...komin í Neshagann eftir yndislega páska á Seyðisfirði. Þar var afslöppnunin svo mikið að ég vafraði hálfsofnandi um húsið og hafði ekki einu sinni rænu á að láta mér leiðast enda aldrei leiðinlegt heima! Skruppum í fína fermingarveislu, á þrælmagnað ball og á pöbbinn og auðvitað í kaffiboð til ömmu og nokkrar heimsóknir. Gleymdi reyndar að mæta á páskabingóið, mig sem langaði svo að fara -ath. ekki kaldhæðni! Afslöppnunin hélt áfram í bílnum á leiðinni suður þar sem ég svaf mest allan tímann, vaknaði aðeins á Klaustri til að borða samloku og rankaði við mig í Vík til að ath hvar við værum stödd. Það var sem sagt ekki eins mikið stuð í bílnum og á leiðinni austur þar sem við Klemens og Sigga lékum á alls oddi, lékum perra, lítil börn, sungum og lásum á skilti, breiddum yfir haus, lékum dansk og þýskt fólk og ég veit ekki hvað og hvað. Gleðin var svo sannarlega við völd og ferðin fljót að líða enda ekki nema 7 og hálfur tími frá Selfossi til Seyðisfjarðar.
Í dag var páskaletin alveg að drepa mig og það var svo erfitt að koma sér af stað í skólann. Drattaðist samt á fætur og mætti og geyspaði allan tímann eins og hann lagði sig fyrir utan stutta stund þegar ég fékk mikil breytingarskeiðs svitakóf. Alltaf gaman að því. Var með erfiðleikum að reyna að koma íþróttadótinu ofaní töskuna þegar ræktarfélaginn minn afboðaði mér til mikillar gleði og þar sem ég hef engan sjálfsaga í dag ætla ég að fara að kúra mig með páskaeggjaafganga og horfa á dvd...
1 ummæli:
Maður veit að maður er kominn út á land þegar mann dauðlangar á páskabingó! Þetta var einn stærsti viðburður ársins í Búðardal ef ég man rétt:)
Skrifa ummæli