fimmtudagur, maí 17, 2007

...þá er gamla settið mitt í bænum og við búin að stússast ýmislegt. Laugarvegurinn var tekinn á þriðjudaginn í blíðskaparveðri og stoppað á 2 kaffihúsum þar ásamt nokkrum búðum en fyrst borðuðum við dýrindis smörrebröd á Jómfrúnni og drukkum hvítvín með. Um kvöldið fórum við Gunnar svo með þau á NanaThai að borða gómsætan asískan mat úr fyrstsa flokks hráefni og Tælenskt rauðvín með, það var mjög bragðmikið en gott og passaði vel við sterka réttinn. Í gær skruppum við svo í Smáralindina og mamma bætti aðeins í fataskápinn sinn. Ég keypti mér kjól á 3000 kr og er mjög sátt við það verð, Vila klikkar bara ekki á þessu. Borðuðum svo súpu og sjávarrétti á Madonna og höfðum það gott til klukkan 22 þegar ég skrapp í bíó með Gunnari, Herdísi og Mikka. Spiderman 3 varð fyrir valinu og ég er bara mjög sátt við hana, hló og grét og allur pakkinn bara. Í dag var svo frí frá búðum, smá kaffihús og svo matur hjá tengdó. Tengdafólkið okkar beggja að hittast í fyrsta skiptið. Gerða eldaði geðveikt góðan mat og Ásgeir klikkaði ekki á grillinu. Þetta gekk alveg rosalega vel og allir spjölluðu heil ósköp um alla heima og geima, gæti bara verið að við leyfum þeim að hittast aftur við tækifæri! Á morgun er svo stefnan sett á Kringluna og svo að borða í Perlunni. Mömmu og pabba langaði svo að bjóða okkur Gunnari fínt út að borða útaf afmælunum okkar og Gunnar þrítugur og allt það. Ég hlakka mjög til, hef aldrei borðað þarna, bara rétt skroppið á kaffiteríuna einu sinni fyrir mörgum árum og minnir að ég hafi borðað amerískan kleinuhring, örugglega með karamellu...

miðvikudagur, maí 09, 2007

...þá er Gunnar líka búinn að eiga afmæli, karlinn varð þrítugur á mánudaginn. Var einmitt að kaupa afmælisgjöfina handa honum í dag, ég, mamma og pabbi og kannski einhverjir fleiri gáfum honum video-flakkara. Hann sagði að það væri góð tilfinning að halda á honum. Nú þarf bara að fara að finna eitthvað til að setja á hann, held að það verði ekkert voðalega erfitt.

Við héldum sameiginlegt afmæli í spilasal Nexus á laugardaginn. Þar var boðið upp á bjór og rauðvín, stuð, glens og gaman og held ég að allir hafi farið sáttir út aftur. Við fengum nokkrar góðar gjafir, ég fékk td. loðkraga og við fengum bjórglös, bjór, vín, leikhúsmiða og pening til að fara út að borða. Gunnar fékk bækur og viskí og ýmislegt fleira skemmtilegt. Eina sem ég varð sár yfir var að mjög fáir af þeim sem ég bauð mættu. Að vísu var slatti búin að afsaka sig með veikindum og því fólki er fyrirgefið en allir hinir?? Hefði verið allt í lagi að láta vita! Þegar ekki er látið vita er búist við fólki og gert ráð fyrir því í innkaupum. Dónaskapur og aftur dónaskapur segji ég. Mamma mín ól mig amk betur upp en þetta...

miðvikudagur, maí 02, 2007

...afmælisdagurinn kominn og farinn og gekk bara vel fyrir sig. Fékk gjöfina frá Gunnari kl 2 á aðfaranótt mánudagsins og það var hvorki meira né minna en nintendo ds tölva. Ég vissi varla hvernig ég átti að haga mér þegar ég hafði opnað pakkann, þetta var svo mikið og ég var svo glöð því mig er búið að langa í hana svo lengi. Á afmælisdaginn fórum við Gunnar aðeins í Kringluna fyrir hádegi til að fara í Bónus og ríkið og fá okkur að borða. Svo fó ég aðeins aftur í Kringluna með Klemensi eftir hádegi og svo bara heim að slappa af og leggja mig aðeins fyrir kvöldið. Fór svo í fylgd nokkurra kærra vina á Eldsmiðjuna og fékk dýrindis pizzu sem passaði svona flott í magann minn. Þegar heim var komið var korkurinn dreginn úr stórri rauðvínsflösku og þessir fáu en góðu gestir sem ég bauð fóru að tínast inn um dyrnar. Ég fékk góðar gjafir eins og glös, eyrnalokka, pening, rauðvín og málverk, fékk fullt af knúsi og kossum og svo afmælissönginn á ensku. Einhverntímann eftir miðnætti fóru svo nokkur af okkur út á lífið þar sem var tekinn fordrykkur á Celtic Cross og svo dansað gat á gólfið á 11-unni. Ég var alveg búin í fótunum og labbaði heim á tánum eftir alla þessa snúninga á dansgólfinu. Vá hvað það var gaman!!! Var samt eitthvað fúl á leiðinni heim en það lagaðist leið og þreyttu fæturnir mínir komust yfir þröskuldinn. Takk allir sem gerðu daginn minn skemmtilegan með kveðjum, gjöfum og fyrir að vera með mér. Best af öllu er að finna að fólk muni eftir manni, það er ómetanlegt...