mánudagur, apríl 28, 2003

...svona örstutt fyrir svefninn. Ég vill þakka Hönnu og Röggu frænku fyrir að sanna fyrir mömmu að ég eigi vini og að einhverjir aðrir lesi bloggið mitt! :) Ég bara varð sár og fékk tárin í augun þegar ég las þetta komment frá minni eigin elskandi móður, þú sem átt að styðja mig í gegnum lífið og reisa mig upp þegar ég fell! Nei ég bara segji svona hehehehe. Annars hvet ég alla til að fara að skrifa í þessa blessuðu gestabók, einhver skemmtileg komment og auðvitað lýsingar á hvað ykkur þykir ég vera dásamleg. Er nefnilega viss um að ef ég fæ einhverja hvatningu þá verð e´g ennþá duglegri að blogga einhverja þvælu fyrir ykkur, ekkert gaman að blogga og blogga og skrifa og skrifa og svo les það enginn nema ég sjálf (já ég veit ég er sjálfselsk!). Jæja Jönköping á morgun, það á að kjósa og borða og versla en er ekki viss um að það verði í þessari röð. Svo vorum við Gummi að ákveða að kíkja til Gautaborgar yfir dag núna í maí eða í byrjun júní, bara svona til að gera okkur dagamun og skoða borgina. Síðast þegar við fórum þangað sáum við lítið annað en Liseberg, það var ekki mikill tími til að skoða þegar við hlupum eftir borginni þverri og endilangri til að ná síðustu lestinni heim! :) Jæja farin að bursta, meira á morgun eða hinn og mamma e-mailið er á leiðinni! :)

Ps. Tja íbúðin var lítil en við höldum að við rúmumst alveg þar, erum samt ekki viss því stærst gallinn er alveg fáranlega lítið frystihólf!! Er að segja ykkur að það er helmingi minna en það sem er í ísskápnum okkar hérna inni og hérna höfum við amk. líka eina hillu í frystinum frammi. Þannig að við erum alls ekki viss um hvað við gerum, iss þetta kemur allt í ljós, kanski verðum við hér eitthvað áfram eða við reynum að fara í Kurorten, já eða við tökum íbúðina. Gott að vera hérna á næsta ári, helmingurinn (sóðarnir)er að fara og þá getum við hin sem verðum eftir ráðið öllu og haft hreint og fínt og segjum að það hafi "alltaf" verið svo fínt hérna síðasta vetur!! ;)

fimmtudagur, apríl 24, 2003

...jæja hvað segja allir þá? Þá er sumarið komið á Fróni amk. svona á almanakinu, ég hef ekki hugmynd um hvernig veðrið er á Íslandi svo ég ætla ekkert að fullyrða um hvort sumarið er komið í alvörunni eða ekki! Hmmm hvað er ég búin að gera í dag? Tja, það er nú eitthvað lítið. Fékk símtal frá Öldu Diljá vinkonu minni og það var ekki leiðinlegt, svo ætlaði ég að hringja í Helgu vinkonu en hún þóttist vera úti í labbitúr svo hún hringdi í mig þegar hún kom heim. Varð bara að fá að tala við einhverja því pabbi hringir venjulega á fimmtudögum en hann er ekki í landi núna því þeir tóku páskastopp. Ég reyndi að hringja í mömmu en amma Gústa var hjá henni svo ég vildi ekki vera að blaðra frá mér vit og rænu við mömmu og láta aumingja ömmu Gústu bara hanga eina í eldhúsinu að drekka gamalt (við mamma tölum sko stundum rosalega lengi) kaffi og horfa á gardínurnar! Ekkert vit í því! Gaman að fá svona símaæði, sérstaklega þegar maður borgar minnstan partinn af verðinu, já ég er alltaf að reyna að spara svo ég geti keypt mér eitthvað, meikar það einhvern sens??? Örugglega ekki!! Annars er best að fara að koma sér í rúmið því á morgun þarf ég víst að gera eitthvað, búðast, ræktast, taka tilast, þrífast og skrifast! Já það er alltaf svo mikið að gera á stórum heimilum sem velta auk þess miklu!! :P

þriðjudagur, apríl 22, 2003

...til hamingju með daginn Ágúst Torfi góðvinur minn og fyrrverandi tvíburabróðir! ;)
...það er svo klikkað gott veður, í dag var um og yfir 20°C hiti hérna í Skövde og við Gummi fórum auðvitað út á svalir að sóla okkur. Ég er svo mikill svala elskandi að þetta er í annað skiptið sem ég dvel eitthvað út á þessum svölum að ráði, hitt skiptið var í ágúst þegar við vorum nýkomin hingað og vorum aðeins að spjalla við Andreas, Henrik og félaga. Ég er bara ekki frá því að ég sé að taka örlítinn lit, sést svo sem ekkert en ég fann nokkrar freknur á kinnunum og varð voðalega glöð! :) Nú er bara að sleikja sólina meðan hún varir því einhverjir ósvífnir veðurfréttamenn eru að spá á okkur snjókomu - hvað á það að þýða??? Annars er ferðinni heitið til Jönköping á mánudag eða þriðjudag til að kjósa, það er ekki hægt að sleppa því og svo er það auðvitað ágætis afsökun til að fara eitthvað svona rétt yfir daginn og eyða peningum!! :) Alltaf gaman að fara eitthvað! Svo fyrir ykkur sem fylgist ekki alveg nógu vel með þá á ég afmæli miðvikudaginn í næstu viku, þe. hinn 30. apríl og eins gott að það verði búið að plana fullt af partýjum og flugeldasýningar fyrir mig!! Annars var ég að tala við kónginn og erum við alveg harðákveðin í því að halda upp á afmælin okkar saman næsta og næstu ár enda ekkert því til fyrirstöðu að tvær merkustu manneskjur Svíþjóðar fagni fæðingardegi sínum saman! Þá er bara að tala við Óla Óla og byrja að skipuleggja! :)

laugardagur, apríl 19, 2003

...það sem af er þessari páskahelgi er búið að vera alveg mjög fínt. Við erum búin að borða mikið af góðum mat og nammi og snakki og veðrið leikur við okkur. Það er alveg yndislegt þetta sumar veður, allir úti á bolnum! :) Reyndar hef ég heyrt að það sé mjög gott veður á Fróni þannig að ég get víst lítið montað mig! Á skírdag ætluðum við ásamt alveg gommu af öðrum Ísleningum að fara í billijard en það var því miður allt fullt, þá var ákveðið að ath. með að fara í keilu en þar lokaði klukkan 20:00 svo við skelltum okkur öll á Skafferiet og þömbuðum öl eins og við fengjum borgað fyrir það en sannleikurinn er sá að við þurftum að borga fyrir það og vakti það ómælda gleði hjá eigendum staðarins að fá 12 stykki af bjórþyrstum Íslendingum í heimsókn! :) Í gær var svo bara slappað af og étið alveg helling, Gummi kíkti í spil yfir til Ara en þar voru nokkrir félagsþyrstir Íslendingar fyrir. Ég gleymdi mér aðeins í tölvunni og kom bara um 23:00 leytið og horfði á og sýndi Gumma og Stebba G. móralskan stuðning! :) Í dag var svo farið í fótbolta eða tja ég fór með og horfði á og sleikti sólina, tók myndir og videomyndir og skellti mér í búð til að kaupa ennþá meira (hvar stoppar þessi eyðsla eiginlega???). Svo var auðvitað étinn skyndibitamatur eins og venjan er á laugardögum og var ferðinni heitið á McDonalds. Þangað dró ég með mér tvo sveitta karlmenn og er ekkert nema gott um það að segja!! ;) Núna er best að fara að sturta sig því stefnan er tekin á partý hjá þeim Sirrý og Stebba og hver veit nema það verði kíkt eitthvað út á lífið líka, það leiðir tíminn einn í ljós! ;) Ég var farin að örvænta, hélt að það yrði ekkert páskadjamm, við vitum öll að það er engin stórhátið fullkomin nema að það sé amk. eitt þrusu djamm!!! ;) Verð að fara að gera mig ennþá fínni og sætari, við pikkumst!

fimmtudagur, apríl 17, 2003

...vá bara kominn fimmtudagur, já tíminn flýgur þegar það er gaman! ;) Annars bara bongóblíða hérna og ég kuldaskræfan sjálf fór út á bolnum í gær og varð ekkert kalt, þetta eru miklar framfarir verð ég að segja! :) Við Gummi og Ari fórum fórum í göngutúr á mánudaginn, þessi göngutúr átti bara að vera stuttur en varð svo að 3 og hálfs tíma þrammi út um allt "fjallið" hér og umhverfi þess. Þetta var mjög gaman og við tókum alveg helling af myndum og nokkrar af þeim eru í albúminu á síðunni hans Gumma (jámm ég á eftir að linka á það, geri það við tækifæri!). Eftir þennan rosalega göngutúr var haldið heim og borðað pylsur að sænskum sið og farið svo yfir til Ara húsmóður með meiru til að borða kökur!! Ég fékk hann nefnilega til að halda kökuboð því honum tókst að gera eitthvað í tölvunni sinni og auðvitað vildi ég fagna! ;) Fengum rosalega góðar keyptar kökur en okkur er lofað alvöru heimabökuðu bakkelsi fljótlega (hvernær er það?? Í haust eða??? Hehehehe). Hmmm annars svo sem ekkert sem við höfum gert, jú annars við erum búin að versla í páskamatinn og það verður nautakjöt á páskadag - nammi namm - og kassler á föstudaginn langa, hina dagana verður bara einhver sunnudagsmatur að hætti Sirrýjar (þurr hafragrautur!!! Nei nei lasagna og kjúlli!!) :) Jæja best að fara að sturta sig og fara svo út í þetta yndislega páskaveður sem er hérna! Sól, sól, sól, sól og logn, logn, logn, logn!!! :D

sunnudagur, apríl 13, 2003

...skemmtilegir alltaf þessir sunnudagar! Hérna sit ég og blogga meðan ég er að afþýða ísskápinn en það gengur ekkert sérstaklega vel því hann er svo rosalega frosinn! Hefði þurft að gera þetta í ágúst, allra síðasta lagi í september en við Gummi ákváðum að bíða með þetta fram í apríl!! :) Annars er kappinn bara í fótbolta svo ég á smá friðarstund ein heima í fríi fyrir látunum í honum!! :) Mig langar að fara eitthvað út en mér er illt í maganum! :( Það er eins og það sé einhver óskrifuð regla að ég fá illt í magann þegar það er gott veður eða partý, þetta er alveg ömurlegt *grát grát* en ég er nokkuð viss um að þetta lagast á næstu árum og þá verður nú gott að lifa!! ;) Annars eru nú bara alveg að koma páskar og ég er nú bara farin að hlakka til að borða páskeggið mitt sem er númer 6, ætli ég eigi ekki eftir að borða stóran hluta af egginu hans Gumma líka -hehehehe- svo ætla ég að kaupa svona pappaegg og fylla það af nammi, litlum súkkulaði eggjum og einhverju gómsætu -mmmmmmm- mig hefur langað í svona pappaegg í mörg ár og því um að gera að splæsa einu svoleiðis á sig fyrst þau eru til í hverri einustu búð sem maður fer inn í og kosta ekki mikið! :)

Við Gummi erum bara næstum því alltaf góðu börnin, vorum bara heima í gærkveldi og höfðum það gott! Laugardagar eru skyndubitadagar og þess vegna keyptum við pizzu hjá honum Alexander og Fanta hjá honum Apu! :) Fórum reyndar í ágætis göngutúr í góðaveðrinu í gær og komum svo við í Maxi á leiðinni heim og keyptum okkur smá nammi á tilboði, nammi bragðast aldrei betur en þegar það er á tilboði!! ;) Svo var bara sukkað í namminu í gærkvöldi og horft á Harry Potter 2, hún var þrælgóð og nú er bara að bíða eftir að þeir gefi út mynd númer3, 4, 5, 6 og 7!! :)

laugardagur, apríl 12, 2003

...mmmm góður dagur í dag, ekki kalt og ekki heitt og bara fínt að vera úti á röltinu eins og við Gummi gerðum! :) Fengum páskasendingu frá foreldrum mínum og í pakkanum leyndust líka 4 rúllutertur frá ömmu Siggu (amk. býst ég við að þær séu frá henni!), það var ekki seinna vænna að fá nýjar því við erum ný búin að klára þær sem við fengum fyrir jólin!! Maður tímir ekkert að borða svona sælgæti upp á nóinu, þetta verður að spara og spara og spara en vera samt búin að borða þær áður en þær þorna upp í frystinum! Mmmm hvað ég hlakka til að fá mér rúllutertu og páskaegg frá Nóa-Síríus nr. 6 á páskadag!! :) Annað eggið kom alveg heillt til okkar en hitt var brotið en það er nú allt í lagi því þá sparar maður kalóríur á að þurfa ekki að hafa fyrir því að brjóta það sjálfur!! :) Annars ekkert að frétta, erum bara að hafa það gott fyrir framan imbakassann. Erum nýlega búin að klára að horfa á Harry Potter nr.1 og éta tonn af snakki og drekka með því kók og kolsýrt vatn. Myndin var mjög fín, hef lesið bækurnar og varð ekki fyrir vonbrigðum með myndina sem betur fer, auðvitað komst ekki allt fyrir en hún stykklaði á öllu því mikulvægasta! :) Ég las nú allar 4 bækurnar um galdrastrákinn frækna í sumar þegar ég var á Akureyri og ég elskaði þær og langar að eignast þær allar! :) Gumma fannst það reyndar svolítið skondið að ég væri að tárast yfir mynd sem ég vissi alveg hvað gerðist í en það er sko ekkert nýtt, hann ætti að sjá mig þegar ég er að horfa á gömlu spólurnar mínar sem ég er búin að horfa á tíuþúsund sinnum en fæ samt tár í augun yfir sumum atriðum bara af því að þau eru svo falleg!! Hmmm, ég veit ég er skrítin en það er betra að vera skrítin og lifa skemmtilegu, tilfinningaríku og áhugaverðu lífi en að vera að reyna að berjast við að vera einhver annar en maður er, er það ekki annars???

P.s. stór og mörg knús og fullt af kossum til mömmu, pabba og ömmu fyrir sendinguna! :*

fimmtudagur, apríl 10, 2003

...hérna snjóar bara eins og norrænu veðurguðirnir fái borgað fyrir það!! Hmmm, kanski fá þeir það og ætla að skella sér til heitari landa yfir páskana! :) Okkur langar svo að skella okkur til Danmerkur yfir páskana en buddan er eitthvað þunn þessa dagana svo það verður víst ekkert af því (nema foreldrum á Íslandi langi endilega til að gefa okkur pening þá er það alveg allt í lagi!!) :) Iss höfum það bara gott hérna í kotinu okkar í staðinn og borðum eitthvað rosalega gott eins og þurrkaðan hafragraut og engin páskaegg því eitthvað virðast allir þessir páskapakkar sem allir eru að fá ekkert vera á leiðinni til okkar!! :( Núna eiga allir sem ætla að senda okkur páskaglaðnig að fara að drífa sig út á pósthús með pakkana því það tekur nokkra daga að koma þessu alla leið til okkar og seinast þegar ég fékk pakka þá fór tilkynningin á vitlausan stað!! Mig sem sagt langar rosalega að borða helling af páskaeggjum (1 er frekar lítið fyrir súkkulaðigám eins og mig) og því hvet ég alla til að senda svo Gummi fái ekki tuð og væl í gjöf á páskadagsmorgun!! ;) Er að reyna að ákveða hvort ég eigi að nenna að labba í ræktina í þessu "ó"veðri sem er í dag, hmmm það kemur í ljós síðar í dag!! :)

miðvikudagur, apríl 09, 2003

...hérna sit ég og borða allbran í morgunmat, búin að vera geðveikt dugleg í morgun og þreif baðherbergið hátt og lágt, tók allar flísarnar og pússaði þær og gerði allt voða fínt og glansandi og skúraði svo gólfið með nýju undramoppunni minni!! :) Er líka að þvo þvott því að í dag er ég súperhúsmóðirin mikla! :) Já því í dag virðist vera svokallað gluggaveður og því tilvalið að draga frá rimlagardínurnar og fara í stríð við rykið, hef amk. ekkert skárra að gera nema jú ég ætla að labba út á bókasafn á eftir og fá mér kakó- eða kaffibolla og kíkja í moggann og býst ég sterklega við að heittelskaður sambýlismaður minn komi með mér!! :) Það má kanski nefna það í framhjáhlaupi að við Gummi áttum 2ja og hálfs árs afmæli í gær! :) Mikið hrikalega er tíminn fljótur að líða, finnst eins og það séu bara svona 2 mánuðir síðan við hittumst á Nelly's og ég dró hann með mér heim og sendi svo pabba hans sms mánudaginn eftir því ég fann bara hvergi númer hjá Gumma í símaskránni (kanski því hann átti heima hjá systur sinni í Hafnarfirði en í símaskránni var hann ennþá skráður á Akureyri!!)!! Þá gat Gummi greyið (sem tókst ekki að blekkja mig og komast þannig hjá því að hitta mig aftur) ekki forðast mig og hefur ekki þorað að hætta með mér síðan!! :) Hehehehe gaman að þessu, en svo á líka hún Lilla litla (stóra/litla systir hans pabba) frænka mín afmæli í dag, til hamingju með það Lilla mín!! Hva ertu ekki orðin 63ja eða er mér farið að förlast eitthvað?? Svo á Sigurjón frændi (í hina ættina) líka afmæli í dag og er kappinn sá orðinn 22ja ára, ynnilega til hamingju með það grjónapungur!! ;) hehehehe Allaveganna, núna ætla ég að slafra í mig síðustu mjólkurgegnumblautu allbrönunum mínum og halda svo áfram með hreingerninguna - batnandi konum er best að lifa!!! :)

mánudagur, apríl 07, 2003

...hmmm er ekki örugglega mánudagur í dag??? Er orðin alveg rugluð í dögunum!!! :S Allaveganna þá fórum við í partý til Rúnu á laugardagskvöldið því hún varð 25 ára á föstudaginn! Þar var rosalegt stuð og við enduðum á Kåren þó það væri nú ekki ætlunin. Þar gerðist margt skemmtilegt, td. fékk ég að sjá sætasta strákinn í Skövde að mati Kristínar en mér til mikillar mæðu var það ekki Gummi minn heldur einhver Svíatittur sem leit svo sem ágætlega út!! :) Ég dansaði líka við súlu sem er í danssalnum og held ég verði bara að fara að vinna á nektardansstað þvílíkir eru nefnilega hæfileikarnir!! ;) Kristín var líka svo heppinn að einhver gamall karl (hvað var hann að gera þarna???) var að reyna við hana þegar við vorum að dansa og hún þurfti amk. einu sinni að slá á puttana á honum!! Þvílíkt ógeðslegur náungi!! Hef sjaldan eða aldrei dansað svona mikið á Kåren og samt dansaði ég ekkert mikið, er miklu meira fyrir að hanga einhversstaðar og sötra öl og eiga gáfulegar samræður við einhverja en að dansa en stundum er maður bara í stuði!! :) Ætla að taka það fram að ég var ekkert drukkin bara pínu kend enda drukkum við skötuhjúin mjög lítið þetta kvöld!! :)

föstudagur, apríl 04, 2003

...þá er enn einn föstudagurinn að kvöldi kominn!! Við hjónaleysin gerðum nú ekki mikið af okkur í dag, en okkur tókst að eyða metupphæð í Willy's því við ákváðum að kaupa okkur skúringarmoppu!! :) Orðin hundleið á þessari ógeðslegu skúringargræju sem er til hérna í sameigninni, alveg viðbjóðsleg og geðveikt skítugt og svo er ekki hægt að taka bara hausinn af græjunni til að þvo hann (held amk. ekki!). Þetta eru svona margir angar sem hanga saman neðan í skaftinu, alveg viðbjóðslegt að nota þetta drasl, ýtir bara skítnum fram og til baka í staðinn fyrir að þrífa hann upp!!! Þannig að við keyptum svona moppu eins og venjan er að nota á Íslandinu góða og tæknivædda svo bráðum verður gólfið alveg skínandi hreint hjá okkur! :) Vonumst til að geta flutt í aðeins stærra í sumar svo við erum bara á refresh takkanum allan daginn núna og erum búin að gera heimasíðu Skövdebostäder að upphafsíðunni hjá okkur þangað við getum bókað íbúð við hæfi! :) Ætlum nú samt ekkert að stækka mikið við okkur því við kunnum ágætlega við að búa þröngt, þá fer maður amk. ekki að safna að sér of miklu drasli (eins og Gummi er þekktur fyrir en alls ekki ég!!!). Vorum að pæla í 50 m2 íbúð en erum núna að pæla í 30 m2 íbúð (erum núna í 21,5 m2) því það er MIKLU ódýrara og ætta að vera alveg nóg amk. í eitt ár eða svo en þetta er alls ekkert komið á hreint því þetta er erfið ákvörðun skal ég segja ykkur! Hver veit nema við endum svo í rosalegri villu, bara alveg 50 m2 með 2 herbergi og rosalegum lúxus?!?!?!?! Hehehehe nei ég segji svona það er enginn gífulegur lúxus þar nema þá fullorðin eldavél en ég held að það sé líka þannig í þesum sem eru 30 m2!!! Hmmm þetta kemur vonandi allt fljótlega í ljós, ég er amk. bjartsýnin uppmáluð!! :)
...annar í borga reikninga í dag!! Fór í bæinn í gær til að borga sænsku reikningana okkar en það fór ekki betur en þð að ég gat ekki borgað þá alla sökum þess að hraðbankarnir (fór í 3) vildu ekki leyfa mér að fá eins mikinn pening og ég þurfti!!! :( Tók út helmingin í einum og svo vildi hann bara ekki gefa mér meira, þá fór ég í næsta og fékk hinn helminginn en þurfti pínu meira og fór í 3. hraðbankann en hann sagði bara þverrt nei svo ég þurfti að skilja einn reikning eftir!! Það er hrikalega dýrt (40-50 sek. per reikning!!) að borga reikningana í bönkum hérna, þeir vilja greinilega að fólk noti heimabanka eða það sem þeir kalla privatgiro! Við vorum með heimabanka hérna en vorum ekki nógu ánægð með hann, bölvað vesen á honum og eitthvað fornaldarlegt öryggiskerfi sem enginn banki á Íslandi mundi vera þekktur fyrir að vera með! En ég er semsagt búin að sækja umprivatgiro því nú á að fara að spara!! :) Með privatgiro færðu einhver blöð sem þú fyllir inná hvaða reikninga þú þarft að borga og einhverjar tölur og svo auðvitað upphæðirnar og svo stingurðu þessu bara í þartilgert umslag og sendir þetta alveg ókeypis og þarft ekki heldur að borga þessi fáránlega háu gjöld (veit alveg hvernig þetta drasl virkar bara erfitt að lýsa því almennilega!!)!! Ég meina að þurfa að borga fyrir að borga reikningana, þetta er alveg fáranlegt!!!! Þetta var semsagt hápunktur dagsins í dag, mikið á ég innihaldsríkt líf!

miðvikudagur, apríl 02, 2003

...Hann á afmæli í dag,
hann á afmæli í dag,
hann á afmæl'ann Gummi,
hann á afmæli í dag.

Hann er 26 ára í dag,
hann er 26 ára í dag,
hann er 26 ár´'ann Gummi,
hann er 26 ára í dag.

*Klapp klapp klapp og fullt af kossum og knúsi frá mér*

Já þá er hann Gummi minn loksins kominn af léttasta skeiði, bara orðinn 26 ára karlinn og enginn unglingur lengur!! ;) Einhverjar rannsóknir sýna að hjá karlmönnum liggur allt niður á við eftir að hann er orðinn 26 ára!! Hehehehehe Annars liggur afmælisbarnið bara í rúminu með flensuskít, er voðalega lítill eitthvað núna og kúrir sig undir sænginni minni og vill láta vorkenna sér!! :) Skemmtileg afmælisgjöf þessi flensa!! Ég þrælaðist út í bæ til að kaupa afmælisgjöf (peysu og bol) handa drengnum þó að ég sé eitthvað slöpp líka. Gat ekki látið það endurtaka sig sem gerðist í fyrra, þegar Gummi varð 25 ára fékk hann eina gjöf á afmælisdaginn sinn og það var bók frá mömmu minni og pabba. Ég gaf honum ekkert fyrr en um sumarið og mamma hans og pabbi eru ekki ennþá búin að gefa honum neitt!! Hann fær tvöfalda afmælisgjöf frá þeim núna, þau eru fyrir löngu búin að tilkynna okkur það!! :) Jæja best að fara að hjúkra afmælisbarninu og narta í snakk (maður á alltaf að narta í snakk rétt fyrir kvöldmat!!!).

Ég minni á að það styttist óðum í páska og svo afmælið mitt þannig að við erum farin að bíða eftir að pakkarnir streymi inn!! :)

þriðjudagur, apríl 01, 2003

...bara kominn 1.apríl og ég hef bara ekki gabbað neinn og býst ekki við að gera það enda er ég alltaf svo blíð og góð manneskja! :) Veit um amk. tvo sem eiga afmæli í dag og það eru Geiri bróðir hennar mömmu og Óli hennar Helgu vinkonu, til hamingju með afmælið báðir þó ég búist við að hvorugur lesi þetta. Það sem er merkilegast í fréttum í dag er að ég á afmæli eftir akkúrat 1 mánuð (er meira að segja aðeins minna!!). Já það verður ekki amarlegt þegar ég, Svíakonungur og Óli Óla förum að halda upp á afmælin okkar saman og ekki er það leiðinlegra að það er Valborgarmessa líka, fullt af flugeldum og fylleríum og svo frí daginn eftir því þá er frídagur verkamanna og kvenna!! :) Já mamma og pabbi eiga heiður skilið fyrir að plana mig svona vel eða var ég ekki annars plönuð??? Ég hef bara ekki hugmynd um það en ég veit að ég var mjög velkomin!! :) Annars hef ég ekki gert neitt í dag því það er annar eða þriðji í slappleika!! :( Rölti samt upp í Norrmalm til að kaupa mjólk, túrtappa og haframjöl en gleymdi auðvitað að kaupa haframjölið og skrifast það auðvitað á reikning slappleikans! ;) Aftur á móti þýðir ekkert að vera slöpp á morgun því það er merkisdagur, já það þarf að borga reikninga, þvo handklæði og kanski einhverjar tuskur líka, kaupa afmælisgjöf og elda góðan mat og auðvitað fer megnið af deginum í að kyssa Gumma til hamingju með daginn og óska honum til hamingju með að vera loksins kominn í fullorðinna manna tölu amk. hérna í Svíþjóð (gerðist það ekki fyrir löngu á Íslandi?? Gott að verða ungur í annað sinn en það þýðir víst líka að maður verður fullorðinn aftur!!) ;) Sem sagt merkisdagur á morgun en ekki næstum því eins merkilegur og 30.apríl (eru ekki annars allir farnir að safna fyrir Game Cube handa mér??? það er bara mánuður til stefnu!!) :)

sunnudagur, mars 30, 2003

...fréttatilkynning til Íslands: það er kominn sumartími hjá okkur í Svíþjóð svo núna munar 2 klukkustundum á okkur! :) Sumar, sumar, sumar! Sumar, sumar, sumar! :) Við Gummi þurftum nú ekkert að láta neina minna okkur á þessar klukkubreytingar, erum bara orðnir svo miklir Svíar að við bara vissum þetta!! ;) Þannig að við gerðum okkur ekki að neinum fíflum eins og ég hef verið að lesa um á bloggum saklausra Íslendinga sem eru fluttir út í hinn harða klukkubreytingaheim!! :) Hehehehehe P.s. það er ennþá sunnudagur svo ég er ekkert á vitlausum degi!! ;)
...var að klára að horfa á The Hurricane og sú mynd kom nú bara mjög á óvart. Ég bjóst eiginlega ekki við neinu og var heldur ekki alveg að nenna að horfa á hana en vá mér finnst hún þvílíkt góð og auðvitð grét ég alveg heilan helling!! ;) Enda ekki annað hægt þegar maður fær mannvonskuna svona beint í æð, að ein manneskja geti ákveðið að eiðileggja líf annarar manneskju bara vegna þess að hún fer í taugarnar á honum er bara ekki eðlilegt en þekkist því miður allt of vel!! :( Fyrir þá sem ekki vita er þetta sannsöguleg mynd! Nóg um það, ég fór í partý í gær og það var fínt! :) Drakk samt ekkert því mig langaði ekki til þess og fór svo bara snemma heim!! Það var partý á Regemented en þar býr einmitt Viktoria vinkona mín, ég hef bara varla hitt hana síðan fyrir jól þannig að það var frábært að fara og spjalla aðeins! :) Hitti líka Ninu og Lindu og fullt af ókunnugu fólki sem var mismunandi mikið drukkið, sumir voru svo drukknir að þeir héldu ekki áfenginu í glösunum!! Fyndna var samt þegar við 4 vorum inni hjá Viktoriu því hún var að laga hárið á Lindu, þá er allt í einu hurðin rifin upp og inn veður stelpa sem býr víst á ganginum. Hún verður pínulítið hissa á að sjá okkur en spyr svo hvort hún megi ekki fara á klósettið. Viktoria segir að það sé alveg sjálsagt en spyr afhverju hún noti ekki sitt eigið klósett. Svarið sem hún fékk var "það er alltof löng biðröð þar"!!! Enda var svo rosalega mikið af fólki þarna að maður komst ekki inn í lókalinn svo það voru mörg lítil partý út um allt sem maður gat bara vaðið inn í eins og manni sýndist! :) En þvílíka fýlan sem var þarna!!! Ég hélt að það hefði verið vond lykt hérna á ganginum þegar Malin var með stelpupartý inni hjá sér. Við Gummi vorum þá á leiðinni eitthvað út en þegar við opnuðum hurðina fram kom sambland af áfengis-, hárspreys- og ilmvatnslykt á móti okkur -ojbara þvílík fýla!!! Á Regemented var þessi sama fýla plús svita- og táfýla nema bara af rúmlega 100 manns í staðinn fyrir af 6 stelpum!! Nú skulið þið loka augunum og ímynda ykkur fnykinn!! Ég öfunda amk. ekki þá sem þurftu að þrífa þarna í dag og ég býst við að það séu allir þar sem nánast öllherbergi voru opinn fyrir alla!!!

þriðjudagur, mars 25, 2003

...þá er enn einn dagurinn liðinn í Skövde og það gerðist svo sem ekkert merkilegt! Jú ég keypti mé reina flík!! :) Svartan bol með japönsku eða kínversku sniði og munstri á bakinu, svakalega flottur finnst mér!! :) Ég er amk. mjög ánægð, var búin að hugsa um þennan bol í marga, marga daga! Næst á dagskránni er að kaupa bakpoka því minn er bilaður, dettur alltaf af mér því franski rennilásinn er ónýtur!! Ég get sagt ykkur að það að missa bakpokann af sér í tíma og ótíma er að gera mig þunggeðveika og um daginn varð é gsvo pirruð þegar ég var búin að missa hann 3svar af mér áður en ég var komin í skóna að ég sparkaði honum langar leiðir frammi á korridornum!! :) Annars er bara sól og sumarylur í dag! :) Þegar ég sat við tölvuna í dag og var að drekka vanilluheilsudrykk og sá sólina skína fór ég í alveg rosalegt sumarskap og leið eins og ég væri í Shell á Seyðisfirði að drekka sjeik, inni í felum fyrir góðaveðrinu í smá stund!! :) Bjóst nú samt við því að þetta væri bara gluggaveður þannig að ég fór í peysu, jakka og setti upp vettlinga að venju en það voru mjög stór mistök því ég var alveg að bráðna!! Jæja nóg í bili, þarf að fara að sofa því ég þjáist að síþreytu (fínt orð yfir leti!!)

mánudagur, mars 24, 2003

...jæja þá er ég búin að horfa á alla Óskarsverðlaunahátíðina, alveg svaka dugleg!! :) Man ekki eftir að hafa áður horft á allan pakkann en það hlýtur bara samt að vera! Kanski eru minningarnar sem ég á frá þessari hátíð bara allar frá samantektarþáttum sem voru sýndir á Stöð 2 í marga, marga daga á eftir?!?!?! Ég er líka alltof tilfinninganæm, ég grét og hló og snýtti mér alveg heilan helling yfir þessu! Það skipti ekki máli hvort ég "þekkti" fólkið eða ekki ég bara samgleðst þeim svo mikið og sérstaklega þeim sem sýna það alveg hvað þeir eru glaðir og ánægðir. Þegar Kata-Zeta fékk sín verðlaun fyrir besta leikkona í aukahlutverki grét ég meira en hún sjálf og samt ér hún með hormónana á fullu sökum þess að hún er komin að fæðingu!! Gummi sagðist einmitt ekki þora að eignast barn með mér því ég er svo rosalega tilfinningarík venjulega og hann þorir ekki að hugsa til þess hvernig ég verð þegar ég verð ólétt!! :)

Hehehe Lovísa, ég benti bara á þetta svona til öryggis. Þannig að ef vinir og ættingjar kíkja á bloggið þitt þá vita þeir að ég var ekki full bara magalasin!! :) Allur er varinn góður eða er það ekki annars?!?! ;)

sunnudagur, mars 23, 2003

...á blogginu hennar kemur fram að ég hafi verið "vant við látin´" í dag og þess vegna hafi ég ekki komist í Power Strike. Þetta finnst mér hljóma eins og ég hafi verið dauðadrukkin í gær sem ég var alls ekki. Við Gummi fórum reyndar í partý til Finns og Rúnu en það eina sem ég drakk var einn kaffibolli með mjólk og þrjú glös af vatni. Skilst reyndar að byttan hann Gummi hafi drukkið einn sopa af viskí og varð ég alveg brjáluð yfir því, hann var búinn að segja að hann ætlaði ekki að drekka neitt!!!! ;) Það var mjög gaman í þessu partýi og óvenjulegt að sjá svona marga íslendinga saman komna með jafn lítið af áfengi í fórum sínum, óvenju margir voru edrú og svo nokkrir sem fengu sé bara svona smá!! :)

Alltaf jafn yndislegir þessir sunnudagar, sérstaklega þegar maður vaknar of seint í ræktina og hendist út um allt herbergi í hæfilega pirruðu skapi. Er svo kominn í íþróttagallann og skóna og búinn að setja í töskuna þegar magaverkirnir fara að herja á litla mallanum mínum!! :( Ég held að Írak sé inni í maganum á mér amk eru sprengingarnar og læti þarna inni örugglega álíka og þessar hjá Persaflóa!!! Ég sem sagt snéri við frammi á gangi, fór inn í herbergi, háttaði mig og lagðist upp í rúm og hafði það slæmt!! :( Góðu fréttirnar eru þær að ég er búin að fara til læknis svo þetta fer vonandi allt að lagast!! :)

Fréttaskot til mömmu og pabba: Gummi er búinn að senda ykkur það sem við lofuðum að senda fyrir rúmri viku!!! Hitt sem við lofuðum að senda er tilbúið en ég ætla að senda lítið bréf með svo það kemur kanski á morgun en ég lofa samt engu um það!! Þetta mikilvæga er amk.komið til ykkar!! :)

föstudagur, mars 21, 2003

...sjitt hvað klukkan er orðin margt!!! :S Festist í að skoða austfirðingablogg og verð ég nú bara að segja að það var mjög áhugavert og skemmtilegt!! :) Annar í austfirðingablogglestri á morgun því klukkan er að verða fimm hérna í Svíaríki. Það er sagt að ef svíi er óvart á ferli seint um kvöld og sjá ljós í glugga þá segji hann "þarna búa greinilega íslendingar". Málið er að seint hjá svíum er frekar snemmt hjá okkur!! Td. sáum við Gummi aldrei neina elda kvöldmat hérna á korridornum og vorum við mikið að pæla í hvort þessi eftirlætisbörn sem búa með okkur borðuðu bara yfirleitt ekki neitt! Svo komumst við að því að þau borða "kvöldmat" um klukkan 1700!! :S Hvað er það?? Þá á maður að vera að fá sér smá stillituggu svo maður deyji ekki úr hungri fram að kvöldmatnum sem er borin á borð á kvöldmatartíma!!!! Talandi um svefntímann þá fara svíar (amk. þeir sem ég kannast við) mjög snemma að sofa. Ok, fyrir mína parta þá er snemmt að vera sofnaður löngu fyrir miðnætti þó það sé skóli klukkan 0800 morguninn eftir! Svo er hin hliðin á þessu máli, væru íslendingar kanski minna fúllyndir og ekki eins feitir ef þeir tæku upp á þessum sænsku lifnaðarháttum??? Þetta er spurning sem erfitt er að svara en eitt er víst og það er það að eitthvað hafa svíarnir gert til að verða fittasta þjóð í heimi!! Kanski var það pylsuát???

Farin að bursta, verð að vera sofnuð áður en Gummi vaknar klukkan 0730 og þar sem ég get nú ekki sofnað nema fá mér annað hvort línu (í bók sko!!) eða glápa/hlusta á eitthvað í imbanum er víst best að fara að koma sér í bælið. Tæmerinn á tívíinu verður að vera búinn að slökkva á því áður en Gummi vaknar því þá er öllum sönnunargögnunum um sjónvarpsgláp mitt eytt!! Tja fyrir utan þetta blogg en það skiptir ekki máli því Gummi kann ekkert að lesa því ég bannaði honum það!!! ;)
...Hæ hæ ég er loksins komin aftur!! :) Ætla samt að reyna að hafa þetta stutt því seinast þegar ég bloggaði, að sjálfsögðu langt og skemmtielgt blogg amk. að mínu mati, þá kom einhver villa og bloggið birtist ekki heldur bara hvarf!! :'( Gerði grín að heilbrigðiskerfinu í Svíþjóð og ég veit ekki hvað og hvað og bara búmm það hvarf eins og dögg fyrir sólu!! :( Hef svo sem ekki gert mikið, búin að vera að drepast í maganum og er loksins búin að fara til læknis og Ísland ég er ekki í bráðri lífshættu!! :) Fór í Body Pump í gær og Box í dag og það var mjög gaman! Heyrði í foreldrum mínum í kvöld eins og venjan er á fimmtudagsköldum og það var mjög gaman!! Hvað hef ég gert meira?? Júbb hringdi í ömmu mína á laugardaginn og hún var geðveikt glöð svona eins og allir aðrir mundu verða ef ÉG mundi láta mér detta í hug að hringja í þau!! ;) Ó takk Sirrý, við erum ekki þess virði!! Hehehehehe Júbb eitt skemmtilegt gerðist og það var að hún Inga Hrefna ætlar að senda mér pakka! :) Ákvað bara ap nefna það hér svo hún fari ekkert að svíkjast um!! :)

Eitt sem ég verð að benda ykkur á og það er þessi síða . Inga Hrefna benti mér á hana og bara svo þið vitið það þá er hún ákveðin í að þetta sé tilvonandi eiginmaður hennar svo stelpur ekki reyna það einu sinni, Inga er bæði stór og sterk!!! Alla vegana skoðiði þetta í alvörunni, þessi síða bjargar alveg deginum hjá ykkur!! :)

laugardagur, mars 15, 2003

...takk Grétar fyrir að staðfesta að ég er engin subba, mér hlýnaði um hjartaræturnar við að heyra þetta og sjálfsálitið hækkaði!! :) Ég gleymdi ekki að blogga í gær ég bara meikaði það ekki því ég fékk svo illt í magan!! :( Núna hugsa kanski sumir "bíddu þú sagðir illt í magan en ekki í hendurnar" en þá svara ég bara "ykku rhefur greinilega aldrei verið illt í maganum því ég gat bara varla hreyft mig fyrir verkjum!! Er farin að fá oft illt í magan stuttu eftir að ég borða og ætla þess vegna að panta mé rtíma hjá lækni á mánudaginn - ég er svo dugleg!! :)

Annars á hún amma Sigga afmæli í dag og ég held að ég ljúgi ekki þegar ég held því fram að hún sé 86 ára kerlingin. Hún lítur nú samt alls ekki út fyrir að vera meira en svona 70 ára hún er alltaf svo hress og alltaf að gera eitthvað, baka, elda, passa, handavinnast eða föndra, spila eða í líkamsrækt. Ég ætla að vona að ég verði svona hress þegar ég verð komin á hennar aldur!! :) Ég er búin að senda henni afmæliskort og svo ætla ég að hringja í hana í dag, er svo rosalega obboslega góð sonardóttir!!! :) Ég reyndar sendi 3 kort á fimmtudaginn, eitt til ömmu, eitt til Önnu vinkonu minnar sem á 90 ára afmæli í dag og svo sendi ég loksins heillaóskabrúðkaupskort með smá glaðningi til Sirrýjar frænku og Hrafnkels (mátti ekki seinna vera, giftu sig fyrir nokkrum vikum!!!). Þetta er kanski ekki frásögu færandi, varð bara að láta fólkið mitt heima vita að ég hugsa alveg um það!! Næst á dagskrá er svo að senda ömmu Gústu (þá verð ég búin að senda öllum ömmunum mínum kort) og Lillu frænku kort (kanski bréf líka ef ég verð í stuði). Var nefnilega´búin að lofa að senda Lillu póstkort frá Skövde því hún safnar póstkortum sem hafa póststimpil og frímerki. Það er nú svo lítið mál að senda eitt póstkort að ég skil ekki afhverju ég er ekki búin að því!?!?!?!?! Svo ef ég finn fingurbjargir merktar Skövde þá kaupi ég svona 2 stk. og sendi Siggu systur hennar mömmu því hún safnar svoleiðis (og á ekkert smá stórt og flott safn!!!). Ég þarf endilega að fara að safna einhverju svo fólk muni eftir mér og ég fái kanski stundum pakka!! ;)

Jæja nóg af pikki, það er þvotta og þrifa dagur í dag hjá mér og svo er skyndibiti í kvöldmatinn (mmmm mmmm mmmm McDonalds - furðulegt hvað þeir eru betri hér en á Fróni, það eru allir sammála um það!!!)). Ég er ekkert að svindla með þessum skyndibita það stendur á tveggja vikna matseðlinum okkar: Laugardagur 15. mars 2003 - skyndibiti!! Það stendur líka næsta laugardag *slurp* !!!! :)

fimmtudagur, mars 13, 2003

...já ég er bölvaður letingi og ég veit það!! :P Nei í alvöru talað ég bara gleymdi að blogga í gær og fyrradag og það er svo sem skiljanlegt þegar maður lifir svona rosalega hröðu og skemmtilegu lífi eins og við Gummi gerum!! :) Hehehehe Annars komst ég loksins í boxið í dag og það var alveg frábært hreint út sagt en erfitt líka og tók þokkalega á svuntunni sem var að hamast við að myndast á maganum á mér en er á hraðri leið í burtu aftur!! :) Það sem stóð upp úr í boxinu var þegar ég átti að kýla í púða sem Kristín hélt á og sparka svo í hann því þá rifnuðu buxurnar mínar í klofinu og ég hef aldrei á ævi minni heyrt efni rifna með svona háu hljóði!!!! Kristín hafði meira að segja orða á því hvað þetta var hátt rifnihljóð!! En það var ekki nóg að buxurnar hefðu rifnað þegar helmingurinn af tímanum var ennþá eftir heldur þurfti ég endilega að vera í alveg skjannahvítri brók, það hreinlega lýsti af henni út um gatið í klofinu!!! :S Frábært ekki satt??? Sumir hefðu nú bara hætt en ég var nú ekki á þeim buxunum (enda varla í buxum lengur heldur bara í einhverjum tægjum!!!) og kláraði tímann með öllum þeim spörkum og glenningum sem því fylgdi!! :D Hehehe ég er glennan ógurlega og fer ekkert leynt með það!!! :) Annars er bara kominn tími til að sturta sig því ég er ekki ennþá búin að því síðan ég kom heim klukkan hálf 22!! Ok, ég skil alveg að þegar þið eruð búin að lesa þetta blogg og það frá síðasta laugardegi að þið haldið að ég sé algjör skítalabbi og fari aldrei í bað og sé alltaf með svitalyktina í bandi á eftir mér en það er bara ekki satt!! Þegar ég kom heim þurfti ég aðeins að slappa af og skoða Moggan og Aftonbladet á netinu og svo gleymdi ég bara tímanum og þá hringdu mamma og pabbi!! Skiljanlega gat ég ekki farið í sturtu á meðan ég talaði í síman þó það sé nógu löng snúra en síminn sjálfur er bara því miður ekki vatnsheldur!! :( Svo þegar þessu langa, langa, langa símtali lauk ákvað ég að blogga svo ég mundi ekki gleyma því og þá vitiði það - ég er ekki skítalabbi!!! :) Hehehe er hætt þessu pikkæði og farin í sturtu og svo ætla ég að fá mér að borða, ég veit alveg að klukkan er orðin 00:45 og mé rer bara alveg sama ég bara verð að fá að borða núna!! Góða nótt eða góðan mat!! :)

þriðjudagur, mars 11, 2003

...oj hvað ég er þreytt, var svo dugleg að rífa mig upp á rassgatinu og planta mér fyrir framan tölvuna rétt rúmlega klukkan 1300 í dag, eftir erfiða vökunótt og lítinn svefn!! Hehehehe :) Sat sem föstust við tölvuna í svolítinn tíma en sá þá að ég hafði fengið emil frá Kristínu sem vildi ólm að ég kæmi með sér í Power Strike í FeelGood. Ég ákvað að það gæti orðið hin mesta skemmtun, skellti mér í tuskurnar og arkaði út á bókasafn til að tilkynna honum það að Willy's ferðin ógurlega sem var ætlunin að fara í klukkan 1700 hafði verið flýtt um tvo og hálfan tíma og ekkert múður með það!! :) Við drifum okkur þangað og keyptum heil ósköp inn en borguðum lítið fyrir það að venju, matvöruverðið hér er ekkert líkt þessu Íslenska þetta eru ekki einu sinni fjarskyldir frændur!! ;) Þegar komið var heim hljóp Gummi aftur á bókasafnið því hann þolir ekki nærveru mína svona lengi nema annað okkar sé sofandi!! Ég fór aftur á móti að kanna huldu heima internetsins eða símaskránna réttara sagt því ég ætlaði að finna númerið hjá Kristínu því hún var ekki online á msn-inu. Þá ákvað blessaða internetið að það væri komin óþekktartími og bara harðneitaði að leyfa mér að skoða nema rétt forsíðurnar öllum síðunum sem ég prófaði, þarna varð svo loksins lukka á vegi mínum því Kristín kom online og við valhoppuðum saman í Power Strike svita, spark, kýla, slá tíma!! Þetta var sem sagt hinn ágætasti dagur og skulum við vona að morgundagurinn verði það líka þó það verði sennilega ekki mætt í ræktina sökum harðsperra sem ég hef ekki ennþá gefið tækifæri á að koma sér í burtu af kálfunum, lærunum og rassinum á mér og yfir á einhvern annan!!
...það er ennþá mánudagur hjá mér svo ekkert vera að skamma mig!! :) Reyndar er eiginlega komin þriðjudagsmorgun því klukkan er 06:13 en þegar maður er ekkert búinn að sofa þá er ekki kominn nýr dagur!! Já eða sko náttúrulega kemur nýr dagur ef ég fer ekkert að sofa en þar sem ég er á leiðinni í rúmið þá er bara ennþá mánudagur hjá mér og ekkert kjaftæði!! Það er nefnilega frí í skólanum hjá mér á morgun því það er kennaradagur fyrir hádegi og venjulegur dagur byrjar eftir hádegi en þar sem ég á bara að vera í skólanum til 13:15 þá þarf ég ekkert að mæta!! :) Hann Jan sem kennir mér Svenska Tal nennir nefnilega ekki að kenna okkur í korter!! Bölvuð leti er þetta í manninum - hehehe!!! En þar sem það er frí í skólanum á morgun var alveg bráðnauðsynlegt að vaka í alla nótt bara svona til að snúa sólarhringnum við svo ég þurfi að snúa honum aftur við á miðvikudaginn!! Það er flókið að vera ég!! :) Ég dreif mig í Body Pump í dag og tók hana Möddu með mér. Það var þræl gaman en geðveikt púl og ég hélt að greyið kálfarnir mínir sem eru með hrottalegustu harðsperrur sem ég hef nokkurntímann fengið mundum bara ekki meik allar þessar hnébeygjur og hvað þetta nú heitir allt saman! Ég fór nefnilega í einhver rosa tíma með Krisínu á laugardagsmorguninn og ég fékk svo mikla harðsperruverki í kálfana eftir það að ég þurfti að ganga á tánum því ef hælarnir snerrtu gólfið gat ég ekki staðið bein!! Hvað leggur maður ekki á sig fyrir útlitið og geðheilsuna??? Já krakkar mínir það er margt skrýtið í kýrhausnum (ég er sko belja eða réttara sagt naut!!). Jæja þá er best að fara að bursta og pissa og drífa sig að sofna áður en klukkan hans Gumma hringir, það væri nú alveg hræðilegt að hitta hann áður en hann fer í skólann eða hvað...??? Er farin að horfa á Andy pandy og Walter Melon og kanski Digimon eða Sailor Moon ef ég get ekki sofnað alveg strax!! Hmmm svolítið gruggugt að ég kunni barnaefnisdagskránna utanbókar en hvað get ég sagt ég fýla bara barnaefni!!! :)

sunnudagur, mars 09, 2003

...ætla að byrja á því að koma því á framfæri að það er ennþá laugardagur hjá mér og því er ég ekki að sleppa úr degi í bloggátakinu!! :) Núna er klukkan 4:53 og Gummi og Ari eru að horfa á Formúlu 1 á nýju sjónvarpsstöðinni TV 4+ sem ég hafði mikið fyrir að stilla inn á tækið og endurraða stöðvunum og merkja hvað þær heita meðan Gummi var að leika sér í afþreyjingartölvunni okkar! :) Ég er svo mikil tæknikona að annað eins hefur ekki sést hérna megin við miðbaug! :) Annars var þessi laugardagur frábrugðin mörgum öðrum að því leyti að ég vaknaði löngu fyrir hádegi!!! Nú veit ég að þeir sem þekkja mig vel taka andköf, svo hissa eru þeir á þessu! :) Ástæðan fyrir því að ég vaknaði klukkan hálf 11 var sú að ég var komin með nóg af letibykkjunni sem var búin að bíta sig fasta við rassinn á mér og ákvað að hrissta hana rækilega af með því að skella mér í ræktina með Kristínu!! Við vorum svakalega duglegar og svitnuðum herfilega og fengum andarteppu og svimaköst og ég veit ekki hvað og hvað!! Ok, við erum ekki alveg í svona lélegu formi - hehehe - en betra á það að verða og þess vegna er stefnan sett á að mæta í þennan palla + lóða tíma á laugardagsmorgnum á næstunni! Þegar við vorum svo komnar heim rennsveittar og geðslegar, búnar að tala frá okkur vit o grænu hérna fyrir utan eins og kvenna er siður, fattaði ég að ég hafði gleymt lyklunum mínum!! :( Þá var um tvennt að velja, nr.1 var að sitja í ógeðslegu setustofunni okkar og bíða þar í 3 klukkustundir eða nr.2 að labba til baka, á bókasafnið, og trufla Gumma aðeins. Auðvitað valdi ég það síðarnefnda og truflaði hann vel og lengi, snýkti pening fyrir kakóbolla og 1 dós af sódavatni og sat svo og var að lesa Moggann! Hvað varðar svitalykt þá kvartaði enginn en á hinn bóginn voru engir á kaffistofunni og hver veit, kanski var það vegna svitalyktarinnar?!?!?! Ég ákvað semsagt að kíkja í smástund í Moggann og ætlaði svo að halda heim á leið og skola svitann niður um niðurfallið í sturtunni. Þessi pínusstund varð að 3 klukkutímum og var ég samferða Gumma heim klukkan 16!! Svitalyktin hvarf svo á meðan fiskurinn bakaðist í ofninum!! :)

föstudagur, mars 07, 2003

...jæja hérna kemur föstudagsbloggið - ta ta ta ra damm!! Hmmm ég gerði ekkert í dag nema hanga í tölvunni og þvo þvott. Jú annars ég eldaði geðveikt gott taco og notaði sveppahakk í staðinn fyri rvenjulegt *slurp* hvað það var gott!! :) Mér tókst nefnilega að sofa yfir mig í morgun, átti að mæta í 1 klst í skólann!!! Þannig að ég er "veik" heima í dag og langar út!! :( Planið í kvöld er að sitja heima og glápa á imbann og borða snakk!! Já og ætli planið fyrir annað kvöls sé ekki eitthvað svipað!! Bara að taka því rólega svo ég geti vaknað í skólann á mánudaginn, alveg ótrúlegt að sofa svona yfir sig!! Svo þegar Gummi kom heim í hádegismat spurði ég afhverju hann væri kominn svona snemma heim - ég er algjör vitleysingur!!
...jæja hérna kemur föstudagsbloggið - ta ta ta ra damm!! Hmmm ég gerði ekkert í dag nema hanga í tölvunni og þvo þvott. Jú annars ég eldaði geðveikt gott taco og notaði sveppahakk í staðinn fyri rvenjulegt *slurp* hvað það var gott!! :) Mér tókst nefnilega að sofa yfir mig í morgun, átti að mæta í 1 klst í skólann!!! Þannig að ég er "veik" heima í dag og langar út!! :( Planið í kvöld er að sitja heima og glápa á imbann og borða snakk!! Já og ætli planið fyrir annað kvöls sé ekki eitthvað svipað!! Bara að taka því rólega svo ég geti vaknað í skólann á mánudaginn, alveg ótrúlegt að sofa svona yfir sig!! Svo þegar Gummi kom heim í hádegismat spurði ég afhverju hann væri kominn svona snemma heim - ég er algjör vitleysingur!!

fimmtudagur, mars 06, 2003

...ég var að skoða mbl og sá þar auglýsingu frá Nammi.is um páskaegg. Já það eru alveg að koma páskar og ætla ég bara að minna ættingja og vini á Íslandi að það verður ekki sagt nei við páskaeggjasendingum af öllum stærðum og gerðum (hafið þær samt sem stærstar!!). Ég er algjör páskahæna og ELSKA páskaegg, ég borða 2 meðan Gummi borðar 1/4 og þá klára ég hans líka!!! Mmmmmmmm og slef páskaegg. Þeir sem ekki senda páskaegg þurfa ekki að búast við e-mailum frá mér í framtíðinni og veit ég að ykkur mundi finnast það miður svo drífið ykkur út í búð að kaupa Nóa nr. 7, stærsta Góu eggið og Mónu nr. 13 og hjónaegg svona 2stk og auðvitað fullt af körfum með litlum eggjum í!!! Oohhh ég er komin með vatn í munninn!! :)
...ég er ennþá lasin, en finnst ég vera að hressast svo ég ætla að drífa mig í skólann á morgun!! Ég þarf að labba í 25 mín til að vera í skólanum í 60 mín og labba svo aftur heim, sem tekur reyndar styttri tíma en að labba þangað - hmmm undarlegt en satt!! Ég sem sagt missti af því aðra vikuna í röð að fara í box!! :( En boxið er ekkert að fara neitt svo ég dríf mig í næstu viku en ætla að drífa mig í einhverja skemmtilega tíma eins og Body Pump einhverntímann í vikunni!! :) Harðsperrur, harðsperrur, harðsperrur, aahhh það er svo gott að geta ekki hreyft sig fyrir harðsperrum sérstaklega þar sem ég er ap taka aðeins lengra vetrarfrí en ég ætlaði mér, það er orðið 2 vikur!! :( En ég fékk engu ráðið um þessa flensu, hún gerði engin boð á undan sér bölvaður dóninn!! Ef hún hefði td. sent skeyti til að ath. hvort að þessi fyrirhugaða heimsókn hennar henntaði mér hefði ég verið fljót að senda annað til baka og segja alls ekki en má ég hafa samband við þig þegar mér finnst ég ekki vera búin að læra nóg undir eitthvað próf??!!!!

Hehehe Gummi er í eldgömlu Nintendo tölvunni minni núna því ég "stal" heimilisleikjatölvunni okkar frá honum!! :) Svo nú hljómar Maríó 1 lagið um allt herbergið en það er ekkert sem mér finnst leiðinlegt því ég er einlægur Nintendi aðdáandi sem á Nintendo Game Boy Advance og dreymir um að eignast Nintendo Game Cube (kanski mamma og pabbi vilji gefa mér svoleiðis í afmælisgjöf!!!) Hehehe maður má alltaf láta sig dreyma!! :) Jæja er hætt, ætla að fara að tala við Gyðu og Ástu (í fyrsta skipti) á msn-inu!

miðvikudagur, mars 05, 2003

...hérna kemur skipun til foreldra minna á Íslandi!!! Þið eigið að vorkenna mér því ég er lasin, er með hálsbólgu, hausverk, kjálkaverk og tannverk en sem betur fer engan tíðaverk þetta er nú alveg nóg af því góða eða slæma!!! Þannig að ég er bara búin að hanga heima í dag og kúra mig og var svo að pæjast á netinu (er hætt að nördast það er svo leiðinlegt!!) og talaði við Ingu Hrefnu og Hildi Jónu á msn-inu. Ótrúlegt en satt, við Hildur Jóna vorum að hittast í fyrsta skiptið á msn-inu síðan ég flutti hingað út í júlí!! Það var náttúrulega æðislegt að heyra í henni eftir svona langan tíma (Inga það var líka æði að heyra í þér :)!!). Svo voru líka 2 löng bréf frá Íslandi í inboxinu mínu þegar ég kíkti (aldrei leiðinlegt að fá bréf að heiman) og nú er bara að setjast niður einhvern næstu daga og byrja að pikka á fullu, ég skulda núna 3 bréf og eitt auka til mömmu!! :) Þannig að þó ég sé veik þá var þetta bara fínn dagur, vonandi kemst ég samt í skólann á morgun langar ekki að missa úr því það er hellingur að gera!! Ákvað að vera heima í dag svo ég verði ekki alveg veik því það var enginn fyrirlestur í dag bara svona handledning (stoðtími) sem er samt skilda, fannst bara betra að sleppa einum svoleiðis og geta mætt í málfræði fyrir nemendur með sænsku sem annað tungumál á morgun í staðinn og í venjulega málfræði á föstudaginn!! :) Ég gerði samt eitt nauðsynlegt í dag, ég fór í bað!! Nei, er að grínast fer nú ekki að eyða vatni í vitleysu!! ;) En ég fór til Ara og fékk að skanna inn bréfið sem við fengum frá Försäkringskassan um húsaleygubæturnar og sendi það svo til Möddu sem áframsendir þetta til mömmu sinnar á Íslandi sem er að skoða þetta mál fyrir okkur!! :) Gott að einhver er með sambönd því þetta virðist vera frekar snúið mál og mismunandi svör eftir hvert maður hringir!! :( En Möddumamma vinnur hjá Hallo Norden og kann á svona Svíafrekjur - hehehe - nei segji nú bara svona þeir eru ekkert verri en aðrir!! :) En ég sendi eilíft þakklæti til Möddumömmu fyrir að snúast svona fyrir okkur (veit að það er vinnan hennar en hún er samt góð!!).

þriðjudagur, mars 04, 2003

...mér er kalt, veit ekki afhverju því ég held að það sé ekkert kalt hérna inni held hreint út sagt að þetta sé þreytu kuldi o gþað er ekki vanalegt á þessum bæ - eða hvað??? Er að bögglast við að horfa á 10 things I Hate About You í skrilljónasta skipti. Sá áðan smá bút úr heimildarmyndinni um Michael Jackson, heitir hún ekki Living With Michael?? Skiptir engu máli, en hann er stórfurðulegur og kaupóður!! Fór inn í einhverja rosalega búð í Las Vegas og bara benti í allar áttir og sagði "kaupa, kaupa, kaupa, kaupa, kaupa!! Þar sem hann keypti allskonar risavasa (2 eins á yfir hálfa milljón dollara samanlagt!!!) og borð og drasl og karlinn sem gerði myndina giskaði á að hann hefði keypt 80% af dótinu í búðinni og að eigandi hennar gæti bara flutt til Bahamas og haft það gott það sem eftir væri ævinnar eftir að Mikki kom askvaðandi þangað inn og veifandi seðlunum!!! :) Ekki amarlegt það!! Nú er bara að muna eftir að horfa á seinni helminginn og reyna svo að sjá þáttinn þar sem Mikki varði sig en ef ég þekki sjálfa mig rétt man ég ekki eftir þessu!! :) Man bara eftir að horfa á CSI hinu gleymi ég bara sem er ágætt því þá er ég ekki bundin af sjónvarpinu á meðan. Samt er ekkert eins gott og að bara skella sér upp í rúm (að sjálfsögðu í öllum fötunum og undir rúmteppið) og bara glápa frá sér allt vit!! Reyndar aukum við yfirleytt alltaf við vitið hjá okkur því við horfum oft á Discovery eða fræðsluþætti á hinunm stöðvunum. Á næstu árshátíð verður ekki gert grín af okkur með því að segja að við höfum lesið eitthvað heldur að við höfum séð það í sjónvarpinu - hehehe vá í hvað ég er mikill húmoristi hehehe!!! ;) Ekki misskilja mig samt það kemur oft fyrir að það eru alveg sjónvarpslausir dagar hjá okkur og ekki kveikt á imbanum fyrr en við setjum Simpssons í svo við getum sofnað (maður þarf eitthvað heilafrumusvæfandi á kvöldin þegar maður er svona fróðleiksfús eins og við tvö :Þ)!!!!

Jæja, ætla að fara að hátta mig því ég er orðin alveg úrvinda eftir langan dag!! Ok, ég viðurkenni að það er ekki vanalegt að ég sé farin upp í rúm fyrir klukkan 22 en ég ætla bara að hátta núna og halda áfram með myndina (reyndar beið hún ekkert eftir mér meðan ég var að blogga - þeir eru svo óliðlegir þarna á treunni!!). Svo á auðvitað að vakna snemma og skella sér í ræktina fyrir skólann!! Þarf ekki að mæta fyrr en 11:05 svo þetta verður ekkert voðalega snemmt, læt klukkuna hringja kl. 7:30 - nú er sko heilsuátakið á fullu því afgangurinn af krumpubumbunni minni á að vera farin í sumarfrí á undan mér!!! ;) Hehehe *Nótt nótt* og vonandi verð ég vakandi þegar Gummi kemur rennsveittur heim úr körfuboltanum!! ;)
...ARG mig langar líka að fara eitthvað!!! Það eru margir að blogga um það í dag að þeir séu að fara eitthvað en við erum ekki að fara neitt!! :'( En ég örvænti ekki sérstaklega þar sem við Gummi vorum einmitt að tala um það áðan (áður en ég las bloggið) að reyna að fara til Danmerkur um páskana!! :) Svo er náttúrulega draumurinn að fara til Þýskalands eða Finnlands í sumar!! Ef það eru ennþá einhverjir sem nenna að spurja mig afhverju Finnland?? þá er svarið "ég var au-pair í Helsinki í rúma 5 mánuði og þetta er frábær borg og ótrúlega falleg (finnst mér amk.!!)!! Svo nú vita allir það!! :) Ég get bara ekki beðið eftir að sýna Gumma allt þar og skreppa svo yfir til Eistlands í einn dag, ég hef nefnilega ekki komið þangað ennþá því það kom óveður þegar ég var í ferjunni þangað og henni var snúið!! :( Þannig að nú er stefnan bara sett á ferðalög á viðráðanlegu verði! :) Það er kanski hægt að fá Magga Villa á nýja bílnum til þess að koma á fleygji ferð til að sækja okkur!! ;) Nei, ég segji bara svona - hehehe!!

Hmmm, eitthvað annað??? Já, skólinn í dag var fínn og ég er að hugsa um að fara að undirbúa tvo fyrirlestra og eitt skriflegt verkefni þar sem ég rökstyð eitthvað rosalega vel!! Sumir hugsa núna HVAÐ það er ekkert mál, puhh rökstyðja smökstyðja!! En það er bara erfitt á sænsku eða það finnst mér amk. Ég veit samt að ég á eftir að standa mig vel í þessu því ég er búin að ákveða það og núna er bara harkan sex eða bara harkan og sex!! ;) Hehehe eru ekki allir í stuði?? Gummi er þokkalega í stuði, hamrar á gítarnum eins og hann hafi gert honum eitthvað!! Gummi yrði fljótur að skamma mig og bjarga dýrmætustu eigninni sinni ef það væri ég sem þjösnaðist svona á garminum!! Jæja er hætt þessu bölvaða bulli, njótið vel!!!

Konur hafa oft á tíðum... ...og það hef ég líka!!!

mánudagur, mars 03, 2003

...jæja best að blogga svolítið fyrir svefninn svona sérstaklega þar sem ég þykist vera í einhverju bloggátaki!! Það er svo sem ekkert merkilegt búið að gerast. Fór í skólann í dag og átti fund með kennaranum mínum sem Gummi kom með mér á!! Ástæðan fyrir fundinum var súy að ég ákvað að segja henni hversu mikill nöttari ég er og útskyra afhverju og gekk þetta allt saman bara mjög vel!! :) Svo er bara að rífa sig á lappir klukkan 7 í fyrramálið og drullast í skólann, langt síðan ég hef þurft að mæta svona snemma!! Vá ég er svo rosalega þreytt að ég ætla að fara að koma mér í bólið (svaf rosalega stutt í nótt pg hef ekki fengið mér bjútíblund í dag!!) Heyrðist Gummi vera að skella Simpsons í tækið og stilla það þannig að það slökkvi á sér eftir 90 mínútur þó við verðum bæði sofnuð eftir 10!! Er farin að bursta, skrifa meira á morgun, góða nótt! :*

sunnudagur, mars 02, 2003

...ætla bara að þakka Hönnu og Óla fyrir veittar veitingar í kvöld. Þið eruð eðal og alls engir nískupúkar!! Hehehe Annars komst ég að því að ég gleymdi að tala um helling af því sem ég hafði skrifað á miðan sem ég hafði í vasanum!! Hefði kanski átt að fara aftur á klóið að kíkja!! ;Þ Við lentum í hellings vandræðum þegar við vorum komin til Hönnu og Óla (eða svona næstum því) því dyrasíminn hjá þeim var bilaður og við ekki með neinn gsm-a frekar en vanalega (mínum var stolið og Gumma er fyrrverandi gemmsi, núverandi vekjaraklukka!!). Þannig að við fórum yfir til Johans bekkjarfélaga Gumma og ætluðum að fá að hringja en hann var ekki heima, aftur á móti hleypti annar Johan okkur inn í stigaganginn þeirra (hann svaraði þegar við hringdum bjöllunni hans Johans fyrri, við tvíkíktum og við hringdum ekki í vitlaust númer!!). Þegar við vorum búin að berja dyrnar hjá Johanni sundur og saman ákváðum við að drífa okkur út aftur og ath. hvort það væri ekki einhver að fara inn í stigaganginn hjá Hönnu og Óla eða koma út því það var allt löðrandi í partýum þarna eins og annrsstaðar. Ég opnaði hurðinna inn á stigaganginn, sá fullt af fólki og skildi bara ekkert hvað allt þetta fólk var að gera í stigaganginum og það svona allt í einu (meina það var þar ekki 2 mínútum áður þegar ég labbaði niður og það virtist fara eitthvað svo vel um það!!!!). Þá rann skyndilega upp fyrir mér ljós!!! Ég opnaði inn í einhverja íbúð og þar stóðu allir og störðu á mig gapandi hissa!! Ég baðst þrisvar sinnum afsökunar og hljóp svo skríkjandi og eldrauð upp stigann og dreif mig út úr þessu hræðilega húsi!!! Þegar út var komið og kinnarnar á mér búnar að ná nokkurnvegin eðlilegum lit aftur vorum við svo heppin að 2 strákar áttu einmitt leið inn í húsið hjá Hönnu og Óla og við smygluðum okkur með inn!! :) Allt er gott sem endar vel!!

Hmmm annars er allt fínt að frétta, Gummi fór í próf í morgun og gekk bara vel held ég. Ég tilkynnti honum í gær að það þúddi ekkert að leggja sig eftir prófið því fyrst þyrftum við að gera matseðil fyrir vikuna, innkaupalista og drífa okkur í Willy´s og bla bla bla tuð tuð tuð og nöldur!! Það er skemmst frá því að segja að ég svaf lengi, lengi, lengi í dag og greyið Gummi var svo hræddur við mig að hann lagði sig ekkert heldur hékk í tölvunni!! :) Ég hef sko góða stjórn á mínum manni!! Hehehehe :) Í dag var líka seinasti í óhollustu dagur (sko þangað til á næsta laugardag því þá er nammi/óhollustudagur) og héldum við skötuhjúin upp á það með að fá okkur hamborgara í kvöldmatinn - ég er að verða háð hamborgurum og öðrum óþverra, ég skil þetta bara ekki!! Hehehe Nei samt án gríns þá er ég búin að vera í svo miklu óhollustu stuði alla vikuna að ég fæ illt í magan og kúgast við tilhugsununina um eitthvað hollt eins og td. kjúkling og gras (nema kjúllinn sé djúpsteiktur og hellingur af kransæðakítti á grasinu!!). En núna ætla ég að hætta þessari vitleysu aftur og byrja að rækta mig (tók sko vetrarfrí í ræktinni í rúma viku ;) !!!) og borða hollt nema á laugardögum. Jæja er farin að sofa því klukkan er orðin hálf 5! Er orðin alveg sjúklega þreytt, eftir hvað veit ég samt ekki. Kanski eftir allan svefninn í dag (sofnaði líka í næstum 30 mín áður en við fórum í heimsóknina!!), það tekur á að gera ekkert eins og sést vel á því að letingjar og aumingjar séu alltaf þreyttir!! :)

föstudagur, febrúar 28, 2003

...í fréttum er ekkert!! :( Ég labbaði niður á bókasafn áðan og ætlaði að hitta Gumma, þe. trufla hann pínu við lærdóminn og sníkja pening!! ;) En hann var ekki þar!!! Þá fór ég upp í skóla o gleytaði þar út um allt en því miður var enginn Gummi þar heldur!! Hvað gerðu bóndakonur þá?? Nú fóru heim og ákváðu að taka engann kjúkling út úr frystinum því við eigum ekkert til þess að hafa með honum og hékk svo á internetinu til þess að tapa aðeins fleiri heilafrumum en eru þegar horfnar á vit feðra sinna!!!! :) Hehehe ég sé fram á Apu-pizzu í kvöldmatinn ekki amarlegt það, mmmm með kjúkling eða kebab *slurp slurp*

fimmtudagur, febrúar 27, 2003

...ég ætla bara að taka það fram til þess að fyrirbyggja misskilning að við Gummi erum EKKI að fara að gifta okkur heldur er kortið sem ég tala um í síðasta bloggi heillaóska kort handa Sigríði Árnadóttur frænku minni og Hrafnkeli Eiríkssyni nýbökuðum eiginmanni hennar!! Til lukku og eins og ég sagði í nótt þá er kortið á leiðinni, þarf meira að segja að fara í búð á eftir (pósthúsið er inni í henni) og núna ætla ég að muna eftir kortinu!!! Ákvað að koma með þess tilkynningu strax því ég var að fá e-mail þar sem ég var spurð út í þetta!!!

Best að ég segji frá þessu eins og allir aðrir!! Grétar var að setja inn eitthundrað og helvítishelling af myndum af árshátíðinni. Ef þið viljið skoða þær (mamma og pabbi eru skyldug!!!) ýtið þá hérna . Þarna er fullt af misgóðum myndum af okkur öllum svo endilega kíkið ef ykkur langar til þess að sjá hvað ég er sæt og aðrir herfilegir (eða öfugt!!).
...ég er hérna í smá átaki í því að blogga og er að reyna að blogga á hverjum degi núna, það kemur svo bara í ljós hversu lengi þetta átak endist svo hjá mér!! :) Ég gerði nú bara ekkert sérstakt í dag, ekkert sem er vert að tala um!! Ég fékk reyndar óvenju mikið af e-mailum fá vinum og ættingjum og eins og við vitum er það alltaf mjög gaman!! :) Sérstaklega gaman að fá bréf frá Boggu frænku, systur hans pabba, og ætla ég að skrifa henni bréf á móti fljótlega!! Ef hún eða Sirrý dóttir hennar les þetta þá er brúðkaupskort til Sirrýjar og Hrafnkels á leiðinni, eða sko hérna það liggur hérna á borðinu hjá mér því ég bara gleymi því alltaf þegar ég fer í bæinn!! Ég er svo hrikalega gleymin að ég er örugglega með heilaátu eða eitthvað álíka hræðilegt!!! Sá einu sinni þátt um heilann og þar var maður með heilaátu. Hjá honum lýsti það sér þannig að hann, sem hafði aldrei getað teiknað beint strik, var farin að mála þvílíkt flottar myndir!! Sérfræðingarnir sögðu að þetta myndi svo hverfa aftur þegar meira af heilanum væri horfinn. Allt svona finnst mér stórmerkilegt og þess vegna er ég að hugsa um að læra eitthvað um svona þegar ég verð loksins búin með menntó!!!! Í þessum þætti var líka fjallað um mann sem getur ekki þekkt andlit (það kom eitthvað fyrir hann, man ekki hvað). Hann hitti td. 3 stráka og hann vissi að einn þeirra var sonur hans en vissi ekki hver þurfti bara að hlusta eftir því að einhver þeirra segði eitthvað sem gæfi honum vísbendingu um að hann væris sonur hans. Þarna var líka kona sem sá ekki eins og við heldur eins og þegar við skoðum bíómyndir ramma fyrir ramma!! Þetta er óhugnalegt en samt svo heillandi, það finnst mér að minnsta kosti!!!

Annað að frétta er það að við Gummi höldum áfram að glápa á kvikmyndirnar sem við eigum í tölvunni svo við getum eytt þeim út og náð í fleiri til Ara!! :) Í kvöld kíktum við á 8 mile með Eminem og svo á The Usual Suspects. Þær voru báðar mjög fínar. Ég er mjög oft búin að reyna að horfa á The Usual Suspects en það hefur aldrei tekist fyrr en núna!!! Einu sinni var spólan sem ég leygði biluð, næst þegar ég reyndi bilaði video-ið okkar og einhverntímann hreinlega sofnaði ég bara yfir henni. En núna veit ég loksins hver Kæser Söse (hef bara ekki hugmynd um hvernig það er skrifað!!) er, mig grunaði nú eiginlega bara alla einhverntímann í myndinni - hehehe!!! :)

miðvikudagur, febrúar 26, 2003

...pabbi gamli yrði nú alls ekki ánægður með litluna sína ef hann vissi hvað klukkan er núna!! ;) Annars er svo sem ekkert að frétta nema það að ég fór ekki í ræktina fimmta daginn í röð þannig að það er eins gott að ég mæti á morgun (það er sko ennþá þriðjudagur í mínum huga þar sem ég hef ekkert sofnað!) svo ég verði ekki eins og belja á svelli!! Ég fann nefnilega svell í kvöld og það var ansi sleipt, ég rann samt ekki á rassinn!! :) Ég ætla líka að prófa að fara í box á fimmtudaginn með Kristínu ef hún vill ennþá hafa mig með!! ;) Ég hlakka mjög mikið til að prófa eitthvað nýtt í ræktinni og hún sagði að maður fengi handska og allt þannig að þetta er rosa spennó!! ;) Hmmm, ég var að lesa yfir síðasta bloggið mitt og ég gleymdi að segja frá myndinni sem Óli teiknaði fyrir forsíðuna á söngbókinni. Hann tók mynd sem hann átti af Kårhuset (skemmtistaður, aðeins fyrir stúdenta og mig svindlarann!!) og breytti henni í Photoshop (held ég) þannig að hún leit út fyrir að vera teiknuð. Svo teiknaði hann alveg sjálfur mynd af manni (ætli þetta sé ekki bara hann sjálfur!! Hann hlýtur að eiga lopapeysu inni í skáp!!) í lopapeysu með víkingahjálm og íslenska fánann í annarri hendi og íslenska-brennivínsflösku liggjandi hjá sér. Þessi maður liggur svo undir tré fyrir utan Kårhuset sennilega dauðadrukkinn eins og íslendings er von og vísa!! :) Mér finnst þatta alveg rosalega flott mynd og tók meira að segja tvö eintök af söngbókinni með mér heim til þess að eiga myndina!! :) Jámms ég veit að sumir eru skrítnari en aðrir!! ;)

Annað í fréttum: ég horfði á myndina The Others áðan með Gumma og svakalega fannst mér hún krípí!!! Á einum stað gelti ég svoleiðis upp í eyrað á Gumma að hann alveg stökk á fætur, ehemm auðvitað var það gert viljandi sko hérna hmmm!!! :) Mér fannst þetta alveg rosalega góð mynd en ég er fegin að hafa ekki séð hana í bíó!! Eftir hana voru Tommi og Jenni (Tómas og Jónas heita þeir víst á Gumma heimili!!) settir í gang!! Ari var svo mikill snillingur að download-a einum og hálfum tíma af þeim. Mikil lifandi ósköp sem þeir eru fyndnir!! Mér funndust þeir fyndnir þegar ég var lítil en þeir eru ennþá fyndnari núna!!! :) Ég vissi samt ekki að þessir þættir hefðu fengið Óskarsverðlaun, en þeir fengu þau amk. '44, '46 og '48 minnir mig - gaman að því!! :) Eftir Tómas og Jónas (ætli frændi hans Gumma heiti Jónas þess vegna???) skellti ég svo bara Þrumuköttunum af stað!! :) Ég er nefnilega einlægur aðdáandi þeirra þátta (ásamt Jem and the Holograms og næstum allra annarra teiknimynda sem eru vel teiknaðar, já ég veit að ég er ömurleg!!) og var svo dugleg að ladda niður nokkrum þáttum af þeim þar á meðal eru upphafsþátturinn sem er jafn langur og 4 venjulegir, ég varð bara aftur 10 ára og þetta var alveg æðislegt!! :) Ég á reyndar nokkra þætti af Þrumuköttunum og Jem á video-spólum og kíkji oft á þetta þegar ég á erfitt með að sofna!! Núna ætla ég að kveðja í bili og kíkja á barnaefnið á treunni!! :)

Það er örugglega gott að vera í sambandi við barnið inni í sér er það ekki?!?!?!?!

þriðjudagur, febrúar 25, 2003

...þá er eiginlega kominn þriðjudagur og ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hvað klukkan er orðin mikið!! Ég er nefnileg að þvo og þurrkarinn er að stríða mér og er bara helmingi lengur að þurrka allt en venjulega og mér finnst þetta mjög pirrnadi!! Ég heyri þurrkarann samt hlægja af mér í laumi þegar ég loka þvotthúshurðinni - bölvað kvikindið!!! :( Árshátíðin er afstaðin og allt í gúddí með hana, allir skemmtu sér vel og voru misjafnlega fullir!! Þurfti víst að bera suma heim, meðan aðrir voru ælandi inni á klósetti svo klukkutímum skipti!! Enn aðrir voru svo óforskammaðir að æla fyrir utan "sykurmolann" og þurfu þá einhverjir mjög óheppnir að fara út og þrífa það!! Það var æðislegt að sjá alla í sínu fínasta pússi, stelpur í fínum kjólum eða pilsum og strákarnir allir í jakkafötum, þetta var þvílík breyting frá gatslitnu gallabuxunum og íþróttafötunum sem einkenna okkur dagsdaglega!! Einhver spurði okkur Kristínu hvort við værum glæsilegustu stelpur kvöldsins og auðvitað svöruðum við játandi, annað hefði nú bara verið fíflaskapur - hehehe ;) Skemmtiatriðin tókust líka alveg ágætlega þó eitt lagið hafi orðið alveg einstaklega falskt en það kanski passaði bara vel við það því það var um bytturnar okkar þær Jónu og Lovísu - hehehe - nei í alvöru talað þá var það lag alveg einstaklega illa sungið en hin held ég að hafi tekist nokkuð vel. Sumir voru búnir að vera eitthvað stressaðir að textarnir væru "vondir" en allir voru ánægðir og hlógu dátt af textunum um sig enda var ekkert skítkast á neinn heldur bara svona góðlátlegt grín!! Ég lofaði víst mömmu að setja textann um okkur Gumma hérna inn og það er best að halda það loforð svo hún haldi áfram að senda okkur ullarsokka, Cheerios og lakkrís annað slagið!! :)

Lagið er Rabbabara Rúna, svona fyrir þá sem langar að raula með!! :)

Svakalega Sirrý, gasalegi Gummiiiiiiiiiii

Hún er Seyðisfjarðar skvísa
honum oft hún er að lýsa
Já á Seyðisfirði gerist margt sem engum gæti dottið í hug.
Oftast sést hún masa
þar kennir ýmissa grasa
og enginn getur stoppað hana þegar hún kemst á flug.

Þarna er hún svakalega Sirrý
Já þarna er hún svakalega Sirrý
Úhúhú svakalega Sirrý rosa skvísa er hún.

Gummi á gítarinn oft glamrar
og á raddböndunum hamrar
vaskar upp og hangir síðann tölvunni sinni í.
Gamall finnst honum hann vera
og ábyrgð þurfa að bera
án þess þó hann sé nokkuð að velta sér upp úr því.

Þarna er hann gasalegi Gummi
Já þarna er hann gasalegi Gummi
Úhúhú Gasalegi Gummi svaka gæji er hann.

Daglega í ræktinni þau brenna
og sig út og suður glenna
og stefna að því að vera bikiní fær nú í vor.
Á matarkúr þau eru núna
og reyna að halda fast í trúna
að rækta sig svo þau verð' ekki aumingjar með hor:

Þarna er hún svakalega Sirrý
og þarna er hann gasalegi Gummi
Úhúhú frjálslega fólkið sem fríkar alltaf út.


Mér finnast allir textarnir sem þær frænkur Lovísa og Jóna sömdu vera mjög góðir og þær eru mjög sniðugar að finna eitthvað til þess að semja um!! Held að mig vanti þennan hæfileika alveg þó það hafi svo sem aldrei reynt neitt á það, mamma er rosalega sniðug að semja svona texta og ljóð og ræður og alls konar!! Þetta er skemmtilegur hæfileiki en ég er samt ekkert öfundsjúk enda er ég ekki öfundsjúk manneskja að eðlisfari, ég lít bara þannig á hlutina að ég geti gert eitthvað annað í staðinn!! Jæja verð að fara að athuga hvort handklæðin okkar eru farin að bráðna í þurrkaranum eftir allan þennan tíma þar!!! Við sKjáumst seinna!!!



föstudagur, febrúar 21, 2003

...skrammbans!!! Ég var búin að skrifa alveg heilann helling og ætlaði svo að setja link á aðra síðu en var búin að gleyma hvernig átti að gera það og var að skoða mig um á "öllum" þessum tökkum hérna og ýtti á einhvern vitlausan og allt bara strokaðist út!! :( Góða er að núna er ég búin að finna takkann svo í framtíðinni fer ég kanski að linka á alla út um kvippinn og kvappinn!!! Verð að fara að gera eitthvað svoleiðis eða bjóða upp á eitthvað eins og próf eða kannanir eða uppskriftir eða bara eitthvað allt annað en mjög sniðugt svo ég fái fleiri hitt á siðuna mína. Ætti kanski að fara að rífa mig eins og Jóna gerði á Lágmenningu svo þeir linki á mig!! ;) Hmmm, við nánari athugun er það lang gáfulegast því þá þarf ég ekki að finna upp á neinu sniðugu sjálf!! :) Það leiðinlega við þá hugmynd er að þá fara allir að böggast eitthvað í mér og kalla mig feitan og ljótan alka en tja ætli maður lifi ekki?!?!?! Allt fyrir frægðina!! Smá hugleiðing: hvernig fóru Beta Rokk og Katrín að því að verða svona vinsælar??? Þær eru lélegir pennar og eru ekki að bjóða upp á neitt nema skítkast og eitthvað bull skrifað á gelgjísku!! Jæja þá er ég farin að sofa eða lesa eða horfa á teiknimyndir eða hanga áfram á netinu, vá í hvað lífið mitt er innihaldsríkt og bíður upp á margt!!! Hehehehe :)

P.s. vinkona mín sem er að baggsa við að læra lögfræði svo hún geti varið sjálfa sig í framtíðinni sagði mér að ég gæti ekki byrjað að flytja inn General Mills vörurnar til Svíþjóðar því þeir eru í Evrópusambandinu!! :( Þetta finnast mér hreint út sagt hræðilegar fréttir fyrir íslendinga sem eru búsettir hér og já auðvitað líka hræðilegt fyrir sjálfa svíana en þeir vita amk. ekki af hverju þeir eru að missa en það vitum við!!! Mmmm venjulegt Cheerios, mmmm Honey Nut Cheerios, mmmm frosted Cherrios, mmmm Cocoa Puffs *slurp slurp og slef*. Ætla samt að láta ykkur öll á Fróni vita af því að ég sit ekki á rúmstokknum okkar allan daginn og hugsa um hvaða mat ég er að missa af að borða á Íslandi því hér er alveg ljómandi fínn og ódýr matur!!! Það eina sem er leiðinlegt er að fá ekki skyr en því er hægt að redda og búa sjálfur til skyr úr hreinni jógúrt og það er MJÖG gott á bragðið!!! :)

miðvikudagur, febrúar 19, 2003

...ok, ég var að koma heim eftir morgun brennslu á fastandi maga í Feel Good!! Það var alveg frábært að rífa sig upp eldsnemma og glorhungraður til þess að hamast á einhverju tæki eins og fífl!!! ;) Málið er að ég hef bara aldrei verið eins svöng á ævi minni, ég bara ætlaði ekki að komast heim og var farin að sjá Cheerios með mjólk í hyllingum áður en ég var byrjuð á magaæfingunum!! Núna er ég að borða þetta hugleikna Cherrios og þá kem ég því varla niður því ég var svo svöng!!! :S Þetta hefur aldrei gerst áður en ástæðan gæti verið sú að eftir æfingu í gær urðum við Gummi að hlaupa heim því það var söngæfing fyrir árshátíðina heima hjá okkur klukkan 21:00 og höfðum engan tíma til þess að borða almennilega fyrr en eftir gólið!! Ahhh mér er farið að líða aðeins betur, Cheerios er greinilega allra meina bót og ég held að maður ætti að fara að reyna að græða einhverja peninga með því að byrja að flytja vörur frá General Mills inn til Svíþjóðar (Cocoa Puffs er nefnilega líka alveg nauðsynlegt svona til hátíðarbrygða á sunnudögum!!!). Annars ganga árshátíðaræfingarnar bara ágætlega og æfingin í gær var sú besta til þessa held ég bara. Þeir sem eru svo heppnir að fá að hlýða á ómþýðan söng okkar verða samt að taka viljan fyrir verkið því við erum engir proffar og hver veit nema allt mistakist þegar á loksins að flytja verkið fyrir 25 manns!! Ég er samt viss um að þetta verður alveg frábært hjá okkur og að allir eigi eftir að skemmta sér vel við að hlusta á mildar níðvísur um nágrannann!! :) Jæja það er best að fara að læra eða gera eitthvað þaðan af merkilegra, horfa á sjónvarpið, áður en ég skrepp aðeins í skólann!! Við pikkumst seinna!!

P.s. Það er líka að læra að horfa á TíVí-ið, amk. ef ég horfi á eitthvað sænskt!! ;D

föstudagur, febrúar 14, 2003

...jæja þá er ég byrjuð að ýta á stafina á lyklaborðinu eftir langa fjarveru!! Er ekki frá því að ég sé bara stirð í puttunum eftir eina viku án þess að blogga!! Var að skoða hvort það séu ekki margir búnir að skoða síðuna mína og teljarinn er rétt skriðinn yfir 1000, er nákvæmlega 1023! Það er nú alls ekki jafn mikið og hjá sumum öðrum en ég held því fram að það sé betra að halda jöfnum hraða eða fara hægt og sígandi upp á við í staðinn fyrir að fara hratt upp og svo bara búmm allir hætti að skoða og ég verði bara leið!!! :( Annar held ég að ef ég gæti virkjað lesendur mínar í Czech Republic og Portúgal til þess að skoða oftar þá mundi mælirinn alveg þjóta upp!!! Kanada hefur staðið sig aðeins betur en hin áður nefndu og er ég mjög stolt af þeim enda eru engar mörgæsir hjá þeim!!! Get nefnilega orðið alveg standandi hissa á hvað sumt fólk getur látið út úr sér!! Það var svona standandi grínisti hjá Jay Leno einhverntímann fyrir löngu og hann var að gera grín að Kanada. Sagði eitthvað um að þeir þyrftu ekki að hafa her því þeir væru með Bandaríkin öðru megin við sig og mörgæsir hinum megin!!! MÖRGÆSIR?!?!?! Læra þau í USA kanski að ísbirnir éti mörgæsir??? Mér er spurn!!! Það er nú aldeilis glatt á hjalla á Fjarðarbakkanum þegar við náum mörgæs í gildrurnar okkar í fjarðarminninu og upp í fjalli, því eins og allir sannir veiðimenn vita verður maður að vera mjög séður til þess að ná hinni mjög svo slóttugu mörgæs!!! Mmm mmm mmm mörgæsarkjöt er svo gott steikt, soðið og jafnvel viðbrennt!!! BULL!!!!!

Annars hef ég svo sem ekkert að segja merkilegt, er bara alltaf eitthvað að gaula með öðrum íslendingum og þykjumst við ætla að skemmta öðrum íslendingum á væntanlegri árshátíð!! Vona bara að það verði hlegið með okkur ekki að okkur því við erum ekkert vanir gólarar!! En við erum amk að reyna og allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi!! :) OK. ég varð nú aðeins að kíkja inn á lágmenningu áðan til þess að kíkja hvað þeir hefðu skrifað um fótboltann og Jónu!! Mér fannst þetta eiginlega bæði fyndið og sorglegt!! :S En elsku Jóna mín ég hef aldrei fundið hina miklu gleði sem fells í fótboltanum og á aldrei eftir að finna hana því mér finnst fótbolti bara alveg hund-, grút-, ógeðslega leiðinlegur!!! En ég skil samt alveg að öðrum finnist hann skemmtilegur og finnst fótbolta unnendur hvorki betri né verri en annað fólk, bara svona alveg eins og allar aðrar mannskepnur á þessar plánetu!! Það getur ekki öllum fundist það sama skemmtilegt og ég er alveg handviss um að mér finnst alveg hellingur af hlutum skemmtilegir eða áhugaverðir þótt öðrum finnist það ekki!!! Bara svona smá hugleiðing eða eitthvað, þið ráðið alveg en amk. ekki diss eða neitt þannig á aðra!!! Ég er farin að bursta, við skjáumst!!

föstudagur, febrúar 07, 2003

...þá eru fyrstu skóladögunum lokið. Ég reif mig upp eldsnemma í morgun, þe. fyrir klukkan sjö, til þess að skakklappast í skólann klukkan hálf 8. Það tekur nefnilega svona um 25 mínútur að labba þangað en ég er miklu fljótari að labba heim hvernig svo sem stendur á því!!! ;) Ég var sem sagt mætt galvösk rétt fyrir klukkan átta og beið og beið fyrir utan stofuna. Þá kom einhver kerling aðvífandi og sagði að kennarinn okkar sem heitir Karen Jans- eða Jonsson væri heima með veikt barn. Hvað átti ég að gera þá?? Það var um margt að velja, td. að fara heim en hver nennir að labba í 25 mín heim til þess að stoppa þar í svona 1 klst og labba svo í 25 mín aftur til baka?? Var að gæla við að finna mér þægilegan sófa eða stól eða jafnvel bara bekk til þess að leggja mig á en tók svo þá hetjulegu ákvörðun að læra bara!!! Er núna sem sagt búin að lesa 53 bls í Angela's Ashes og þá eru bara svona 400 bls eftir!!! Nóg að gera hjá mér á næstunni því við alla þessa lesningu bætist önnur bók á ensku, 20 textar og eitthvað meira + það sem þarf að lesa í sænskunni!! Í dag þakka ég Guði fyrir að ég hef gaman af því að lesa og er komin með þann þroska (vonandi) að leyfa kennurum að skipa mér fyrir um hvað ég les!! ;) Það er af sem áður var þegar ég var á mótþróaskeiðinu og bara harðneitaði að lesa einhverjar hundleiðinlegar bækur eftir Halldór Laxnes og Þórberg Þórðarson eða einhverja hundgamla eða löngu dauða enska rithöfunda. Versta við þetta mótþróaskeið er að ensku bækurnar eru allar þrælskemmtilegar, gluggaði nefnilega í þær þegar ég var hætt í skólanum!!! Kanski maður láti þetta sér að kenningu verða og hraði sér í gegnum Angela's Ashes og kíki svo á bíómyndina, hef séð hana og hún er alveg þræl mögnuð!!

sunnudagur, febrúar 02, 2003

...undur og stórmerki gerast enn!!! Það er aldeilis hvað dugnaðurinn hellist allt í einu yfir mann!! Ég, hún Sigríður Jónsdóttir dóttir Grétars Fúsa fékk hreinlætisæði áðan og ákvað að taka frekar baðherbergið í gegn en að horfa á Bravehart í 3 klst og 20 mínútur!!! Skil bara ekki hvað gerðist, ég ákvað að horfa nú á þessa mynd því ég hef aldrei séð hana í heilu lagi bara einn hluta hér og annan þar en ég bara gat það ekki því baðherbergið kallaði á mig "Sirrý, Ssssiiiirrrrrrrrrrrýýýýýýýýýýýýýý, komdu að þrífa mig ég er svo skítugt að það er ógeðslegt!!!! Baðherbergið fékk sínu framgengt, ég gaf skít í bíómyndina og fór að þrífa skít í staðinn!! :) Núna er bara allt hitt eftir og vonandi verð ég í eins miklu þrifa stuði á morgunn og í kvöld! Hmmm, annars er ekkert að segja því ekkert hefur gerst!! Ég var veik á fimmtudag og föstudag og ákvað þess vegna að taka því líka rólega á laugardaginn. Stalst reyndar yfir til Lovísu að spila með krökkunum á föstudagskvöldið en það er svo stutt yfir til hennar að það telst varla til þess að fara út! :) Er orðin eins frísk núna og jafn óheilbrigð manneskja eins og ég getur orðið og ætla þess vegna að vakna snemma í fyrramálið til þess að panta tíma hjá honum Joakim námsráðgjafa svo ég geti farið að byrja að skólast aftur!!

Ef Anna, systir hennar Jónu, les bloggið mitt þá ætla ég að þakka henni fyrir að skrifa í gestabókina hennar Jónu aðhenni finnist nýja hárið mitt flott!! :) Reyndar er þetta ekkert nýtt hár, heldur það gamla sem er búið að klippa -hehehehehehehehe- ó ég er svo fyndin!! Held ég hætti að pikka áður en ég verð ennþá fyndnari, er ekki viss um að lesendur mínir myndu þola slíka og aðra eins fyndni og gæti hugsanlega olltið upp úr mínum óendanlega bull brunni!!! Góða nótt!!!

föstudagur, janúar 31, 2003

...það er nótt núna og ég er ekki sofandi! Ég er nefnilega lasin og svaf í allan heila dag og dreymdi hræðilega illa!! :( Ég átti að fara upp í KomVux og fá skýringar á hvernig námið á að vera hjá mér en þessi námsráðgjafi sem man ekki neitt var búinn að segja mér það. Ég hringdi auðvitað þangað og lét vita að ég kæmist ekki sökum flensu, lagðist aftur upp í rúm o gsofnaði svefni hinna réttlátu og veiku. Gummi var svo duglegur að "elda" Norrmalm (matvörubúð) kjúkling og kartöflustrá og svo keypti hann ponku, smá, pínu nammi handa veiku stelpunni með skeifuna!! ;) Undarlegt hvað ég get hugsað mikið um nammi stundum, það hefur sem betur fer farið mjög mikið minkandi, og svo loksins þegar það er búið að kaupa nammið þá borða ég smá og langar svo ekkert í meira en get samt ekki hætt!! Í þau skipti sem við Gummi ákveðum að fara og kaupa nammi þá finnst mér við aldrei vera búin að kaupa nóg er sa,t farin að treysta Gumma fyrir því hve mikið þarf að kaupa því hann kaupir aldrei alltof mikið eins og ég heldur bara svona akkúrat!! Ég er aftur á móti kanski búin að setja eitthvað í poka en finnst það aldrei vera nóg, ég moka og moka allskonar góðgæti ofan í þessa alltof stóru bréfpoka en vil svo helst kaupa líka súkkulaði og nammi sem er fyrirfram búið að setja í poka (hópnammi). Ætla að fara að láta Gumma alfarið sjá um þessi kaup á laugardögum því ég er ekki hæf til að ákveða hvað er mikið, hvað er lítið og hvað er ákkúrat!! Ætla að taka það fram við Ara og aðra sem þekkja til mín að ég er eiginlega komin með ógeð á krítum og tja öðru nammi eiginlega líka!! Það er samt eins og það sé búið að heilaþvo mann í því að á laugardögum á mann að langa í nammi og líka þegar maður ert slappur!! Það skrítna er að maður kaupir nammi því maður heldur að mann langi í það en svo þegar heim er komið kemur bara akkúrat hið gagnstæða í ljós!! Ég er viss um að það er samsæri í gangi hjá sælgætisframleiðendum og heilbrigðisyfirvöldum! Það er örugglega eitthvað efni í öllum þessu flensusprautum og barnaveikissprautum sem er búið að dæla í okkur í gegnum árin, efni sem lætur okkur verða alveg galin í sælgæti!! Hmmm hljómar ekkert ósennilega!!! ;)

þriðjudagur, janúar 28, 2003

...bloggedí bloggedí blogg blogg blogg!!!! :) Er hérna að reyna að bæta mig í blogginu! Ég er að fara í próf á morgun og ég nenni því ekki, á að athuga hversu góð ég er í ensku og hversu léleg ég er í stærðfræði. Var nú alltaf alveg ágæt í stærðfræði en þetta er samt eitthvað sem maður gleymir um leið og prófinu er náð til þess að búa til pláss fyrir allt hitt ruglið sem menntamálaráðuneytið segir að sé alveg nauðsynlegt að kunna til þess að verða stúdent!! Ég er samt alveg hundfúl við þetta KomVux-pakk og er að hugsa um að taka ekki stærðfræðiprófið fyrr en ég er búin að rífa mig niður í rassgat því ég er búin með alla stærðfræðina sem ég á að taka á Íslandi! Nú hugsa sjálfsagt einhverjir "en þú ert ekki á Íslandi" og því svara ég bara með "mér er alveg sama!" Ekki eru Svíar sem hafa tekið nokkur ár í frí frá skóla vinsamlegast beðnir um að taka próf til þess að athuga hvort þeir muni ekki örugglega hvað þeir eru búnir að læra og þess vegna ætla ég ekki að gera það heldur!!! Það er líka vitað mál að yfirleitt læra Íslendingar mun meiri stærðfræði heldur en Svíar og samt er verið að minnka stærðfræði í skólum hérna því þeim fannst þetta svo mikið og erfitt! Það er ok með þetta ensku próf því enska er ekki stærðfræði, maður gleymir ekki ensku því það er nánast allt á ensku í sjónvarpinu og maður notar hana miklu meira!! Það eru engir þættir á stærðfræðísku í sjónvarpinu og ég tala ekki í jöfnum og vektorum og hvað þetta heitir nú allt saman þannig að auðvitað er þetta allt löngu týnt og tröllum gefið plús það að ég er ekkert búin með ensku í menntaskóla en er búin með stærðfræðina eins og áður er ritað!! Jæja er farin að æfa mig í að rífa kjaft á sænsku og biðja um að fá að tala við skólastjórann eða hærri menntamálayfirvöld ef það gengur ekki að rífast við námsráðgjafann eða hvaða starfsheiti hann Joakim Wetteneitthvað hefur!! Ætla sko ekki að láta toga mig niður í barnaskólastærðfræði baráttulaust (þyrfti örugglega að fara þangað því ég er svo hræðilega mikið búin að gleyma - hvað er aftur deiling???). ;)

mánudagur, janúar 27, 2003

...ég veit ekki hvað ég á af mér að gera meðan ég er að bíða eftir að þurrkarinn klári svo það er best að nota þennan tíma í blogga eitthvað djöfulsins bull!! Eins og allir eru búnir að blogga um þá var Íslendingapartý um helgina og það var bara geðveikt gaman og óþarfi að tala meira um það, ég reyndar missti af þessum eftir- og eftireftirpartýum því ég fór niður til okkar að pissa (búum á hæðinni fyrir neðan Gísla) og bara kom ekkert upp aftur!! Það eru tvær mögulegar ástæður fyrir því, nr.1, ég pissaði næstum því á mig og var svo drullu full að ég var ekki viðræðu hæf og var bara með kjaft eða nr.2, Gummi er svo æðislegur (og ég líka) að við gátum bara ekki slitið okkur frá hvort öðru þegar við hittumst loksins aftur!!! Hmmm, ég hallast að hinu síðarnefnda því eins undarlega og það kann að hljóma töluðum við Gummi næstum því ekkert saman allt kvöldið því við vorum alltaf að tala við einhverja aðra!! Hvaða mistök voru það eiginlega?? Það eru engir skemmtilegri en við!!! ;)

Ok, best að fara að tékka á þurrkaranum, fyrsti í hreingerningu er búinn (skipta á rúminu) og verður áframhald á morgunn eftir skóla og rækt og Willy's (verð að kaupa all in one hreingerningu frá Ajax). Virkar þetta Ajax drasl ekki þanni gað maður tekur tappan af og stillir flöskunni í mitt herbergið og fer í út í 30 mín. og þegar maður kemur aftur heim er allt orðið skínandi hreint og komið svona X á eldhússkápshurðirnar?!?!?! Þetta sýna þeir amk. í auglýsingunum og ef þetta gerist ekki eiga þeir von á kæru frá mér fyrir villandi auglýsingar!!!!

föstudagur, janúar 24, 2003

Ammæli ammæli ammæli!!! :)
...ok, ég veit að það er langt síðan ég hef bloggað og ástæðan fyrir því er andleysi!! Algjört andleysi er að ganga hjá Íslendingum í Skövde, amk. bera allir bloggarar sem bloggeftirlitskonan hefur heimsótt því við og hvað getur hún svo sem gert við því?!?!?!

Ég er hetja, já það er alveg satt!! Ég fór í bæinn í dag með honum Ara og bar heim, alveg alein, 10 bjóra, 2 stóra cider, 2 xider, fullt af mat og 1/2 kg af snakki!! Ari var svo góður að halda á 2 bjórum og gítarstrengjum fyrir mig og þess vegna er hann karlmenni!!! ;) Það er nefnilega partý á morgun og ég ætla að vera haugadrukkin, æla og drepast einhversstaðar og verða svo hræðilega þunn og svöng í allt sem er óhollt!! Hmmm, þegar ég les yfir þetta hljómar þetta ekkert voðalega rokkað svo ég sleppi því að æla, drepast og verða þunn en hitt má alveg standa!! :) Ég hlakka amk. mjög mikið til og ég veit að Gumma pínulítið flensuslappa hlakkar líka til og þess vegna er hann að reyna að láta sér batna og skipta um gítarstrengi á sama tíma! Kanski tilnefni ég hann hetju dagsins því hann er búinn að vera svo svakalega duglegur! Ég nefnilega fór út á flakk með öðrum manni og setti hann bara í þvottinn á meðan!! Ok, ekki í orðsins fyllstu merkingu en litla hetjan mín þvoði 3 vélar af þvotti á meðan ég var að kaupa áfengi og grænmeti!!

Fréttaskot til Íslands: Ég er búin að klippa af mér allt hárið, er með alveg stutt, stutt, stutt hár og ég gerði það sjálf með örlítilli hjálp frá Gumma hetju!! Fékk bara algjört ógeð á þessu síða hári og *klipp* *klipp* *klipp* allt í vaskinn, á gólfið og í ruslið!! Því miður er ennþá fullt af hárum út um allt baðherbergi því þeim tekst alltaf að fela sig þegar ég birtist blaðskellandi með fína rauða kústinn og fægiskófluna sem er í stíl!!!

laugardagur, janúar 18, 2003

...mmmm ég elska nammidaga, þeir eru algjörlega nauðsynlegir og alltof langt að hafa þá svona einu sinni í mánuði eins og ég geri!!! :Þ Hehehehehehe Fór nú samt og ræktaði mig áðan og núna er ég orðin miklu stærri og farið að sjást í brum á puttum og tám, kanski aðeins of snemmt því það er ennþá langt til vors en auðvitað er gróðurinn orðinn alveg kolruglaður í þessum hita- og kuldaköstum sem dynja á okkur alveg hægri vinstri! En þar sem það er nammi/óhollustu dagur þá fórum við á McDonalds og fengum okkur hammara, pommes og McFlurry. Ég var nú ekkert hrifin af því hvað gæinn hrærði minn illa svo ég fór og kvartaði en þeir misskildu mig eitthvað og gáfu mér meira nammi í hann og smá snúning í McFlurry-hrærivélinni! Ég var ekki óánægð með að fá meira nammi enda finnst mér oft vera farið alltof nískulega með sælgætið þegar maður er að kaupa sér bragðaref eða eitthvað afbrygði af honum!!

Í kvöld virðast sumir ætla á djammið en aðrir ekki, td. ætlum við Gummi að vera stillt heima eða heiman (við erum alltaf stillt, amk ég en Gummi er oft svolítið vanstilltur finnst mér) ;) Ef það verður eitthvað partý er ég að hugsa um að kíkja en áfengi NEI TAKK, ég er orðinn templari og ojbara og ullapæ - eða já já er það ekki?!?!?! Það er best að taka allt svona alveg út í ystu æsar og núna fyrirlít ég fólk sem bragðar áfengi, fer í ljós eða borðar eitthvað með augu eða sem á eftir að fá augu (td. egg)!! Já þetta er manneskjan sem ég ætla að vera þessa viku og Guði sé lof að hún er búin um miðnætti!! :)

þriðjudagur, janúar 14, 2003

...hérna sit ég í kulda og trekki!! Ég er ekki að kvarta um kulda í herberginu mínu núna enda getur varla verið kalt hérna inni því það er hiti úti, snjórrinn farinn að bráðna og komin hálka!! En ég er með galopinn glugga og opið fram því ég var að elda og það er svo mikil sveppasteikingarfýla hérna inni!! Fór áðan inn í þvottahús að þvottahúsast, þegar ég var að labba inn í herbergi aftur (það var opið fram hjá mér á meðan) fann ég þessa skrýtnu fýlu og hugsaði "hvað voru þessi strákfífl að elda sé núna?" En lyktin varð sterkari þegar ég var komin fram hjá eldhúsinu og viti menn hún kom frá mér!! Þannig að ekki veitir af að lofta út úr þessu annars yfirleitt svo vellyktandi herbergi (eða er það ekki Ari?)!!! ;)

Annars er lítið að frétta af mér, nei nú lýg ég!!! Var í KomVux í dag að tala við Joakim flö námsráðgjafa (held ég) og ég er að fara í sænskupróf á fimmtudaginn klukkan 13:00!! Nú er ég allt í einu orðin kvíðin og get ekki komið mér að því að kíkja í bók! :( Málið er að ef mér gengur vel get ég byrjað að menntaskólast en ef mér gengur illa verð ég að vera í þessu fu***ng SFI kjaftæði lengur og ég bara meika það ekki!! Ég þarf ekki að læra stafina aftur ég gerði það þegar ég var 6 ára og hef haldið í þá þekkingu síðan þá! Ég spurði nú einmitt bara hreint út hvaða fíflaskapur það væri að hafa norræna nemendur meðöllum hinum innflytjendunum (ég er ekki kynþáttahatrari). Ég fékk ekkert svar en hann yppti þess í stað mjög fagmannlega öxlum!! Virtist vera mjög vanur þeirri hreyfingu!!!!! Reyndar finnst mér að það eigi að vera 2-3 bekkir í sænsku fyrir innflytjendur, 1 fyrir fólk sem talar nánast sama málið (við, Norðmenn, Danir, sumir Finnar, jafnvel Þjóðverjar). Annar fyrir fólk sem talar allt öðruvísi og algjörlega óskylt mál en notar samt sömu stafi og við og númer 3 fyrir fólk sem þarf að byrja alveg frá grunni þ.e. læra stafrófið og hvernig stafirnir eiga að vera í línunum eins og lítið p er með angan niður fyrir línuna en stórt P stendur á línunni!! Ég átti mjög erfitt með mig í tímanum þegar farið var í stafrófið og langaði mest að labba út og halda heim á leið! Ekki það að ég líti niður á fólk sem þarf á þessari kennslu að halda, auðvitað þurfa þeir sem alltaf hafa skrifað með táknum eða myndum á þessu að halda en við hin vorum bara alveg að klepra á meðan!!! Samt geðveikt flott að sjá hvernig þau gera þessi tákn eða myndir eða hvað þetta nú heitir! Ég sat hliðina á fullorðinni konu sem var einhverstaðar frá (auðvitað einhverstaðar, ekki var hún frá einskinsmannslandi!!!), hún átti mjög erfitt með að skrifa stafina okkar en þegar hún var að skrifa á sínu eigin móðurmáli - vá í - hvað það var flott, þetta var eins og lystaverk en ekki glósur! Það var líka kona frá Tælandi með mér í bekk og hún skrifaði með því að teikna nokkurnskonar myndir, ekki svona eins og múslímar gera heldur meira eins og margar litlar myndir (ekki kínverskt eða japanskt). Ekki eins flott og hitt og mynti mig óneitanlega á leynimál sem ég og frænka mín gerðum okkur þegar við vorum litlar!! :) Vá hvað ég er búin að skrifa mikið um þetta mál og svo er þetta örugglega ekkert skemmtileg lesning!! :( Hmmm, greyið þið sem lásuð þetta!! Hehehehe Ég er farin að gera eitthvað, kanski lesa sænsku, kanski vaska upp, lífið býður upp á svo ótal marga möguleika!!!

mánudagur, janúar 13, 2003

...undur og stórmerki gerast enn!!! Já,því ég vaskaði upp á laugardagskvöldið, tja eða var kvöld? Klukkan var rétt rúmlega 17 en við vorum amk að fara að borða kvöldmat!! :) Við ákváðum að Apúast og fengum okkur Sandras special sem er feikilega góð pizza með kjúkling, dósasveppum, 2 ananashringjum, hvítlaukskryddi og karrý! Þetta er þvílík og önnur eins snilld og ég er farin að hlakka til þegar mamma og pabbi koma í heimsókn (hvernær verður það eiginlega?) því þá ætla ég að kaupa svona pizzu, kebabpizzu og einhverja eina en rosalega góða pizzu! *slurp* Hmmm, hvað er búið að gersast upp á síðkastið?!?!?! Jú hún Jóna litla átti afmæli og í tilefni þess mættum við Lovísa í herbergið hennar og sötruðum smá áfengi (ég drakk bara 2 cider og 1 bjór alveg satt) . Við ætluðum að kíkja á kaffihús í bænum en svo var orðið svo áliðið að við fórum á Kåren, held þetta hafi nú bara verið í fyrsta skipti sem íslendingar eru seinir á því eða hvað??? Ok, ég var með 100 sek með mér, borgaði mig inn og keypti 4 bjóra og á 10 sek í afgang og þykir mér þetta bara mjög vel sloppið! :) Hmmm, annað markvert sem hefur gerst?!?! Aha ég er loksins búin að skipta um spurningu í gestabókinni minni og allir verða að skrifa upp á nýtt - hehehehe!!

Ok, nú er klukkan loksins orðin 06:02 og þá er bara einn og hálfur þangað til klukkan hjá Gumma fer að pípa, ji hvað ég hlakka til!! Það er svo einmannalegt að sitja svona ein um nótt eða morgun eða hvað það á nú að kalla þetta!! En í dag sofna ég ekkert svo sólarhringurinn komist á réttuna hjá mér!! Ég sem var svo dugleg á laugardaginn að sofna ekkert (ok, sofnaði í smástund með Gumma eftir kvöldmatinn) en svo var ég bara dregin á djammið með öllum illum látum og þá snérist sólarhringurinn aftur við og er alveg ramm öfugur - HOMMI !!!

Er farin að kíkja á barnaefnið, það byrjar nefnilega svo snemma á virkumdögum eða klukkan 06:00!! Ekki amarlegt að kíkja á nokkrar teiknimyndir og æfa sig í að hlusta á sænsku með miklum látum í bakgrunninum!! Hef nefnilega komist að því að það er bara erfiðara að skilja sumt barnaefni heldur en "fullorðinsefni" útaf því að það er oft svo mikið af öskrum og látum í bakgrunninum eða þá karakterar sem tala alveg óskiljanlega fáránlega! Kanski ekkert skrítið að það sé oft á tíðum (hei, ég hef oft á tíðum!!) erfitt að skilja barnaefni hérna þegar maður á oft í stökustu vandræðum með að skilja hvað þeir eru að reyna að böggla út úr sér í íslenskabarnatímanum!!! Röflið búið, ég er farin að stara (maður skilur oft betur ef maður starir á TíVí-ið eins og hálfviti) á krakkaefnið!!

laugardagur, janúar 11, 2003

...til hamingju með að vera orðin svona gömul Jóna mín!! :* Ég fylgi bráðum í fótspor þín (30. apríl - það er ekkert svo langt þangað til!!!) en þangað til ætla ég að njóta þess að vera ung og falleg!! ;) Ertu búin að finna einhverjar hrukkur? Fannst ég sjá nokkrar í myndun þegar við vorum að spjalla til klukkan 06:00!! Hehehehe Sjitt (svona á að skrifa þetta orð á íslensku) hvað hún á eftir að skjóta á mig þegar ég verð 23ja en tja ég lifi!! :)

Annars ekkert að frétta, ég er ennþá að vinna í að snúa sólarhringnum við og ég tek það fram að ég vaknaði um klukkan 07:00 í morgun!! Ætti kanski að sleppa því að taka það fram að ég svaf í allan gærdag og fram á kvöld og sofnaði svo rétt á undan Gumma í nótt!!! Það er eitthvað athugavert við þennan svefn og ég held að það heita hreinlega bara leti og það al-íslensk afbrygði af þessum hvimleiða sjúkdóm!! Nú er bara að tölvunördast í allan dag og taka kanski pínu til (ef ég nenni :þ) og þá ætti mér að takast að halda mér vakandi fram yfir kvöldmat!! Hei, það er nammidagur í dag þannig að ég get notað sætindi í kílóavís til að halda mér gangandi!! Hljómar ekki amarlega eða hvað finnst ykkur?

fimmtudagur, janúar 09, 2003

...ég er vöknuð, vaknaði klukkan 6:00! Kanski ekkert skrítið þar sem ég svaf meirihlutann af gærdeginum og sofnaði svo í öllum fötunum um klukkan hálf tvö í nótt!! Mér var eitthvað svo kalt að ég var að kúra mig undir sæng og hlusta á Spaugstofuna og horfa á Gumma sofa og svo bara búmm sofnaði ég líka!! Spaugstofan er ekkert smá fyndin, held þeir séu bara betri en þeir voru áður. Ástæðan fyrir því gæti líka verið að ég er eldri og skil meira en ég segji bara TAKK elsku tengdó fyrir að senda okkur þetta, við eigum svo eftir að kíkja á þáttinn með Jóni Gnarr og ég þarf að horfa aftur á síðustu þættina af Spaugstofunni því mínir elskulegu foreldrar hringdu í gærkveldi! :) TAKK pabbi fyrir að skrifa í gestabókina mína og með þessu áframhaldi verðurðu komin með eigin bloggsíðu eftir svona 70 ár - hehehehe - en ég var ekkert smá ánægð þegar ég sá að þú hafðir loksins kvittað fyrir komu þína!! :* Í dag byrjar svo heilsuátakið hjá mér aftur eftir 3ja vikna jólafrí og ég held upp á það með því að fá mér fjólubláann tröllatópas í morgunmat!! :) Málið er að við Gummi erum búin að úða í okkur nammi síðustu tvo daga til þess að klára nammið sem við eigum, viljum nefnilega ekki eiga það til því þá freistast maður alltaf til þess að vera að narta í það og það er vont fyrir tönslurnar og mallann og hana nú!! Þetta hefur gengið eitthvað hálf illa hjá okkur því við borðuðum svo lítið nammi um jólin, held meira að segja að ég hafi af-sykrast yfir jólin í staðinn fyrir að of-sykrast eins og venjan er!! Var eyndar rosalega veik um jólin og hafði ekki mikla lyst en eftir að mér batnaði var ég ekkert að sleppa mér í nammið eða matinn, hef nefnilega komist að því að maður nýtur þess betur að borða ef maður borðar ekki yfir sig! Hvað er líka gaman við að borða svo mikið af geðveikt góðum mat að maður sé með samviskubit í 8 klukkutíma eða meira eftir það, ég bara spyr?!?!?!?!

miðvikudagur, janúar 08, 2003

...þá er maður loksins komin heim og loksins erum við sameinuð honum Ara okkar aftur, eftir yndislegt jólafrí í Gislaved. Það var rosalega gott og gaman að vera þar en líka æðislega gott að koma heim aftur og ég er viss um að fjölskyldan mín við Granatgatan er alveg sammála þessu, gott að hafa okkur en líka gott að losna við okkur afæturnar aftur!!! :) Annars var bara æðislegt hjá okkur, mikið talað, hlegið, sullað soldið og slappað alltof mikið af, svo mikið að ég átti orðið erfitt með að koma mér fram úr rúminu fyrir klukkan 17:00 á daginn (hmmm, hljómar nú alls ekki líkt mér!!) ;) En ok, við erum amk komin heim og ég er meira að segja búin að taka upp úr töskunum og koma flest öllu fyrir og fara að spila hjá Lovísu og Jónu, við Gummi og Ari gátum ekki látið það heimboðið fram hjá okkur fara þannig að við lulluðum yfir þegar við vorum búin að borða Apu-pizzurnar okkar og erum tiltölulega ný komin heim aftur! Jóna var svo æðislega hugulsöm að hún færði okkur Gumma smá íslenskt sælgæti (Prins Póló, Pipp, karamellur og fleira góðgæti) og harðfisk. Mmmm harðfiskur er svo góður og ég hlakka svo til að fara að narta í þennan, annar pokinn er keyptur en pabbi hennar gerði hinn sjálfur, amk. held ég það!! Það er varla að maður tími að borða þetta góðgæti!! Skrýtið að þegar maður er á fróni borðar maður nánast aldrei harðfisk eða rauðan ópal en um leið og maður er komin út fyrir landsteinanna uppgötvar maður hversu mikið sælgæti þetta er og slefar við tilhugsunina!!! Þegar ég var í Finnlandi var mér einu sinni gefinn einn pakki af rauðum risa ópal og ég smjattaði og kjamsaði á því og var marga daga með pakkann, borðaði svona 2 ópal á dag!! Ég hakkavélin í mannslíki get virkilega treynað mér það sem mér þykir gott og það er ágætt að vita að þetta er mögulegt þó það reyni ekki oft á það!! Ok. nóg af blaðri í bili, ætla að fara að leggja mig því það er nóg að gera á morgun við að endurskipuleggja herbergið okkar og endurbyggja matarforðann í ísskápnum!! En ég lofa ykkur mínir dyggu lesendur (hversu fáir sem þið eruð eruði samt mikilsmetnir) að núna verður aftur reglulegt blogg á þessari síðu eftir næstum 3ja vikna jólafrí! Ég hefði svo sem alveg getað bloggað í fríinu en nennti bara alls ekki að skrifa með sænsku lyklaborði og svoleiðis er það nú bara!!! Við skjáumst seinna!! :)