laugardagur, janúar 21, 2006

...dagurinn í dag hefur einkennst af svokölluðu "white-trash" heilkenni sem virðist hafa hellst yfir mig í nótt. Byrjaði á að ég svaf yfir mig á fund sem ég átti í morgun. Rétt drallaðist á fætur, tróð mér í götóttar bómullarsokkabuxur, íþróttabuxur sem meiga muna fífil sinn fegri hvað varðar útlitið, girti þeim ofan í rauð stígvél og skellti húfu á úldinn hausinn sem eitthvað skreytti sem eitt sinn var kallað hár en hefur í dag líkst meira ull. Staulaðist svo út, óð snjóskafla og var hálf dauð í flughálum brekkum, lafmóð og bölvandi yfir að þurfa að vera mætt svona snemma eða klukkan 14. Hélt stuttu seinna aftur heim á leið, álíka mygluð og áður en örlítið geðfúlli, með smástoppi í Melabúðinni þar sem ég fékk valkvíðakast af verstu gerð og var í hálftíma að ákveða að kaupa mér cappucino, 70% súkkulaði, pestó og hrökkbrauð. Er ekki frá því að gamla fólkið sem var að kaupa þorramat í stórum stíl, öskrandi eftir mysu og ósöðinni blóðmör hafi verið orðið jafn hrætt við mig og ég við það eftir að ég labbaði í 13 skipti hring um búðina til að skila vörum og velja aðrar, talandi við sjálfa mig og rekandi mig utan í allt og alla. Þegar fúla konan komst loksins heim á leið beið hennar þó smá gleði, einn af sambýlingunum var að gera sér góðan dag í mat og drykk og splæsti smá rauðvíni á konuna. Sæl í bragði tók ég við veigunum sem voru bornr fram í mjólkurglasi og skreyttar með smá kork sökum skorts á tappatogurum. Þvílík munaðarvara hefur aldrei sést á Neshaga 7 svo gamall og boginn eldhúshnífur er yfirleitt notaður til að redda því sem hægt er. Eftir 2 glös af drykk fágaðafólkins var ég orðin ansi glöð en þá kom karlinn minn heim sem hefði verið alveg ágætt ef hann hefði ekki ákveðið að laga rúmið okkar. Það var bilað áður en er bilaðra núna þar sem hann ætlaði að rétta einn rúmfótin en braut hann óvart af. Ok ekkert svo hræðilegt, hægt að setja bækur undir og allt það hugsið þið kannski en nei það er ekki hægt. Afhverju? Því allar bækurnar eru undir öðru horni á rúminu!! Jájá í nótt þarf ég að sofa í rúmi sem vantar á báða "til fóta" lappirnar og bækur og parket eiga ekki vel saman, bækurnar vilja renna ef maður byltir sér aðeins of harkalega!

Hér með er sem sagt án gríns óskað eftir styrkjum til rúmakaupa, góður tíma núna þar sem það eru útsölur. Látið ekki ykkar eftir liggja, sendið okkur aur svo ég verði ekki á endanum alvöru "white-trash" kona og þurfi að flytja bæklaða rúmið mitt í hjólahýsi á Reykjarnesi! Ef enginn á pening aflögu fyrir rúmi eru rauðvínsglös og tappatogari vel þegin svo ég þurfi ekki að drekka meiri kork úr mjólkurglösum meðan ég sit í hjólhýsinu og bíð eftir að rúmið hrynji alveg...

4 ummæli:

gummo sagði...

Búin að leggja inn andvirði strætómiða inn á þig...safnast þegar saman kemur!

Sirrý Jóns sagði...

...heyj ekkert plat, kíkti á netbankann og engar 220 kr frá þér... ;)

Nafnlaus sagði...

Við hjónakornin erum nýbúin að kaupa splunkunýtt queen size rúm og dýnu handa okkur sjálfum:) Myndi alveg vilja hjálpa til, en hef ekki trú á að það sé gott fyrir sálina að kaupa of mörg rúm á svo stuttu tímabili. Semsagt: sorrý!

Sirrý Jóns sagði...

...*grát grát* langar svohohohoho í gott rúm. Hef einmitt augastað á einu fallegu queen size rúmi, nú er bara að reyna að leggja fyrir *flaut*...