laugardagur, apríl 29, 2006

...er veik ennþá einu sinni og alltaf á besta tíma. Það er prófavika eftir helgi og ég verð sennilega ekki orðin hress þá, verð örugglega að fá að taka sjúkrapróf! Hef bara legið og sofið og svitnað, þegar ég rumskaði tróð Gunnar í mig verkjapillu og skipaði mér að drekka heilt glas af vatni. Svona var þetta í 4 daga, á 5.degi og ég ekkert byrjuð að lagast fór ég til læknis og er núna komin með pensilín og slímslosandi mixtúru. *jeij* Er orðin miklu hressari en alveg ofboðslega þreytt, Gunnar þurfti td að koma með mér í þvottahúsið í gær til að bera blauta þvottinn upp því ég réð varla við að koma sjálfri mér upp stigann.

Svoldið svekk að missa af júróvísjón umræðuþættinum í kvöld en ég verð bara að reyna að troða mér í heimsóknir næstu laugadaga til að sjá restina! :) Svo ætla ég að skella mér á 6 vikna afró-námskeið, verður gaman að ná betri tökum á sporunum og fá meiri innsýn í dansinn heldur en maður fær á þessri klukkustund sem opni tíminn á laugardögum gefur manni.

En best að fara að kúra undir sæng og bíða eftir að eldabuskan mín komi heim. Þessi elska er búin að hugsa svo vel um mig í veikindunum og passa að ég borði og drekki og elda á hverju kvöldi handa mér. Þvílíkur lúxus sem ég man ekki eftir að hafa orðið aðnjótandi áður, best að halda fast í hann...

miðvikudagur, apríl 19, 2006

...komin í Neshagann eftir yndislega páska á Seyðisfirði. Þar var afslöppnunin svo mikið að ég vafraði hálfsofnandi um húsið og hafði ekki einu sinni rænu á að láta mér leiðast enda aldrei leiðinlegt heima! Skruppum í fína fermingarveislu, á þrælmagnað ball og á pöbbinn og auðvitað í kaffiboð til ömmu og nokkrar heimsóknir. Gleymdi reyndar að mæta á páskabingóið, mig sem langaði svo að fara -ath. ekki kaldhæðni! Afslöppnunin hélt áfram í bílnum á leiðinni suður þar sem ég svaf mest allan tímann, vaknaði aðeins á Klaustri til að borða samloku og rankaði við mig í Vík til að ath hvar við værum stödd. Það var sem sagt ekki eins mikið stuð í bílnum og á leiðinni austur þar sem við Klemens og Sigga lékum á alls oddi, lékum perra, lítil börn, sungum og lásum á skilti, breiddum yfir haus, lékum dansk og þýskt fólk og ég veit ekki hvað og hvað. Gleðin var svo sannarlega við völd og ferðin fljót að líða enda ekki nema 7 og hálfur tími frá Selfossi til Seyðisfjarðar.

Í dag var páskaletin alveg að drepa mig og það var svo erfitt að koma sér af stað í skólann. Drattaðist samt á fætur og mætti og geyspaði allan tímann eins og hann lagði sig fyrir utan stutta stund þegar ég fékk mikil breytingarskeiðs svitakóf. Alltaf gaman að því. Var með erfiðleikum að reyna að koma íþróttadótinu ofaní töskuna þegar ræktarfélaginn minn afboðaði mér til mikillar gleði og þar sem ég hef engan sjálfsaga í dag ætla ég að fara að kúra mig með páskaeggjaafganga og horfa á dvd...

miðvikudagur, apríl 12, 2006

...þvílík ævintýri sem verða á vegi manns þegar ferðast er með strætó. Í dag var allt stopp við Sóleyjargötuna því lítil og krúttleg gæsafjölskyla ákvað að taka þriðjudagsheilsubótargönguna úti á miðri götu. Kjöguðu þarna um og ákváðu svo að fara alveg yfir og sennilega fá sér sundsprett í Tjörninni. Ég var í svo góðu skapi að þetta amaði mig ekkert en ég held að strætóbílstjórinn hafi verið orðinn frekar óþreyjufullur þó hann hafi ekki byrjað að flauta.

Skrapp og lét klippa á mér lubbann svo austfirðingar myndu ekki flýja fjórðunginn þegar ég mætti á staðinn. Er ofboðslega fín og flott núna eða vona það amk! ;) Svo þurfti ég að heimsækja Kringlunna einu sinni í viðbót, var ekkert sérstaklega hress með það. Þurfti að ná í pilsið sem ég var að láta laga. Rakti nefnilega faldinn á því niður þegar ég fór á klósettið um daginn, lítill endi hafi flækst í sokkabuxunum og áður en ég vissi af var hálfur faldurinn kominn niður og ég á veitingahúsi! Alltaf jafn heppin. Tékkaði líka á hvort skórnir sem ég labbað sólana af á innan við 2 vikum væru komnir úr límingu en var ekki svo heppin. Eins gott að þessi líming haldi annars kemur ekki kát Sirrý að kvarta við verslunarstjóra Centrum í Kringlunni.

Er búin að henda þessum fáu tuskum sem við Gunnar ætlum að taka með okkur austur ofan í tösku. Ef fötin hans Gunnars væru ekki svona stór hefðum við getað tekið helmingi minni tösku með okkur. Tekur Síbería við fólki í minnkun? Líka búin að fjárfesta í bílveikistöflum og verkjatöflum. Tók upp á því á gamalsaldri að verða bílveik en vona að það sé bara eitthvað tímabundið. Er líka búin að vera með endalausan hausverk í alltof marga daga svo ég þorði ekki annað en að kaupa verkjatöflur, er nenfilega viss um að þurfa ekkert að nota þær ef þær eru í veskinu! :) En er farin að kúra verð að vera hress fyrir keyrsluna á morgun, ótrúlega heppin að hafa ekki bílpróf og geta bara tekið rosalegar bílveikistöflur sem svæfa mann og sofið alla leiðina. Stundum er lífið ljúft í ömurleika sínum...

mánudagur, apríl 10, 2006

...þessi fyrsti virki dagur í páskafríinu mínu byrjar ekki vel. Vaknaði kóf sveitt einhverntímann í morgun, blautt rúm og allur pakkinn. Ætlaði í sturtu áðan og þá er ekkert heitt vatn svo ég varð að þvo mér með köldum þvottapoka og vonast til að komast í bað í kvöld. Þá var komið að því að seðja hungrið, cherriosið var komið í diskinn og þá er engin mjólk til. Átti að eiga amk eina óopnaða fernu. Hef sterkan grun um að Bogi hafi drukkið hana alla. Ekkert brauð til í húsinu svo ég er að drekka ananas trópi og borðaði páskaegg númer 1 sem tengdó gáfu mér í mogunmat! Getur þessi dagur orðið verri? Hann stefnir í það, er að fara að láta laga pils sem ég rakti óvart niður faldinn á því spottinn flægtist í sokkabuxunum mínum og er að fara að kvarta út af skóm sem ég keypti um daginn og sólinn er að detta af þeim. Ekki sátt við að borga næstum 6000 kall og nota skóna í örfá skipti og þeir bara að verða ónýtir. Svo eru sokkabuxurnar mínar götóttar á tánum og hárið á mér er ógeðslega úr sér vaxið og skítugt, bandið er alltaf að losna af brjóstahaldaranum mínum og það vantar ljósaperur í þvottahúsið, þurrkerherbergið og í útiljósið. Haldið ykkur frá mér í dag!! URG...

mánudagur, apríl 03, 2006

...við Gunnar ætteiddum hann Skrekk (Stinkey) frá Múmíndalnum fyrir ekki alls löngu. Hann er voðalega góður strákur og fær að hanga á símanum hennar mömmu sinnar. Þrátt fyrir að á hann vantaði annað eyrað elskum við hann afar mikið enda ekki á hverjum degi sem fólk finnur lifandi eftirmynd sína. Hann er með breytt nef eins og pabbi og stórar tennur eins og mamma og svo er hann dökkhærður eins og pabbi og með úfið hár sem stendur í allar áttir eins og báðir foreldrarnir. Skrekkur er samt allur loðinn og verður því ekki kalt þó hann sé á Íslandi og foreldrarnir þurfa ekki að hafa áhyggjur af fatainnkaupum. Skrekkur er þekktur fyrir að vera stríðnispúki og var oft til vandræða fyrir Múmínstrákinn og vini hans en er samt ofboðslega góður og með stórt hjarta.

En ég flyt sorgarfréttir, Skrekkur týndist í dag. Hann var að fara í strætó með mömmu, þau ætluðu í heimsókn til Gyðu frænku því pabbi var ekki heima. Skrekkur fékk að kúra í töskunni hennar mömmu og hafa það gott en honum hefur eitthvað leiðist því hann læddist upp úr töskunni og lét sig hverfa. Atvikið átti sér stað einhverstaðar á milli heimilisins og 10-11 við Hjarðarhaga. Mamma er þjökuð af samviskubiti yfir að hafa ekki tekið eftir að Skrekkur hafi laumast burt fyrr en hún var komin upp á Hlemm. Hans er sárt saknað og vonumst við til að hann rati aftur heim. Kannski getið þið hjálpað honum...