfði og niður í 6 gráðu hita, alveg að stikna og eins og auli þegar allir aðrir voru á peysunni *crazy fólk sem hugsar ekki um heilsuna ;)* eða á jökkum. En pifff bara gaman að láta stara á sig!! Græddi samt pylsu, ekki af því að ég var í úlpu heldur því ég er bara ég híhíhíhí. Verð samt að vona að það komi ekki aftur svona kuldakast því ég subbaði sinepi á hana bara til að vekja ennþá meiri athygli! :( Þarf víst að fara að rölta í hreinsun með gripinn góða.

Svo var St.Patricksday í gær og við ákváðum að halda upp á írskablóðið sem rennur í okkur og drekka smá bjór á tilboði. Var meira að segja svo rosalega "heppin" að græða einhverjar tvær forláta húfur sem ég tróð auðvitað beint í töskuna, söfnunaráráttan sko, þið vitið ég er víst þegar allt er tekið saman kvenkyns. Verst að ölið fór eitthvað öfugt ofan í mig og það vottar bara fyrir þynku í dag (nei ég drakk ekki svo mikið!!!)! Maginn ennþá eitthvað að stríða mér og þolir ekkert *bölv og ragn*. Er farin að hallast að öllausu afmæli á morgun en er þetta ekki eitt af því sem allir segja og engir framkvæmir? Svona eins og að hætta að borða nammi það sem eftir er ævinnar því sykur er eitur...

þriðjudagur, mars 15, 2005

...hún amma Sigga mín á afmæli í dag, til hamingju með það! :* Býst við að þeir sem ákváðu að kíkja til hennar í kaffinu hafi fengið fullt af gómsætum kökum, þannig er hún bara. :) Annars allt að verða vitlaust í afmælum þessa dagana, Ari Björn 1 árs þann 8. og einhverjir fleiri sem ég þekki áttu líka afmæli þann dag. Eignaðist lítinn frænda úti í Bretlandi þann 10. og Madda Stína varð ári eldri þann 13., amma á afmæli í dag og Sindri á morgun og svo þykist Dana eiga stórafmæli í lok mánaðarins. Er svo boðið í tvöfalt afmæli á laugardaginn og Seyðisfjörður á þriðjudaginn svo það er bara allt að gerast! :)

Hvað er það samt að vera með dömubinda- og bleyjuauglýsingar fyrir leiðarljós??? Er ekki næstum bara gamalt fólk sem horfir á það? Mér finnst þetta vera frekar kaldhænislegt! Uss Vanessa er fyrir framan hús sem er samlitt peysunni hennar, þetta er æsispennandi...

sunnudagur, mars 13, 2005

...er eitthvað svo eirðarlaus og hata það. Sit hérna og skoða dýrt drasl á internetinu og læt mig dreyma um betri fjárhagslegatíma. Samt ekki eins og ég verði að eiga allt og ekki einu sinni eins og mig langi það í rauninni en alltaf gaman að láta sig dreyma.

Var í mat á Álftanesinu áðan og án þess að vera að reyna að sleikja einhverja upp þá var þetta alveg ótrúlega góður matur eins og vanalega. Ég er bara komin með matarást á þessu fólki! :) Var samt dugleg og náði að hemja mig, borðaði eins og eðlileg manneskja og afþakkaði köku í eftirrétt þvíég var svo mett. Er reyndar ennþá asnaleg í maganum svo það spilaði svolítið mikið inn í. Er búin að lofa að fara til læknis ef þetta fer ekki að lagast og fyrst að það loforð hefur verið gefið lagast þetta örugglega eftir nokkra daga, þannig er það alltaf sem betur fer.

Svo var auðvitað idol á föstudaginn, öllum þrælað í mini-bíóið í Seljahverfinu og mikið stuð þar. Auðvitað tók hún Hildur Vala þetta en Heiða var samt rosalega góð líka. Svo var öllum hollað niður í bæ og sumir djömmuðu fram á morgun, ég stakk samt af um 4-leytið. Var rosalega lúmsk, tékkaði á stelpunum og þegar þær voru ekki að horfa reif ég úlpuna mína af stólnum og hljóp niður og út. Hafði varla tíma til að klæða mig áður en ég þaut út og burt frá soranum! ;) Verst að ég var ekki alveg svona frá á fæti daginn eftir þegar ég varð fórnarlamb mestu þynnku sem um getur. Svona illa held ég hreint út að mér hafi aldrei liðið áður og óska ekki mínum versta óvini að þurfa að lenda í svona. Verð samt að viðurkenna að ég glotti við tilhugsunina að Bogi væri kannski þunnur í dag bara svona því hann var að stríða mér í gær. En uss það er samt ljótt því hann leyfði mér að kúra í sófanum sínum með teppið góða og horfa á tívíið með sér. Ekki allir sem hefðu kært sig um að hafa svona hræ inni hjá sér...

fimmtudagur, mars 10, 2005

...haldiði ekki að konan sé bara að fara að glápa á Eddie Izzard á Broadway á eftir. Ætlaði ekkert að fara en Atli "bró" ákvað að fara frekar á einhverja MR-samkundu og ég fékk miðann. Gaman gaman, veitir ekki af smá hlátri inn í mitt annars svo ákaflega dapra líf!! ;)

Tja annars ekkert voðalegt að frétta, Idol á morgun í Breiðholti af öllum stöðum. Fólk bara rekið upp í kuldann og vindinn til að sjá úrslitin! ;) Verð að vera tilbúin á fyrra fallinu aldrei þessu vant svo ég komist þangað. Uss uss uss það sem á mann er lagt og ég hvorki búin að velja dressið eða gera prufumálningu!! Hahahaha sé það í anda gerast einhverntímann, kannski daginn sem ég gerist Sirrý ákaflega vel skipulagða og ég efast um að það gerist í bráð. Hvað ætli laugardagurinn bjóði upp á?? Veit um eitt stykki afmæli og gæti hugsanlega laumað mér þangað inn með því að nota nafnið Bogga en ég veit ekki hvort ég nenni því. Skilst að það sé ekkert líkt með okkur í útliti þó að hægt sé að ruglast á okkur í síma!

En best að klára að gera mig tilbúna fyrir Izzard-inn, má ekki láta manninn bíða... ;)

mánudagur, mars 07, 2005

...ég á svo bágt, er illt í maganum og óglatt! Ætla ekki að kvarta meira í bili en allir að vorkenna mér samt!!

Dreymdi annars stórfurðulega í nótt, Gunnar átti aðra kærustu líka sem hét Björg. Ég varð auðvitað mjög sár og leið en reyndi að vera sterk. Svo hafði hann keypt íbúð einhverstaðar lengst úti í rassgati og sagði að ég mætti búa með sér ef ég hjálpaði til við að gera íbúðina fína. Ég samþykkti það og við ásamt hóp af fólki hófumst handa við að drepa pöddur og rífa gólfefni af. Svo kom heiftarlegt rifrildi og við hættum saman og hann ákvað að vera bara með þessari Björgu en samt þurfti ég að hjálpa til því ég komst ekki heim. Mér leið hörmulega því allir voru vondir við mig, öskrandi á mig og með leiðinda stæla. Komst heim að lokum en tók strætó aftur þangað daginn eftir til að hjálpa til því ég ætlaði ekki að gefast upp svona auðveldlega. Var næstum komin þangað þegar ég frétti að enginn yrði þar þennan dag en ég var bara ekki látin vita og ég varð ofboðslega sár. Þetta var svo skrítin draumur og mér leið svo illa í honum að ég var fegin þegar ég vaknaði alveg í svitabaði. En þegar ég sofanði aftur kom bara framhald á draumnum og vanlíðanin í svefninum hélt áfram. Varð hroðalega fegin þegar ég vaknaði alveg og fór á fætur. Gott að geta hlegið af þessari vitleysu núna...

sunnudagur, mars 06, 2005

...austfirðingaballið var ágætt, partýið hjá Nedda og Gyðu var skemmtilegra. Við mættum þarna á ballið og dönsuðum smá og svo stungum við Gyða af á 22, þegar við komum þangað mættum við Klemensi og Ingu sem var mjög undarlegt þar sem við kvöddum Klemens á Nasa og ætluðum að hitta hann á eftir. Veit ekki hvernig hann var svona snöggur upp eftir *hux hux*. Eftir stutta stund á 22 skunduðum við Gyða á Devitos og fórum svo heim til hennar að borða. Höfum ekki verið komnar svona snemma heim af djamminu í langan tíma. Frétti að ég hefði ekki angað neitt voðalega vel þegar Gunni kom að sækja mig til Gyðu strax eftir pizzuna. Enda efast ég um að heilt box af hvítlauksolíu, svartur pipar og pepperoní blandað saman við bjór og ga-jol skot lykti vel þegar maður ropar!! Svo var ég alveg pottþétt ákaflega skemmtileg þegar við komum heim, kvartaði yfir að vera of full, hló eins og vitleysingur og talaði mjög hátt þrátt fyrir að ég einbeitti mér að því að tala lágt. Hef örugglega vakið Boga, Adda og alla hina í blokkinni áður en ég lognaðist út af!

Í gær voru svo bara rólegheit. Hamborgari, ís og hryllingsmynd með Gyðu, bíó með Gunna, Snorra og Stebbu og svo kaffi og spjall með Gyðu og Ástu. Semsagt ákaflega góður dagur. Sit núna heima og reyni að ímynda mér að einhver einn tími sé betri til að fara í sturtu en annar. Komst að því að klukkan 17:30 er sturtutími og þangað til bara hangs á netinu. Svo bara góður sunnudagsmatur á Álftanesinu og kúrerí í kvöld. Sýnist á öllu að sunnudagurinn ætli ekki að klikka frekar en vanalega! :)

Lýsi hér með eftir einhverju að gera annaðkvöld og tja kannski bara á þriðjudagskvöldið líka...

föstudagur, mars 04, 2005

...þá er konan komin heim og búin að hjúkra manninum til betri heilsu. Mér er greinilega ekkert umhugað um eigin heilsu því morgun/hádegismaturinn í dag eru sterkir molar og sykurpúðar *hrollur*. Verð örugglega hroðalega ofvirk í dag og dett svo niður í blóðsykri og kemst ekki á austfirðingaballið fræga í kvöld. Nei ætli ég reyni ekki að læða einhverjum alvöru mat ofan í magann áður en bjórþambið og idolið byrjar. Er voða heit fyrir surprise surprise núðlum af Rikka Chan, skil ekki afhverju mér finnast þær svona góðar því þær eru í rauninni ekkert sérstakar! :S Hmmmm er farin að gjóa augunum á snakkið svo það er kannski best að ég fari að hafa samband við hana Dönu og koma mér eitthvað út!

Allir að kjósa Hildi Völu í kvöld hún er svo flottust...

miðvikudagur, mars 02, 2005

...oj hvað ég er þreytt, skil þetta bara ekki! Fór frekar snemma að sofa í gær en var alltaf að vakna eins og nóttina á undan. Fór svo á fætur fyrir klukkan 10 og hentist í búð að kaupa kók og eitthvað að maula handa veika manninum. Fór svo í morgunkaffi til Gyðu Ameríkufara, hafði ekkert hitt hana frá því að hún kom aftur til landsins. Alveg ónýtt. Sit bara heima núna og reyni að gera eitthvað svo ég fari ekki að sofa. Er alveg máttlaus í líkamanum og finn að ég gæti sofið fram á kvöld en þeir sem allt þykjast vita segja að það sé alveg bannað. Uss skil ekki hvaðan þær upplýsingar koma, eins og það er gott að sofa á daginn. Verst að maður missir af öllu en á hinn bóginn kemur maður miklu í verk því það enginn til að trufla mann á nóttunum...

þriðjudagur, mars 01, 2005

...mmmm mmmm er svo heppin að þekkja fullt af fólki sem er tilbúið að fóðra mig. Hékk með Dönu í gær sem bauð mér í lasagna. Borðaði á mig gat eins og á að gera þegar manni er boðið í mat amk ef verið er að reyna að halda fituforðanum við en samt eyða sem minnst af sínum eigin peningum í fóður. Fór strax í bælið og ég kom heim en svaf alveg hörmulega, var alltaf að vakna til að pissa og vesenast eitthvað. Svaf til 11:30 því í dag byrjuðu einhverjir árdagar í skólanum sem ég nenni ekki að taka þátt í. Er alveg hrikalega ófélagslynd kona amk þegar kemur að einhverju svona, því miður *roðn*.

Gunni litli er veikur, eða ég held hann sé veikur í dag var það amk í gær. Ég var óvelkomin kærasta því honum finnst víst best að vera einn þegar vanlíðanin er svona hroðaleg. Ég sem er svo góð hjúkka, hans missir! :) Kannski best að ath hvenrig heilsan er hjá manninum og hvort hann vanti eitthvað. En það verður að bíða aðeins (oj hvað ég er vond) því núna ætla ég að skoppa í strætó til Ingu og við finnum upp á einhverju bráðskemmtilegu að gera eins og við erum vanar. Gætum hrellt afgreiðsludömur í 10-11, erum víst þekktar fyrir það...

mánudagur, febrúar 28, 2005

...mér finnst ab-mjólk í alvörunni góð, er ég skrítnari en aðrir eða þykir þetta fullkomnlega eðlilegt? Fór á djammið á laugardaginn og það var hroðalega gaman þó þetta væri ansi óvenjulegt djamm. Við Alda opnuðum fyrsta bjórinn klukkan 17:30 og sátum hérna bara tvær til rúmlega miðnættis en þá kom Klemens að ná í okkur svo við gætum veitt honum félagsskap meðan hann tók sig til. Við vorum búnar að gella okkur hroðalega upp og sjaldan hafa tvær ungar konur verið svona rosalega ánægðar með sig. Þegar Alda var búin að hözzla og Klemens var að spjalla reyndi ég að hafa samband við Gunna en hann vildi ekkert við mig tala, bölvaður!! Sendi honum líka sms sem hann fékk eftir að við vöknuðum á sunnudaginn!! Þannig að eftir að hafa dansað eins og hóra sat ég og spjallaði við Snorra Guðjóns til lokunar. Komumst að því á endanum að þeir Gunni höfðu verið að vinna saman, gaman að því! Rölti svo með Snorra niður á Lækjartorg og aftur upp því ég ætlaði sko að fá far heim með Gumma vini hans en þegar ég var kominn inn í bílinn og búið að hlaða svíum allt í kringum mig hringdi Gunni loksins. Allir í bílnum andvörpuðu og svo var hafist handa við að komast aftur út úr bílnum sem var miklu erfiðara en að komast inn í hann. Stóð svo úti og svipaðist um eftir Gunna, þá kom einhver strákur og fór að spjalla við Snorra. Ég leit eitthvað á hann og fór aftur að skima í kringum mig og eftir þónokkra stund fattaði ég að Snorri var að tala við Gunna. Ég þekkti ekki minn eiginn kærasta því hann var búinn að snyrta skeggið!! :S Hvað þýðir þetta? Er ég með athyglisbrest?? Minnisleysi?? Rakar Gunni sig alltof sjaldan?? Eða fæ ég of lítinn kvalití kærastatíma??? *Hux Hux* Þegar heim var komið elduðum við dýrindis núðlur sem ég kryddaði með öllum kryddum sem ég fann í íbúðinni og fannst þetta bara alveg geðveikt gott, hefði örugglega ekki fundist þetta hundum bjóðandi ef ég hefði átt að borða þetta áður en ég fór út!

Á sunnudaginn var ég svo hroðalega villt að stinga karlinn af og fara á Grillhúsið með Ingu Hrefnu þar sem ég piggaði mig út af nachos og hamborgara og frönskum *jömmers*. Svo var haldið í 10-11 og keypt nammigott og lentum við í afskaplega skemmtilegri lífsreynslu þar. Afgreiðsludaman gleymdi að láta Ingu fá afganginn og hún fattaði það ekki fyrr en var búið að afgreiða mig. Inga sagði að sig vantaði afganginn en afgreiðsludaman sagði "ég man eftir að hafa látið þig fá til baka, ég stend fast á þessu". Hún endurtók þennan frasa oftar en góðu hófi gegnir og strákur sem var að vinna þarna var að fara yfir um honum leið svo illa út af þessu en stelpan lét sig ekki. Hún lét við Ingu eins og hún væri krakkaskítur og sagði henni að leita í vösunum og leita betur og ég veit ekki hvað og hvað. Á endanum sagði ég "peningarnir geta nú varla hafa horfið" og þá sagði daman "ég stend fast á að hafa gefið þér til baka, þú borgaðir með þúsundkalli" Ég alveg "nei það var ég sem borgaði með þúsundkalli". Inga borgaði sko með korti, þá sagði daman "já ég man núna ég veit upp á mig sökina, borgaðu henni afganginn". Hún sagði ekki einu sinni afsakið!!! Mér finnst að Inga eigi að kvarta, gengur ekki að það sé komið fram við mann eins og ótíndan þjóf þegar maður bendir afgreiðslufólki á mistök. Enda mundi ég ekki nenna að stela 448 kr en ég vill samt fá þær til baka enda hef ég ekkert efni á að halda 10-11 uppi. Sú keðja getur nú ekki verið í svo miklum kröggum amk ekki miðað við vöruverðið þar *fjúffff þurrka svitann af enninu*...