þriðjudagur, janúar 31, 2006



...tók þessa mynd úr albúminu hjá Möddu, fannst hún eitthvað svo sæt. Er samt ekki að deyja úr egóisma og var ekki að læra að setja inn myndir, hef bara ekki verið með neinar myndir til að setja inn áður. :)

Erum nýbúin að skila pabba út á flugvöll og núna er hann í loftinu að nálgast Egilsstaði. Leiðinlegt að hann sé farinn en gott að hann þurfti ekki að vera lengur því það þýðir að augað er í lagi. Veit bara ekki hvað ég á að borða á næstunni, orðin svo góðu vön eftir að hafa borðað úti í hádeginu, um miðjan dag og á kvöldin á meðan karlinn var hérna. Verða engar súkkulaðikökur eða endalaust flæði af kaffi á næstunni , á örugglega eftir að fara í fráhvörf og blogga um höfuðverk og niðurgang á næstunni...

mánudagur, janúar 30, 2006



...er að hlusta á diskinn sem þessi góði og skemmtilegi jólasveinn henti inn um bréfalúguna hjá mér á aðfangadag. Sveinki karlinn kemur svo sannarlega á óvart með skemmtilegu lagavali, tæknikunnáttu og persónulegum upplýsingum á blaðinu sem fylgdi með disknum þar sem fram koma nöfnin á lögunum og flytjendunum ásamt nokkrum línum um hvað honum finnst um þau. Takk elsku Kertansíkir, ég hef alltaf sagt að þú værir bestur. Ætti eiginlega að koma með nokkur kerti handa þér næst þegar ég kíkji í kaffi. Geri það ef ég man...

laugardagur, janúar 28, 2006

...það var kominn tími á einn góðan dag eftir alla þessa hræðilegu daga og nætur sem ég hef átt undanfarið. Pabbi karlinn kom í borgina í dag, reyndar ekki í neinum gleðierindum því hann var hjá lækni að láta skoða augað sem hann fékk eitthvað drasl í betur. En við erum búin að labba borgina fram og aftur, drekka kaffi, borða með Gunnari og spjalla helling. Voðalega notalegt og skemmtilegt.

Þar sem ég hef átt marga slæma daga í röð hef ég ekki frá mörgu að segja, amk ekki sem mig langar að segja. Það helsta af því sem er ekki niðurdrepandi er:
*Strákarnir vöskuðu upp!!! *JEIJ*
*Ég neitaði að hjálpa þeim og bar fyrir mig miklar hreingerningar og uppvösk fyrr í mánuðnum sem ekkert tillit var tekið til!
*Horfði upp í loftið.
*Horfði á dvd.
*Horfði á Gunnar.
*Horfði í spegil.
*Horfði inn á við.
*Horfði á bók, nennti ekki að lesa hana!
*Spilaði BubbleShooter á leikur1.is og varð úr því ég er rangeygð þegar ég var alveg að ná metinu hans Gunnar! *SVEKKJ*
*Fór í langt, heitt, gott og mjög þarft bað einn daginn! Ykkur til ánægju hef ég haldið hreinkunni (er það ekki orð eins og brúnka???) við síðan svo það er óhætt að hita mig!! ;)

Sko mikið að gerast alltaf hreint, fer alveg að verða meira að gerast hjá mér. Bíðiði ekki spennt eftir að vita hvað það verður? Það er ég viss um...

laugardagur, janúar 21, 2006

...dagurinn í dag hefur einkennst af svokölluðu "white-trash" heilkenni sem virðist hafa hellst yfir mig í nótt. Byrjaði á að ég svaf yfir mig á fund sem ég átti í morgun. Rétt drallaðist á fætur, tróð mér í götóttar bómullarsokkabuxur, íþróttabuxur sem meiga muna fífil sinn fegri hvað varðar útlitið, girti þeim ofan í rauð stígvél og skellti húfu á úldinn hausinn sem eitthvað skreytti sem eitt sinn var kallað hár en hefur í dag líkst meira ull. Staulaðist svo út, óð snjóskafla og var hálf dauð í flughálum brekkum, lafmóð og bölvandi yfir að þurfa að vera mætt svona snemma eða klukkan 14. Hélt stuttu seinna aftur heim á leið, álíka mygluð og áður en örlítið geðfúlli, með smástoppi í Melabúðinni þar sem ég fékk valkvíðakast af verstu gerð og var í hálftíma að ákveða að kaupa mér cappucino, 70% súkkulaði, pestó og hrökkbrauð. Er ekki frá því að gamla fólkið sem var að kaupa þorramat í stórum stíl, öskrandi eftir mysu og ósöðinni blóðmör hafi verið orðið jafn hrætt við mig og ég við það eftir að ég labbaði í 13 skipti hring um búðina til að skila vörum og velja aðrar, talandi við sjálfa mig og rekandi mig utan í allt og alla. Þegar fúla konan komst loksins heim á leið beið hennar þó smá gleði, einn af sambýlingunum var að gera sér góðan dag í mat og drykk og splæsti smá rauðvíni á konuna. Sæl í bragði tók ég við veigunum sem voru bornr fram í mjólkurglasi og skreyttar með smá kork sökum skorts á tappatogurum. Þvílík munaðarvara hefur aldrei sést á Neshaga 7 svo gamall og boginn eldhúshnífur er yfirleitt notaður til að redda því sem hægt er. Eftir 2 glös af drykk fágaðafólkins var ég orðin ansi glöð en þá kom karlinn minn heim sem hefði verið alveg ágætt ef hann hefði ekki ákveðið að laga rúmið okkar. Það var bilað áður en er bilaðra núna þar sem hann ætlaði að rétta einn rúmfótin en braut hann óvart af. Ok ekkert svo hræðilegt, hægt að setja bækur undir og allt það hugsið þið kannski en nei það er ekki hægt. Afhverju? Því allar bækurnar eru undir öðru horni á rúminu!! Jájá í nótt þarf ég að sofa í rúmi sem vantar á báða "til fóta" lappirnar og bækur og parket eiga ekki vel saman, bækurnar vilja renna ef maður byltir sér aðeins of harkalega!

Hér með er sem sagt án gríns óskað eftir styrkjum til rúmakaupa, góður tíma núna þar sem það eru útsölur. Látið ekki ykkar eftir liggja, sendið okkur aur svo ég verði ekki á endanum alvöru "white-trash" kona og þurfi að flytja bæklaða rúmið mitt í hjólahýsi á Reykjarnesi! Ef enginn á pening aflögu fyrir rúmi eru rauðvínsglös og tappatogari vel þegin svo ég þurfi ekki að drekka meiri kork úr mjólkurglösum meðan ég sit í hjólhýsinu og bíð eftir að rúmið hrynji alveg...

fimmtudagur, janúar 12, 2006

...litlu hlutirnir hafa gert mig svo glaða í dag og í gær. Í gær var ég ofboðslega hamingjusöm yfir að flestir sokkarnir hans Gunnars eru með orðum eða myndum efst á snúningnum því þá var svo auðvelt að flokka þá. Í dag er ég hamingjusöm yfir að Bogi hafi lagað kaffi og í þessum töluðu orðum er ég að drekka rjúkandi heitt pressukönnukaffi úr öðrum nýja bollanum frá foreldrum Gunnars. Ég er líka hamingjusöm að hafa átt afgang af pastanu frá í gær til að borða áðan, gróft pasta með rauðu pestói og parmesan klikkar ekki heldur þegar það er orðið kalt. Stundum er lífið svo ljúft...

miðvikudagur, janúar 11, 2006

...kerlan alveg að fara yfir um í að vakna snemma, var vöknuð klukkan hálf 8 í morgun og morgunmaturinn kominn niður rétt rúmlega 8, allbran og ab-mjólk er málið. Duglega ég!! :)

Afrek frá síðasta bloggi eru eftirtöld:
*Partý hjá Binnu, hroðalega gaman, lék á alls oddi. Þessir kokteilar sko!! ;)
*Eitthvað annað partý strax eftir Binnu-partý, jafn hress og áður en fékk víst gettó-stæla á leiðinni heim. Það var víst fyndið amk ef maður var ekki einhver viss manneskja híhíhíhíhí.
*Hangs með Möddu, urðum að fara á súfistann svo starfsfólkið þar mundi ekki sakan okkar. Pítan á undan, illt í magann og alltof sæt sósa! :/
*Narnía í bíó, fann barnið í mér og skemmti mér konunglega. Rifjuðust upp minningar frá bókunum og sjónvarpsþáttunum. Er ekki sammála öllum sem hafa tilkynnt mér að þeir hefðu skemmt sér betur ef þeir hefðu verið 12 ára.
*Þreif, þreif og þreif ennþá meira og þvoði endalaust. Já dugnaðurinn í hámarki undanfarið enda er orðið boðlegt að bjóða fólki heim. *fjúff*
*Las 2 bækur og búin með 1/4 af þeirri þriðju. Iðunn eftir Johanne Hildebandt (framhald af Freyju sem kom út í fyrra) var stórskemmtileg og hélt mér alveg fastri og Þriðja táknið eftir Yrsu Sigurðardóttir var þrælfín þó ég hafi lesið skemmtilegri spennusögur en það er nú alltaf þannig. :) Er stödd í miðju kafi í Bjargvættinum í grasinu (e.The Catcher in the Rye) eftir J.D. Salinger, frekar undarleg en ekki leiðinleg. Verð víst að passa mig á morðingjahvötunum eftir lesturinn því að morðingjar margra frægra manna voru/eru víst miklir aðdáendur þessarar bókar!
*Endalausir fundir síðustu daga og út vikuna, er ótrúlega mikilvæg þessa dagana. Vona að allt fari vel og þá læt ég vita annars þegji ég eins og steinn!

Á döfunni:
*Fara á skauta.
*Fara í heimsóknir.
*Elda eitthvað gott og hollt.
*Lesa meira, með bunka sem ég þarf að glugga í.
*Horfa á DuckTales fystu 27 þættina og volume 2 af Thundercats.
*Klára að horfa á The Stand eftir sögu Stephen King.
*örugglega eitthvað fleira sem er ótrúlega merkilegt en ekki nógu merkilegt til að muna eftir því akkúrat núna...

mánudagur, janúar 02, 2006

...áramótin klikkuðu auðvitað ekki. Fyrst var alveg hroðalega góður kalkúnn á Álftanesinu, svo var áramótaskaup og spjall hjá Gyðu, því næst flugeldagláp við Hallgrímskirkju, aftur til Gyðu og drukkið freyðivín og svo partý í spilasal Nexus. Þar var góð tónlist, ókeypis áfengi, skemmtilegt fólk, gleði í hjörtum, söngur á vörum og dans í fótum. Við Gunnar vorum komin heim klukkan átta um morguninn enda hrökk ég upp klukkan 18 í gær og vakti Gunnar svo hann gæti nú sofið um nóttina og vaknað í vörutalninguna ógurlegu í dag. Ég eyddi sem sagt fyrsta degi ársins sofandi því ég sofnaði aftur um klukkan 20 og svaf næstum til miðnættis og sofnaði svo aftur rétt rúmlega 3 og vaknaði fyrir klukkan 9 í morgun. Það stefnir samt allt í að annar dagur ársins verði aðeins betri, búin að lesa smá í annari jólabókinni, er að blogga langt blogg, er með stefnuna setta á gott bað og ætla aðeins að taka til og þvo! :)

Má samt ekki gleyma að segja frá að minnstu munaði að þessi áramót yrðu ekkert svo gleðileg fyrir okkur Gunnar og Gyðu því þegar við stóðum uppi við Hallgrímskirkju og dáðumst af öllum peningunum sem sprungu í öllum heimsins litum á himinhvolfinu valt flugeldakaka (eða hvað þetta nú kallast) hjá einhverjum á hliðina og skaut á okkur. Allt í einu stóð ég í neistaflóði og reyk, öskrandi með hjartað á fullu. En við vorum heppnari en maður sem stóð nálægt okkur og tók myndir því hann lá í götunni en ég held samt að hann hafi ekki slasast alvarlega. Gunnar fékk eitt skot í augað, en linsan virðist hafa bjargað honum því hún rispaðist en augað er heilt en aumt. Úlpan hans brenndist og hárið í hnakkanum sviðnaði. Við Gyða vorum allar úti í sóti, bæði kápurnar og skórnir voru alveg gráir en við vitum ekki hvort kápurnar skemmdust fyrr en við þvoum þær. Vettlingarnir hennar Gyðu sviðnuðu og ég fékk neista í fæturnar og í kinnarnar. Ég hafði sem betur fer náð mér í bómullarleggings heim áður en við fórum til Gyðu og var í þeim, þær eru heilar en nælonsokkabuxurnar voru allar götóttar svo það hefði getað farið illa. Pilsið mitt eyðilagðist og ég er með lítið brunasár á hnéinu. Þarna rétt hjá stóð barnavagn og sem betur fer sprakk ekki undir honum eða fór skot ofan í hann, það hefði verið alveg hræðilegt. Úff hvað okkur var brugðið enda þurftum við voðalega mikið að tala um þetta fyrst á eftir. Skondið samt að fyrst að þetta fór ekki illa sér maður eftir fötunum sem skemmdust en ef eitthvert okkar hefði skaðast alvarlega væri manni svo nákvæmlega sama...