...hef bara haft það gott undanfarið. Skellti mér í jólakortaföndur og óáfengt glögg með því með Gyðu á þriðjudaginn. Stóð mig bara nokkuð vel að eigin áliti en þið sem fáið heimagerð kort verðið kannski á öðru máli þegar þið fáið þau í hendurnar. Verið þá bara svo væn og látið það eftir mér að þykjast finnast þau rosa flott svona afþví að það er jólin og allt það! :)
Í gær bauð Madda mér með í Smáralindina og við örkuðum þarna um og skoðuðum og skoðuðum og drukkum svo auðvitað rjúkandi kaffi. Bjóst ekki við að það væri svona notalegt að vera í Smáralindinni að kvöldi til en það var alveg yndislegt, mjög rólegt og afslappað. Það geta verið tvær ástæður fyrir því, nr.1 að fólk sé ekki byrjað að stressa sig upp úr öllu valdi og taka þátt í brjálæðinu sem stundum er á Íslandi rétt fyrir jólin eða nr.2 að Smáralindin sé eftir allt saman alltof stór og að ég hafi hreinlega ekki tekið eftir því að þarna væru mörg hundruð manns. En hvað um það, eftir búðarrápið fékk ég frábæran jólaseríurúnt þar sem við keyrðum götur sem við höfðum ekki hugmynd um að væru til. Margir sem skreyta ofboðslega stílhreint og fallega og svo eru aðrir sem halda að þeir sleppi vel með að skella upp slönguseríu, að það sé bæði fallegt og ódýrt. En getiði hvað!! Nei það er ekki fallegt sama hvað hver segir nema hún sé ofboðslega vel strekt, vafin fallega utan um súlur eða ljósastaura eða búnar til myndir úr þeim. Takið nú mín orð gild og hana nú!!
Er líka alveg að verða búin að hala öllum jólagjöfunum í hús, skruppum í morgun og keyptum tvö stykki svo þetta er allt að gerast. Enda ekki seinna vænna því ég skoppa austur eftir 9 daga minnir mig. Það er samt að þróast ákaflega mikill og langvinnur höfuðverkur um hvað ég á að gefa yndinu honum karlinum mínum. Hann gefur mér engar hugmyndir og þykist ekki langa í neitt sem getur ekki staðist með mann sem hefur áhuga á svona mörgu. Ef við gröfum nógu djúpa langar okkur öllum ákaflega mikið í eitthvað en svo er bara spurning um hvað það kostar og svoleiðis smotterí...
1 ummæli:
Hlustið á Sirrý, slöngur eru ljótar og ekki orð um það meir :)
Skrifa ummæli