laugardagur, júlí 10, 2004

...hitinn síðustu daga hefur verið æðislegur. Fjörðurinn fagri virðist ekki ætla að svíkja mig í sumar of sólin glennir sig á hverjum degi. Svitinn dropar af enninu og nefið glansar en hverjum er ekki sama??? Ég sá nokkrar freknur gægjast fram á kinnunum á mér og er bara komin með smá lit. Það er búið að vera algjört logn og mér er svo heitt að ég er að pæla í hvort að það sé þess virði að fara í sturtu því ég á pottþétt eftir að svitna við að þurrka mér!!!

Dreif mig úr náttfötunum í gærkvöldi og skellti mér á Láruna og drakk fullt af öli. Svo sátum við nokkur úti við lón og spjölluðum, drukkum og sungum og höfðum það gott. Ég drattaðist heim klukkan sjö í morgunn og horfði á Erilbæ og Kolla káta meðan ég borðaði troðfullann disk af súkkulaðiís með súkkulaðisósu. Jömmers!!!

Annars er ég að springa úr seddu eftir þriggja klukkustunda heimsókn hjá ömmu og svo kvöldmat strax á eftir. Er að reyna að berjast við að melta þetta sem fyrst svo ég komi bjórnum niður á eftir en maginn er jafn latur og eigandinn...

...ætla engir Skövde-búar að kíkja á mig næstu helgi og tékka á Lunga og fara á ball með Í svörtum fötum???? Ég get reddað gistingu og góðu veðri...

fimmtudagur, júlí 08, 2004

...kannski kominn tími á smá öppdeit. Hef verið á frekar miklu flakki upp á síðkastið þannig að ef þið hafið átt leið á milli Seyðisfjarðar og Akureyrar þá er ekki ólíklegt að þið hafið séð mig á ferðinni með einhverjum af fjölmörgum einkabílstjórum mínum. Kom aftur í fjörðinn fagra í gær eftir rúma viku í góðu yfirlæti á Akureyri, mér veitt ekki af fríinu því villta djammið á Seyðó tekur aldeilis á, enda er ég ekki í góðu formi eftir veruna í Svíþjóð þar sem allt lokar klukkan 02:00. En núna er stelpan bara mætt aftur og kominn djamm hugur í hana. Eins gott að það verði stuð um helgina og svo er það bara Lunga-ball laugardaginn 17. júlí, mmmm grill, bjór og gott veður, það gerist ekki betra.

Hvað á annars að gera um Versló??? Mæta ekki allir Skövde-búar á Akureyri og kíkja í glas með mér???

Bjakk þarf að fara að læra en tími því varla því það er svo got veður...ætli mamma verði nokkuð ósátt ef ég draslast með tölvuna og allt heila gillið út á pall...

miðvikudagur, júní 02, 2004

...þá er ég mætt á klakann hress og kát og get varla beðið eftir djamminu um helgina.

Ferðalagið var...tja...ekkert svo slæmt fyrir utan að lestinni seinkaði um hátt í klukkutíma allt í allt vegna þess að hún átti að tengjast annari lest í Helsingborg en sú lest lenti "óvart" á vitlausu spori og þurfti að bakka og vesenast eitthvað til að komast til okkar. Svo var aftur töf fyrir utan Lund því þá þurftum við að leyfa annari lest að fara fram úr okkur og svo var okkur tilkynnt að við þyrftum að skipta um lest í Malmö því sú sem við vorum í var orðin það sein að hún var tekin úr umferð!!! En við komumst amk á endanum alla leið á Kastrup og komumst beint í tékk-inn hjá hrikalega dónalegu dönsku kellingunni sem vildi fá að sjá vegabréfin okkar af einhverjum óskiljanlegum ástæðum!!!

Næst var haldið á Pizza Hut til aðk aupða pizzu en það var hætt við það á nóinu vegna þess að þar voru ekki til neinar pizzur og afgreiðslumaðurinn var svo dónalegur að við vildum ekki gera það honum til geðs að bíða. Ekta dönsk risa-pylsa varð því fyrir valinu og var henni skolað niður með sænsku eðal bubbluvatni. Flugið var svo ágætt en var alltof lengi að líða og voru fluffurnar greinilega orðnar frekar þreyttar og pirraðar en það bitnaði ekkert á mér því að mér vantaði ekkert fráþeim! :)

Svo var bara brunað á Skagann um leið og dekkinn snertru Keflavíkurflugvöll því ekki höfðum við áhuga á að stoppa lengi á nesinu sem Guð gleymdi, alltaf rigning og þoka þar (ólíkt sumum stöðum sem ég þekki...*hóst hóst*. Á Skaganum var þambað kaffi, þveginn af sér útlenski skíturinn og reynt að sofna sem gekk sem betur fer á endanum. Fyrir hádegi í morgunn var svo brunað af stað aftur til Rvk og kíkt í kaffi til Klemensar á meðan verið var að bíða eftir að mæta þyrfti í flugið sem bar okkur til Akureyrar. Hérna hefur svo verið stjanað við okkur á alla enda og kanta sem er ágætt því auðvitað verða uppáhaldsbörnin aðeins að hvíla sig áður en ferðaleginu verður haldið áfram til Seyðisfjarðar. Ég bíst við að þar verði stjanað meira við okkur og reynt verði að troða meiri mat í okkur en við höfum nokkurntímann gott af. Er strax farin að finna hvernig sumarið á eftir að vera, kaka í kaffinu og læri í kvöldmatinn í dag og svo hryggur og eitthvað meira gúmmelaði annað kvöld.

Læt þetta gott heita í bili, verð að fara að hvíla mig hef nefnilega verið dauðþreytt síðan ég vaknaði. Ég efast ekki um að þeir sem þekkja mig eru alveg standandi hissa á þessari yfirlýsingu minni og hugsa "Sirrý...þreytt?!?!?! Nei aldrei, hún er alltaf á útopnu eins og hún sé með rakettu í rassgatinu..."

mánudagur, maí 31, 2004

...Skövde - Göteborg - Köbenhavn - Keflavík - Akranes - Reykjavík - Akureyri - og síðast en alls ekki síst fjörðurinn fagri aka Seyðisfjörður. Þetta er ferðalega næstu daga, leggjum í hann klukkan 12:12 á morgunn og eigum að vera komin á ættaróðalið á Seyðisfirði stundvíslega klukkan 19:00 á fimmtudaginn til að borða hrygg og brúnaðarkartöflur ala mamma!! :D Það er allt að verða komið ofan í töskur og ekkert stress nema þá kannski að vakna til að fara í bæinn í fyrramálið til að heimilistryggja, fara í apótekið, bankann og svo í búðir!! :P Var nefnilega að vinna í gær við að þjóna í fermingarveislu og fékk heilar 500 sek fyrir og er að hugsa um að skella mér á skó sem mér finnast æði en tímdi ekki að kaupa fyrir "venjulegu" peningana mína.

Ætli það sé ekki best að halda áfram að reyna að koma öllu draslinu mínu fyrir, heyrumst næst á Íslandinu góða...

miðvikudagur, maí 19, 2004

...ég veit ekki hvernig ég fer að þessu!!! Ég sný sólarhringnum fram og til baka eins og hann væri skopparakringla og ég er orðin dauðþreytt á þessu en ég ræð ekki við þetta. Um daginn gat ég ekki sofið heila nótt vegna magaverkja, sofnaði undir morgunn og ákvað að reyna að sofa eins lengi og ég gæti til að snúa sólarhringnums trax aftur á réttan kjöl. Ég náði að sofa til klukkan 21:30 og ákvað að halda me´r vakandi alla nóttina og allan næsta dag. Það tókst alveg súper vel og ég fór ekki að sofa fyrr en klukkan 01:00 næstu nótt. Ætlaði svo að vakna á skykkanlegum tíma en tókst ekki betur til en svo að ég vaknaði ekki fyrr en um kvöldmat!! :S Er svo ósofin núna eftir annansama nótt við að skoða imdb.com og horfa á sjónvarpið þar sem Beverly Hills 90210 og Buffy the Vampireslayer voru efst á lista.

Þá er það stóra spurningin á ég að leggja mig eða halda mér vakandi áfram??? Hallast að því að leggja mig því ég er alveg hrikalega þreytt en það væri auðvitað líka magnað að kúra hjá Gumma í nótt. Verst að ég rotast þá örugglega um klukkan 19:00 en hann vakir til svona klukkan 02:00

Úff erfið ákvörðun framundan svo það er best að kíkja á hrikalega leiðinlega sápuóperu á TV3, sá seinast þátt fyrir nokkrum mánuðum og ég er samt nokkurnveginn inni í því hvað er að gerast og þetta er vinsælt sjónvarpsefni....

mánudagur, maí 17, 2004

...jæja skellti inn myndum frá afmælinu hans Grétar sem var haldið þann 8. maí. Þetta eru 80 og eitthvað myndir en samt eru þetta ekki allar myndirnar sem Gummi myndaóði tók þetta kvöld!! Myndirnar frá afmælinu mínu ættu að koma fljótlega, þarf bara að stela nokkrum myndum fyrst svo þetta sýni nú sem mest af gjöfunum og kökunum og þessu öllu. :)

Njótið vel...
...ákvað að breyta lúkkinu á blogginu mínu fyrst ég fann loksins eitthvað sem mér líkar. Endilega segið hvað ykkur finnst, gestabókin er þarna einhverstaðar og svo ætla ég að setja inn commentakerfi við tækifæri! :)

Ps.. fara alveg að koma myndir...
...hmmm kannski kominn tími á smá öppdeit. Ég hélt upp á afmælið mitt þann 30. apríl síðastliðinn, fyrst var grillað úti, spjallað og spilað kubb. Þegar fór að kólna var drifið sig upp til okkar og haldið þrusu partý. Krakkarnir hérna slógu saman í rosa gjöf handa mér, ég fékk 2 peysur, spariskó, bikiní, tösku, veski og flippflopps og svo kom Dana með 3 afmælisskúffukökur með nammi ofan á. Þetta gat bara ekki klikkað. Gummi gaf mér tölvuleik í GameBoy Advance tölvuna mína og svo fórum við á þriðjudeginum á eftir og keyptum hlaupaskó handa mér (ég var búin að panta að fá þá í afmælisgjöf en Gummi vildi líka kaupa eitthvað sem ég vissi ekki hvað væri:D), Hildur Jóna kom mér líka á óvart með því að senda mér bókina Höfundur Íslands efitr Hallgrím Helgason og svo fékk ég líka peninga og er búin að kaupa mér FULLT!!!! Svo var auðvitað farið á Kåren en þar var mega biðröð því að það var valborgarmessa og allir vildu djamma. Sumir íslendingarnir ákváðu að skella sér frekar í bæinn því að við munduma ldrei komast inn en um leið og þau fóru gekk þetta svona líka hratt fyrir sig að við vorum komin inn á nó tæm. Þar tók við meiri drykkja og hælsæri svo ég sat bara og kjaftaði alla í kaf! :) Afhverju lærir maður aldrei af reyndslunni ---> nýjir skór gefa manni hælsæri þessvegna á að muna eftir að setja plástur en nei það gerist aldrei!! Þegar við komum heim fengum við okkur í gogginn og sofnuðum svo yfir Futurama og sváfum 2 í sófanum alla nóttina. Ég vakanði oft til aðkoma mér betur fyrir en datt ekki í hug að það gæti hugsanlega eftilvill kannski farið betur um okkur í rúminu heldur í mjóum sófa!! :S

Takk öll saman fyrir að gera þetta að frábærum afmælisdegi!! :D

Helgina eftir hélt Grétar svo upp á afmælið sitt, jú jú íslendingar eignast víst mikið af börnum á þessum tíma enda verslunarmannahelgin ca 9 mánuðum á undan! ;) Það var mega geim hjá honum og flestir vel í glasi. Við íslendingarnir gáfum honum usb-minni og inneing í hlaupaskó. Við fengum aftur köku þessa helgi og hún var það góð að ég kom aftur eftir að Gummi skrölti heim til okkar Möddu þar sem við vorum að húsmæðrast við að þvo þvott blindfullar og skemmtilegar en það er svona að vera að sulla sig, að fá mér meira. Þá var ég svo heppin að Elís kom færandi hendi og gaf mér afganginn af páskaegginu sínu og mér sem fannst ég vera sparsöm að byrja ekki á mínu fyrr en rétt fyrir miðnætti á páskadag!! Sum okkar vildum djamma meira og fórum við Guðni og Grétar heim með Gunna að drekka meira, spila og fara í gufubað. Ég rölti svo heim klukkan 7 og dreif mig í sturtu! :)

Þessi helgi ver sem betur fer róleg. Við gamla fólkið ákáðum að vera bara tvö heima að horfa á júróvísíon og borða búðarpizzur og nammi og svo bara snemma í rúmið. Við þurftum reyndar að loka báðum gluggunum okkar því að svíarnir hérna í kring voru í voðalega miklu stuði eftir úrslitin í júró og spiluðu lagið á ensku og sænsku til skiptis og alveg í botni líka!! :S Frétti líka að það hefði verið voða fjör á Kåren, brotnar rúður (er það fjör?!?!) og margir eitthvað hálf slappir í dag. Jæja ég gat amk ekki sofnað fyrr en klukkan 8 í morgunn því ég var með svo illt þar sem botnalanginn (sami staður og ég þurfti að liggja á spítala útaf í desember) er en það er hætt núna. Þannig að ég kúrði mig í allan dag og fram á kvöld og nú er bara að halda sér vakandi þangað til einhverntímann eftir hádegi á morgunn. Þarf nefnilega að skella mér til tannsa með Gumma (ég á sko að borga:S) og svo ætla ég að gerast húsmóðir aftur og elda eitthvað handa karlinum mínum. Hmmmm sjáum til hvernig það gengur hehehe.
jæja öppdeitið búið í bili, stei tjúnd...

fimmtudagur, apríl 29, 2004

...jæja smá blogg eftir vorfríið. Var að setja inn myndir frá árshátíðinni okkar sem haldinn var laugardaginn 24. apríl. Það var svakalega skemmtilegt og vel heppnað. Allir mættu í aðeins betri fötum og svo var borðaður dýrindismatur ala Drengur og Finnur. Skemmtiatriðin voru svo í boði Stebba og fengu allir smá skot á sig þar. Drengur hélt svo ræðu um okkur og lífið síðasta vetur og þar voru auðvitað fleiri skot. Það var auðvitað mikið helgið og talað og svo var drukkið smá. Mér þótti bollan mjög góð og drakk örfá glös af henni. Var meira að segja svo dönnuð að vera bara með tvö glös!! :S Við fórum ekkert út á lífið heldur vorum bara þarna að dansa og spjalla og guð má vita hvað annað. Við Gummi komum amk seint heim og ég heimtaði að við mundum sofa í sófanum þannig að við tók heilmikið brölt við að færa til hluti og draga út svefnsófann. Of mikið bras að rölta þessa 20 cm sem eru á milli rúmsins og sófans. Hefðum meira að segja getað verið frekar villt og stigið upp í sófann og hennt okkur yfir í rúmið. En nei konan vildi horfa á video og vildi líka hafa karlinn hjá sér og aldrei þessu vant fékk hún sínu framgengt!!! :)

fimmtudagur, mars 18, 2004

...var að henda inn þessum fáu myndum sem við tókum í afmælinu hennar Möddu síðastliðinn laugardag...enjoy...

mánudagur, mars 15, 2004

...smá leiðrétting, litli stubburinn þeirra Ástu og Símons fæddist víst 8. mars en ekki þann 9. Maður má ruglast pínu þegar barnið fæðist rétt rúmun hálftíma fyrir miðnætti! :) Annars var ég að skoða myndir af honum og hann er svo sætur að mig langar næstum því í barn en það verður víst að bíða eitthvað aðeins lengur...

Annars var afmæli hjá Möddu á laugardaginn. Fyrst var stelpu-partý-saumó og síðan máttu strákarnir koma. Það var boðið upp á þvílíkt góðar veitingar, beikonrúllur, brauðstangir, nachos og niðurskorðið grænmeti og dífur mmmm mmmm mmmm mmmm og ekki má gleyma hvít- og rauðvíninu! :) Við slóum öll saman í skó handa Möddu og hún varð mjög ánægð með þá, amk ef ég miða við viðbrögðin þegar hún opnaði pakkann. Ef hún varð ekki ánægð er hún MJÖG góð leikkona. Svo var bara skroppið aðeins á Kåren en ég fékk svo mikinn hausverk að ég dró Gumma og Dönu með mér á McDonalds. Þar jókst bara hausverkurinn þannig að ég fór heim og kúrði mig í sófanum á meðan Gummi blaðraði í símann um miðja nótt!

Jæja verð að drífa mig, á að hitta Gumma á bókasafninu rétt fyrir kl 15 og ég sem á eftir að klára að taka mig til!!! Hejdå...

miðvikudagur, mars 10, 2004

...gleðifréttir í dag, Ásta og Símon áttu strák í gær, held að hann hafi verið 13 merkur og 51 cm. Hehehe samt eins gott að foreldrar mínir halda ekkert misjafn um hvort annað. Pabbi fékk sms í gær og þar sem hann kann ekki mikið á gemsann sinn lét hann mömmu opna þetta fyrir sig. Skilaboðin voru "það er kominn strákur, 13 merkur og 51 cm" (minnir að þetta hafa verið skilaboðin). Svo var ekkert meira og þau vissu ekki frá hverjum þetta var. En þar sem þetta er gamla númeri mitt og þau vissu á Ásta og Símon áttu von á erfingja þá var hringt í mig og mér tilkynnt þetta! :)

Annars kíkti ég tvisvar sinnum á kaffihús í gær. Fyrst klukkan 13 og hitti Jónu, Lovísu og Hönnu þar og svo fórum við aftur á kaffishús eftir kvöldmat. Fékk reyndar versta kaffi sem ég hef á æfi minn smakkað á Pims, hefði átt að kvarta og skil ekki afhverju ég gerð það ekki. Í staðinn svolgraði ég þessu í mig og fékk mér svo sítrónu íste og kladdkaka í eftirrétt til að ná ógeðiskaffibragðinu úr kjaftinum á mér!! Jakkidíjakk...

mánudagur, mars 08, 2004

...oj ég er bara búin að borða óhollt síðustu tvo daga. Í dag fór Gummi og keypti meira af flensumeðali handa mér. Það er ekkert sem lagar vanlíðan betur en jógúrthúðaður ananas, plopp með lakísbragði, daim og pommes pinnar ásamt ca líter af Fanta!! :S Get þó huggað mig við að þetta var ekki borðað allt í einu. Hann keypti líka sterka mola og Billy's pizzur handa okkur þannig að núna hlýtur bara flensan að fara að gefast upp! :)

Annars kom í því í verk í dag að kaupa mér álfabikarinn. Hef ætlað að gera það í rúmt ár svo það var ekki seinna vænna. Samkvæmt gríðarlegri reikniskunnáttu minni sem samanstendur af Casio fx-570s vasareikninum mínum og vísifingri hægri handar komst ég að því að hver túr næstu 10 árin mun kosta mig tæplega 42 kr íslenskar. Það finnst mér langt í frá að vera dýrt enda óþarfi að borga stórfé fyrir að missa blóð!!

sunnudagur, mars 07, 2004

...hef loksins frá einhverju að segja. Ég er orðin veik og held ég sé að fara að deyja þvílík er vanlíðanin. Þetta byrjaði aðfara nótt laugardags þegar ég var að fara að sofa. Ég hélt fyrst að þetta væu viðbrögð líkamans við of mikilli koffeinintöku minni fyrr um kvöldið en því miður var það ekki tilfellið! Við Binna og Ingibjörg ætluðum á kaffihús á föstudagskvöldið. Þær komu og vöktu mig af misheppnaða bjútíblundinum, ég lagaði lubbann og svo var haldið í bæinn. Það varð stutt stopp í bænum því það þarf víst nafnskirteini til að kaupa sér kaffi og tveir þriðju af hópnum voru ekki með plastið með sér. Þá var komið við í Q8 og keypt bubbluvatn og kex og svo fórum við til Binnu og hún lagaði þetta fína latte handa okkur og svo var kjaftað fram á rauða nótt eða þar til Villi álpaðist heim og eiðilagði stemmninguna sem hafði skapast á milli okkar stelpnanna við að tala um túr, blöðrur á eggjastokkum, kynlíf og sambönd. Vá hvað strákarnir hefðu viljað liggja á hleri eða hvað...??

Annars eru Jóna og Lovísa komnar í heimsókn til Skövde og maður sér þeim vonandi bregða fyrir. Hitti þær amk pottþétt í partý-saumó hjá Möddu næsta laugardag. Frétti að þær hefðu verið í partý á Peach Pit (man einhver eftir þessu nafni úr Beverly Hills??) og vona ég að þær hafi ekki verið hluti af liðinu sem kjaftaði sem hæst hérna fyrir neðan gluggann minn þegar ég var að reyna að einbeyta mér að vanlíðan minn! :)

Farin aftur að kúra mig í sófanum og horfa á Disney stöðina sem er opin núna um helgina vegna árs afmæli hennar. Ekki amarlegt svona á meðan á flensunni stendur! :) Það er að byrja teiknimynd um Jungle Babys, ekki leiðinlegt það, og svo verður víst afmæliveisla í dag hjá þeim með röð af klassískum Disney myndum. Mér amk ekki eftir að leiðast, þá er bara að bíða eftir að Gummi vakni svo ég geti fengið meira flensumeðal aka nammi og annar ófögnuður!

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

...er að setja inn myndir frá afmælinu hans Ella í janúar, frá partýinu hjá Hönnu og Óla í febrúar og frá afmælinu hennar Binnu um síðustu helgi! :) Bara alveg heil þrjú ný albúm, dugleg ekki satt?? :D

Þetta eru ekki allar myndirnar sem voru teknar því sumar þeirra bera þess vott að ljósmyndarinn hafi verið búinn að hella í sig aðeins of mörgum bjórum! :) Hehehe
...þetta var svaka afmælispartý hjá Binnu og ekkert hægt að kvarta yfir neinu þar, skemmtilegt fólk og fullt af góðum veitingum. Haldiði ekki að konan hafi ekki bara hent í kanelsnúða með súkkulaðikremi, skúffuköku, eplaköku og einhverja geðveitk góða krydd/ananasköku mmm mmm mmm mmmmmmm. Við Madda vorum samt ekki eins heppnar á leiðinni á Kåren í hálkunni á hælaháum skóm að labba niður brekkur!! Hvað haldiði að hafi gerst??? Jú jú við duttum! :( En ég held því statt og stöðugt fram að Madda hafi dottið og dregið mig með sér en þeir sem voru komnir niður og fylgdust með sögðu að þetta hafi verið nokkuð jafn hjá okkur en iss þau voru öll full og vita ekkert...!!! Ég uppskar rifnar sokkabuxur, rispur og mar undir bæði hnéin og bólgna og marna mjöðm eftir þessa byltu okkar, reyndar er mér líka illt í eyranu eftir þetta kvöld en hausinn skall ekki í jörðina svo það er eitthvað annað. Örugglega einvher bólutussa sem er að gera mér lífið leitt, samt skárra að hafa hana í eyranu en í andlitinu svo við reynum að líta aðeins á björtuhliðarnar! :D Hef ekkert heyrt í Möddu síðan við löbbuðum heim af Modegrillet þar sem hún lét svindla á sér og borgaði 40 sek meira en við fyrir matinn þeirra Drengs en keypti samt minna!! Á leiðinni heim kvartaði hún um ofþornun eftir að hafa smakkað eina frösnku hjá mér svo það væri gaman að vita hvort hún sé búin að liggja undir vatnsbununni síðan á sunnudaginn eða hvort að hún sé stór slösuð eftir fallið mikla. Annars gerðum við og stór mikil plön um að fara til Finnlands í sumar til að vinna og ákváðum að skilja strákana bara eftir ef þeir ætluðu að vera með einhver leiðindi, alltaf svo gaman að plana á fylleríum því þá verður maður alltaf svo bjartsýnn og allt svo auðvelt hehehehe...

föstudagur, febrúar 20, 2004

...það eru bara alltaf helgar hérna í Svíþjóðinni. Ekki leiðinlegt það! :) Hef svo sem ekki mikið að segja, hef bara verið dugleg að vakna snemma og fara snemma að sofa undanfarið. Reynt að halda mér vakandi yfir daginn og það hefur rétt svi tekist og ekki mikið meira en það. Hef sitið í sófanum með hálf lokuð augun og horft á svæfandi sápuóperur og gamanþætti eins og ég fái borgað fyrir það og versta er að þessir þættir eru flestir svo leiðinlegir að ég man ekki einu sinni hvað gerðist í þeim! :S

Annars er afmæli á morgun og stuð, stuð, stuð. Það verður voðalega gaman að setja upp besta andlitið og fara í glansgallann og sjá svo til hvort að það verði djammað eða farið snemma að sofa! Annars hafði ég hugsað mér að mæta í ræktina á morgun svona til að vera hæfilega þreytt í afmælinu, helst líka með harðsperrur, hlaupasting og hælsæri!! Veit ekki hvort að Gummi kemur með mér í ræktina því að hann er að fara að skjóta með bekkjarbróður sínum sem er byssumeiníak, búin að vera í hernum, er í heimavarnaliðinu og búin að vinna fjöldan allan af verðlaunum fyrir skotfimi. Mér er nú alls ekki vel við þetta en mér finnst það nú skárra að hann fari með þessum strák sem kann algjörlega að fara með skotvopn heldur en einhverjum vitleysingum sem þykjast kunna allt og geta allt.

Æ er hætt og farin að bursta, það á að fara að snemma að sofa í kvöld, tja svona miðað við að það er föstudagur...

laugardagur, febrúar 14, 2004

...þá er kominn laugardagur einu sinni enn og ekki kvarta ég yfir því! :) Það er reyndar ekkert á planinu í dag nema fara í ræktina og kaupa nammi - vei vei vei!!! Það hefur ekkert gerst í mínu lífi síðan síðast því að sólarhringurinn er búinn að snúa alveg kolöfugt hjá mér, hef verið að vakan seint á kvöldin og sofanð aftur um það leiti sem Gummi fer í skólann. Gummi sagði að þetta væri eins og að eiga konu sem vinnur á næturvöktum! :) En mér tókst að halda mér vakandi frá klukkan 23 á fimmtudagskvöldið og þar til klukkan 19 í gærkvöldi og núna snýr sólarhringurinn rétt aftur og best að reyna að halda honum þannig. Mér tekst alltaf að halda honum réttum í smá stund og svo allt í einu búbbs og hann snýr vitlaust aftur, skil ekki hvernig ég fer að þessu.

Jæja allbranið bíður eftir að vera étið...

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

...þá er ég búin að finna nýjan stað fyrir myndnirnar okkar og búin að gera eitt albúm með nokkrum myndum af jólunum og áramótunum. Þið klikkið bara á myndirnar okkar hérrna til vinstri!! :) Vona að ég verði dugleg að setja inn fleiri myndir...
...fórum í partý á laugardaginn til Hönnu og Óla. Þar var mikið stuð og enduðu flestir á Kåren blindfullir og vitlausir. Gummi ætlaði nú ekkert á djammið en ég var alveg að deyja mig langaði svo. Ég var svo búin að ákveða að ég ætlaði að drekka en Gummi ætlaði bara að mæta smá og fara svo snemma heim. Það plan breyttist aldeilis þegar ég var að blanda mér í fyrsta TiaMaria glasið mitt því þá langaði stráksa að fá sér líka. Við redduðum okkur áfengi í einum grænum og djömmuð fram á nótt og enduðum að sjálfsögðu kvöldið á hinum margrómaða veitingastað McDonalds! Þar vann leiðinda belja sem vildi ekki selja mér annan McFlurry og ég sem var með peninginn tilbúinn og allt!!! Hún tilkynnti mér að það væri lokað klukkan 3 og þá ættu allir að drulla sér út og það væri ástæðan fyrir að við hefðum fengið matinn okkar í poka en ekki á bakka. Ég var nú ekki ánægð með þetta svar sérstkalega þar sem við fengum okkar mat á bakka. Ok ég skil að það sé lokað klukkan 3 og ég skil að það sé ekki hægt að leyfa fólki að komast upp með allt en það er líka alveg ok að leyfa fólki að klára að kyngja áður en því er hent út. Okkur var svo tilkynnt að ef við vildum meira að borða gætum við komið klukkan 7 morguninn eftir - einmitt...