miðvikudagur, maí 07, 2008

...margt og mikið gerst síðan síðast. Nokkrir skreppitúrar til Egilsstaða, þrotlausar æfingar fyrir leikritið, Dawid er orðinn stoltur Fjarðarbakkabúi, flutti stuttu eftir síðasta blogg og svo auðvitað frumsýningin. Já frumsýningin var alveg frábær og bara dagurinn allur sem byrjaði á generalprufu klukkan 13 svo það þurfti að mæta klukkan 11 í smink og hárgreiðslu. Svo var generalprufan sem eldriborgurum var boðið á og gekk hún alveg hæfilega brösulega, amk nóg til að allir væru sáttir því það þýðir víst að frumsýningin gangi vel. Eftir þetta skelltum við okkur í sund, pottana og gufu og enduðum sundferðina á að leika okkur með sundbolta, stelpur á móti strákum. Svo var slökunarjóga með Unni Óskars og að því loknu var bara kominn tími á að borða smá og fara aftur í smink. Snorri var mjög sáttur við daginn og sagðist aldrei hafa verið með svona rólegan frumsýningarhóp.

Frumsýning sjálf gekk alveg frábærlega, góð mæting, ekkert klúður sem talandi er um, salurinn frábær og krafturinn með ólíkindum. Eftir sýninguna þegar við fengum að tala við fólkið okkar byrjaði ég að skjálfa og fór næstum því að grenja, smá svona eftir taugakast eða hvað maður á að kalla þetta. Auðvitað var skálað í kampavíni á eftir og svo elduðu Maggi og Lilja lasagna og kjúklingakássu handa okkur öllum, að lokum var sungið og trallað og drukkið og hlegið og svo farið á Láruna þar sem gleðin hélt áfram fram á morgun. Það skemmdi ekkert fyrir gleðinni hvað fólk var duglegt að koma og þakka okkur fyrir og hrósa okkur og handritinu, þetta var bara eilíf sæluvíma. Ég ákvað svo að vera ekkert að fara í eftirpartý þó mig langaði því ég sá ekki fram á að nenna að labba heim og svo mátti ekki gleyma að önnur sýning var strax næsta kvöld. Hún gekk nú bara vonum framar, fólk ekkert mjög sjúskað og salurinn góður þó það væru fáir. Það vill nenfilega oft vera þannig að önnur sýning er léleg og mjög fáir mæta svo við vorum bara nokkuð sátt.

Það var mjög skrítið að fá svo tveggja daga frí, bara hvergi sem maður þurfti að vera allt kvöldið. Hvað átti maður að gera? Horfa á sjónvarpið vera með ástvinum? Eða fá flensu? Jú það síðasta varð fyrir valinu. Ekkert alvarlegt samt, er bara hrikalega tussuleg og hósta heilan helling. Tek bara hósatasaft og panodil fyrir sýninguna í kvöld því ég verð að standa mig alveg extra vel í kvöld því foreldrar mínir koma að berja mig augum. Svo á föstudaginn er lokasýning og þá ætlar Dawid að mæta aftur og taka myndir, gaman að eiga myndir af þessari lífsreynslu. Svo er þessari törn bara lokið en hver veit hvort maður verði með á næsta ári...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bara OF gaman:)

Nafnlaus sagði...

gg13 segi ég bara...