...já já komin heim frá Grikklandi eftir ánægjulegar en jafnframt erfiðar vikur þar. Erfiðar að því leiti að ég skildi ekkert og enginn skildi mig og svo auðvitað hitinn sem þrátt fyrir að vera yndislegur dregur oft fram erfitt skap. Þetta með tungumálið var allt í lagi þegar við vorum fá því þá hafði Dawid tíma til að þýða fyrir mig og ég gat tekið þátt í samræðunum en um leið og það voru fleiri en 4 þá varð ég voðalega mikið útundan því það var enginn tími til að vera að þýða allt. Þá dró ég mig stundum í hlé og fór að lesa en þá var oft eins og fólk skildi ekki að þetta væri erfitt fyrir mig og reyndi að draga mig fram aftur. Æj þið skiljið, fólk að reyna að vera gott en stundum þar maður bara smá frí frá öllu og kúra sig með bók á móðurmálinu!! :) En eins og ég hef sagt áður var fjölskyldan hans alveg rosalega góð við mig og ég skemmti mér vel með þeim td kvöldið/nóttina sem við vorum hjá Tomek bróður hans að grilla og drekka áður en hann þurfti að fara í annan bæ að vinna í nokkra daga. Ég á langa myndasyrpu frá því kvöldi og Dawid finnst ekki allt vera birtingahæft! Hahahaha Þarf að drífa myndir inn á netið fljótlega, ekki allar því við tókum næstum 500 myndir á nýju flottu rauðu myndavélina mína.
Núna er lífið allt að komast í fastar skorður hjá mér. Er að flytja smá saman inn til Dawids og var einmitt að koma með slatta af dóti í dag sem var í bílskúrnum hjá ömmu. Eitthvað eftir þar ennþá samt en það kemur ekki hingað fyrr en við kaupum hillur því hér er ekkert fyrir bækur eða smáhluti og ég nenni ekki að hafa þetta á gólfinu. Svo er bara að koma dótinu sem er hjá mömmu og pabba hingað yfir og þá er ég alveg flutt. Ég hef aldrei búið annarsstaðar á Seyðisfirði en Fjarðarbakka 3 svo þetta er pínu skrítið en ég er amk ennþá í sömu götu!
Svo er ég byrjuð að vinna á sjúkrahúsinu. Er móttökuritari á heilsugæslunni í 50% starfi og þetta byrjar bara mjög vel. Er reyndar eftir hádegi núna en ekki á morgnanna eins og ég er ráðin í því ég þarf að byrja á að læra á kerfið og taka á móti sjúklingum og það er mest eftir hádegi. Á morgun þarf ég að standa nokkurnvegin á eigin fótum í vinnunni því Birna verður í öðru en hún verður nálægt ef ég lendi í miklum vandræðum. Bara að treysta á sjálfa sig og þá verður allt í orden...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli