miðvikudagur, desember 17, 2008

...þá er konan búin að koma upp öllu jólaskrautinu og ég verð að segja að tréið er ákaflega vel heppnað í ár! :) Skellti mér í þetta í fyrradag og var enga stund að þessu. Þá á ég bara eftir að klára síðustu jólagjöfina og skrifa kortin, kaupi mér kannski malt og appelsín og hendist í kortin í dag eða á morgun. Jafnast ekkert á við jólatónlist og jólablöndu til að komast í gírinn.

Um helgina spiluð við Gulla og Arna Trivial meðan Dawid og Matti höfðu hátt í Fifa '09. Mér gekk vægast sagt mjög illa, tókst að misskilja mjög létta spurningu og svara vitlaust þegar það var 50/50. En þetta var bara spil og mér gengur bara betur næst! :) Er bara heppin í ástum í staðinn og það er miklu betra en sú skammvinna ánægja að vinna einhver leik. Skruppum svo á Láruna og ég fékk mér 1 bjór. Þar var allt að fyllast af fólki sem hafði verið á jólahlaðborðum út um allan bæ og átti greinilega eftir að verða mikið stuð en við komum okkur bara heim eftir þennan bjór. Við Dawid drukkum reyndar saman 1/2 hvítvínsflösku og spjölluðum fram á morgun með rómantíska tónlist á fóninum. Elska svona stundir, þær gefa mér svo mikið! :)

Við erum ákaflega sein í að senda gjafirnar sem eiga að fara til Grikklands. Dawid er ekki einu sinni búinn að kaupa allt!! Ég er alltaf að reyna að reka á eftir honum en hann situr sem fastast. Foreldrar hans fá greinilega bara nýársgjafir í ár. Hann var eitthvað að reyna að afsaka sig með því að mamma hans vildi ekki gjöf en auðvitað segir hún það og verður svo ánægðust af öllum þegar hún opnar gjöfina frá litla uppáhaldsörverpinu sínu. Mömmu eru allar eins þegar kemur að svona málum, alltaf tilbúnar að fórna sér svo aumingja börnin þurfi ekki að eyða peningunum sínum í þær en börnin vilja bara gefa þeim eitthvað og sjá ekkert eftir krónunum.

Á laugardaginn erum við og mamma að fara á jólahlaðborð í Skaftfelli. Pabbi kemst ekki með því Gullver kemur svo seint inn í ár. Verður skrítið að hafa hann ekki með en við reynum að skemmta okkur samt. Ég er viss um að Nikolas töfrar fram gómsætan dansinsperaðan mat handa okkur og við stöndum örugglega alveg á öndinni þegar við komum okkur loksins heim...

Engin ummæli: