mánudagur, desember 29, 2008

...jólin voru vægast sagt yndileg, með góðum mat, góðu fólki og góðum gjöfum. Dawid borðaði hjá systur sinni og kom svo kl 20 og þá opnuðum við gjafirnar með gamla settinu. Þau voru alveg standandi hissa á hversu margir pakkar voru undir tréinu og ennþá meira hissa þegar þau komust að því að þau áttu helling af þeim. Við nefnilega pökkuðum þeirra gjöfum í marga pakka! :P Held að allir hafi verið sælir og sáttir við sitt. En hann pabbi *púfff* ég gaf honum meðal annars Laddi 6-tugur, hann opnaði pakkann og sagði svo "en Sigríður mín, ég keypti mér þennan disk í gær." Í GÆR!!! MAður kaupir sér bara ekki það sem mann langar í daginn fyrir jól, maður bíður amk þangað til milli jóla og nýárs eða þangað til það eru útsölur en kaupir sér ekki á Þorláksmessu. Það er bara BANNAÐ!!! En annars náði hann að losa sig við annan diskinn í jólaboðinu, Gunnsa langaði nenfilega í hann og keypti hann af pabba. Svo jólagjafirnar frá mér eru farnar að ganga kaupum og sölum! ;)

En ég fékk bara góðar gjafir. Hjartahálsmen með demöntum frá elskunni, bók og Georg Jensen skraut frá pabba og loforð um sódastream-vél á nýju ári. Fleira Georg Jensen skraut frá mömmu, kertakrónuna sem mig langaði í og hreindýrshorn fínpússað sem er ætlað til að hengja á skartgripi en mér finnst það svo fallegt að ég er að hugsa um að láta það standa í stofunni. Frá Auði og Gullu fékk ég myndina af okkur vinkonunum sem var tekin á ballinu í nóvember, frá Örnu fékk ég klút um hálsinn og bók og frá Beatu, Piotr og krökkunum fékk ég veski. Held að þetta sé upptalið! :) Nei nei nei frá Klemensi fékk ég lampa, frá Gunnari magic 8-ball og frá Herdísi sápu. Nú er þetta komið og enginn gleymdist.

Á annan í jólum sátum við Dawid með mömmu, pabba og Óla frænda alveg heillengi og svo fór Óli og Gulla kom í staðinn. Við skelltum okkur svo á Láruna í 2 bjóra og svo heim á leið þar sem ég fann Dawid sofandi í sófanum. Á 3-ja í jólum fórum við á Diskó og það var geðveikt gaman en sumir urðu reiðir þegar heim var komið og hentu fólki út og létu öllum illum látum, tja eða ekki svo illum, varð samt pirruð á væli í vissum mönnum sem ég þekki og nennti ekki að hlusta á þetta og bara rak hann heim til sín. Eldaði svo ljúffengt pasta handa okkur og Klemensi og Kötu með fullt af hvítlauk og gúmmelaði. Bragaðist jafnvel daginn eftir, Dawid ætlaði ekki að þora að smakka það aftur því ástandið var svona og svona þegar það var eldað en ég vissi að ég væri góður kokkur og skellti mér á þetta! :)

Svo eru það bara áramótin eftir 2 daga. Veit ekki hvað ég ætla að gera þá, amk hafa það alveg rosalega gott hjá mömmu og pabba og fá mér böbblí kl 12 en eftir það kemur bara í ljós...

þriðjudagur, desember 23, 2008

...ég keypti jólakort í ár en hef ekki ennþá komist svo langt að skrifa á þau. Þau bíða bara í kassanum sínum eftir næstu jólum því ég held ég nenni ekki að standa í þessu í ár fyrst ég er orðin svona sein. Ekki það að mér finnist þetta eitthvað leiðinlegt bara margt annað sem þurfti frekar að gera eins og að þrífa eldhúsinnréttinguna, strauja gardínur og þurrka af hurðum. Já ég fékk eitthvað kast í gær, með Guðlaugu mér við hlið, tusku í hægri hönd og Þjark í vinstri og svo var bara skrúbbað og það tók enga stund og ég er svo hamingjusöm núna! :) Jólin meiga alveg fara að koma, á bara eftir að þrífa yfir litla baðherbergið mitt og skúra gólfin og þá meiga jólin koma til mín *falllala*

En aftur að jólakortunum, ég sendi bara jólakveðjurnar mínar hérna eða á facebook ef ég verð í stuði og þeir sem búa í fallega jólabænum mínum fá kannski koss á kinn ef ég rekst á þá/þær! :)

Segji þá bara:

Gleðileg jól elskurnar mínar nær og fjær. Vona að þið eigið öll yndisleg jól í faðmi vina og fjölskyldu. Ekki borða yfir ykkur af kræsingum...svo áramótadressið verði ekki of þröngt í ár...sjáumst örugglega á milli jóla og nýars hérna í netheimum...

mánudagur, desember 22, 2008

...maturinn á Skaftfelli var æðislegur, Nikolas kann þetta sko alveg og við fórum heim mett og sæl og sæt auðvitað líka. Ég fékk reynar alveg herfilegan hausverk rétt áður en við fórum heim svo ég fór bara í bólið þegar heim var komið í staðinn fyrir að fara með stelpunum að spila. Skruppum svo til Egilsstaða í gær til aðleggja lokahönd á jólagjafakaupin. Dawid var mjög snöggur að kaupa gjöfina mína...nú er bara að bíða og sjá hvað það er! Fékk annað hausverkjakast á leiðinni heim frá Egils og varð aðleggja mig þegar ég kom heim. Ekki gaman enda fylgdi þessu pirringur og ég gerðist frænka Hurðaskellis í smá stund, en mjög stutta stund. En gleðin var sú að Dawid málaði hilluna, loksins, loksins er hún orðin hvítleit og fín eftir langa bið og mikið tuð.

Er bara í vinnunni núna að drepast úr þreytu því ég hvíldist of mikið um helgina, allt er gott í hófi er víst sagt...

miðvikudagur, desember 17, 2008

...þá er konan búin að koma upp öllu jólaskrautinu og ég verð að segja að tréið er ákaflega vel heppnað í ár! :) Skellti mér í þetta í fyrradag og var enga stund að þessu. Þá á ég bara eftir að klára síðustu jólagjöfina og skrifa kortin, kaupi mér kannski malt og appelsín og hendist í kortin í dag eða á morgun. Jafnast ekkert á við jólatónlist og jólablöndu til að komast í gírinn.

Um helgina spiluð við Gulla og Arna Trivial meðan Dawid og Matti höfðu hátt í Fifa '09. Mér gekk vægast sagt mjög illa, tókst að misskilja mjög létta spurningu og svara vitlaust þegar það var 50/50. En þetta var bara spil og mér gengur bara betur næst! :) Er bara heppin í ástum í staðinn og það er miklu betra en sú skammvinna ánægja að vinna einhver leik. Skruppum svo á Láruna og ég fékk mér 1 bjór. Þar var allt að fyllast af fólki sem hafði verið á jólahlaðborðum út um allan bæ og átti greinilega eftir að verða mikið stuð en við komum okkur bara heim eftir þennan bjór. Við Dawid drukkum reyndar saman 1/2 hvítvínsflösku og spjölluðum fram á morgun með rómantíska tónlist á fóninum. Elska svona stundir, þær gefa mér svo mikið! :)

Við erum ákaflega sein í að senda gjafirnar sem eiga að fara til Grikklands. Dawid er ekki einu sinni búinn að kaupa allt!! Ég er alltaf að reyna að reka á eftir honum en hann situr sem fastast. Foreldrar hans fá greinilega bara nýársgjafir í ár. Hann var eitthvað að reyna að afsaka sig með því að mamma hans vildi ekki gjöf en auðvitað segir hún það og verður svo ánægðust af öllum þegar hún opnar gjöfina frá litla uppáhaldsörverpinu sínu. Mömmu eru allar eins þegar kemur að svona málum, alltaf tilbúnar að fórna sér svo aumingja börnin þurfi ekki að eyða peningunum sínum í þær en börnin vilja bara gefa þeim eitthvað og sjá ekkert eftir krónunum.

Á laugardaginn erum við og mamma að fara á jólahlaðborð í Skaftfelli. Pabbi kemst ekki með því Gullver kemur svo seint inn í ár. Verður skrítið að hafa hann ekki með en við reynum að skemmta okkur samt. Ég er viss um að Nikolas töfrar fram gómsætan dansinsperaðan mat handa okkur og við stöndum örugglega alveg á öndinni þegar við komum okkur loksins heim...

mánudagur, desember 08, 2008

...nei nei ekkert hætt að vinna, er svo glöð og ánægð með vinnuna mína að ég sit bara á sæluskýji flesta daga! :) Ligg og les í frítímanum og um helgar. Sleppti meira að segja að fara á útstáelsi um helgina til að hafa það kósí með bók og sæng. Er eitthvað svo heimakær þessa dagana og mér finnst það mjög gott, hef verið mikill djammari frá því ég man eftir mér svo þetta er skemmtileg tilbreyting sem ég þurfti ekki að neyða á mig, kom bara að sjálfu sér. Kannski samt slæmt að vera svo heimakær að maður getur ekki kíkt út part af kvöldi þegar eitthvað er um að vera!! Vona að ég finni hinn gullna meðalveg fljótlega því allt er gott í hófi, bæði útstálesi og heimakærleikur.

Jújú það var planið að skreppa norður eina helgi fyrir jól en sé ekki að það verði neitt úr því vegna kjálkabrotsins hjá manninum. Það kostaði slatta og svo vill hann helst ekki vera að taka meira frí, var rúmar 2 vikur frá vinnu út af þessu. Langar samt en svona er þetta, fékk amk að kíkja í borgina í 3 daga í staðinn. Verð bara að kíkja á frænkur mínar með vorinu. Plana kannski bara páskaferð í staðinn, hljómar það ekki vel?

En að jólakskrautinu. Er búin að koma smá upp, í rafmagnsleysinu um daginn setti ég jólalög af stað í tölvunni, kerti út um allt og fór að setja upp skraut sem amma Sigga átti. Þetta var voðalega yndæl og góð stund sem við amma áttum saman þarna bara tvær. Er alltaf á leiðinni að ná í síðasta kassann í bílskúrinn til Óla en hann er búinn að vera á næturvöktum og ég vil ekki trufla hann þegar hann er að leggja sig. Svo fengum við gefins hillu frá Ágústu og Gunnari Árna eða eiginlega Agnesi og ég er búin að kaupa panellakk sem við ætlum að skella á hana og svo bara inn í stofu og fylla af dvd's. Hillan kom akkúrat á réttum tíma því Dýri og Ríkey eru að tæma svo við þurftum að skila lítilli hyrslu sem við vorum með í láni hjá þeim. En þau eru svo frábær að leyfa okkur að hafa kistu sem við geymum sængur í og 2 eldhússtóla fram á vorið. Gott að þurfa ekki að kaupa allt á sama tíma! :)

Sem sagt allt í gúddí hérna eins og venjulega og lífið bara gott og leikur við mig, ég er svo hamingjusöm, glöð og ánægð með hvar ég er stödd í dag...

þriðjudagur, desember 02, 2008

...ég er svo framkvæmdadauf þessa dagana. Ég veit að ég er alltaf að segja frá leti og þreytu en núna er ég eiginlega hvorugt en kem samt engu í verk. Finnst bara svo gott að kúra mig með bók að ég kem engu öðru í framkvæmd. Horfi ekki á sjónvarp eða hlusta á útvarp en ligg og les og les og les og tæti í mig hverja bókina á fætur annari og því blóðugri sem þær eru því hamingjusamari er ég! Kláraði einmitt Napoleonsskjólin eftir Arnald í gær og var bara sátt við hana, alltaf eitthvað að gerast. Var reyndar svolítinn tíma að komast inn í hana, eftir 50 bls var ég við það að gefast upp en ég hélt í vonina og það lifnaði yfir henni fljótlega.

Svo var ég eitthvað að tala um það um daginn að fara að jólaskreyta. Það heppnaðist ekki betur en svo að ég gleymdi kassanum með aðalskrautinu í bílskúrnum svo ég er bara búin að setja upp aðventustjakann, aðventuljós og eitt veggskraut, ekki mikið það en þetta kemur allt með kalda vatninu. Pabbi kemur í land á morgun og þá get ég farið og fundið síðasta kassann og byrjað að dúllast við þetta. Að skreyta er skemmtilegi parturinn en að þrífa púfffff...mér fallast hendur við tilhugsunina að skrúbba elhúsinnréttiningu og hurðarnar og þvo gardínur og ég veit ekki hvað og hvað. Ekki það að ég sé svo brjáluð að halda að þetta tilheyri endilega jólunum en þar sem ég er búin að fresta þessu síðan 1. september ákvað ég að þetta yrði að gerast svo ég gæti haldið heilög jól. Kannski það verði bara engin jól í ár...